Tuesday, April 1, 2008

Steikt kálfakjöt með döðlutómötum í balsamic ediki og steinseljurótarmauki


Hér er ein auðveld og þægileg.
Ítalskt kálfakjöt er að vissu leyti einstakt og ófáanlegt annars staðar, það er ljóst eins og svínakjöt en samt sem áður er bragðið á við nautakjöt. Hægt er að nota svína kjöt í staðinn og í þessa uppskrift myndi henta best að vera með svínahnakka. Döðlutómatar eru pínulitlir tómatar sem eru íílangir í laginu, þeir bragðast svipað og kirsuberjatómatar en skinnið er þynnra og tómatarnir springa í munninum og bragðið er sætara. Steinselurót er drottnig rótarávaxtanna, hún er sæt og unaðsleg á bragðið, hún er þægileg að vinna með og hún passar sérstaklega vel með kjöti.

Steinseljurótarmauk
250 gr steinseljurót
50 gr smjör
salt og pipar
vatn

Aðferð: Skrælið steinseljurótina og skerið í munnbita, setijð í lítinn pott og hellið vatni yfir, sjóðið í ca. 10 mínútur eða þar til hún er alveg meyr. Hellið þá mestu af vatninu í skál en skiljið þó smávegis eftir. Maukið rótina með töfrasprota þar til hún er vel maukuð, bætið þá smjöri,salti og pipar, ef ykkur finnst maukið vera of þykkt er smá af soðvatninu hellt útí.

Döðlutómatar með balsamic ediki
1 skallottlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
200 gr döðlutómatar
50 ml balsamic edik
50 ml sykur
ólífuolía

Sjóðið edikið og sykurinn saman þar til það þykknar aðeins.
Hellið 1 msk ólífuolíu í lítinn pott, steikið laukinn við lágan hita í 5 mínútur, bætið þá tómötunum saman við og steikið við lágan hita í 5 mínútur til viðbótar.

Kjötið er sett á pönnu með blöndu af smjöri og ólífuolíu og steikt alveg í gegn og það hefur fengið á sig fallegan gullinbrúnan lit, ca 7 mínútur á hvorri hlið.

Borið fram: Setjið kjötið á hvern disk og raðið tómötunum í kring og hellið edikblöndunni yfir þá, setjið svo 1 msk af steinseljurótarmauki á hverja sneið.
Aths. fyrir þá sem búa erlendis er vel hægt að nota jerúsalem ætiþistla í staðinn fyrir steinseljurót.

No comments: