Wednesday, April 9, 2008

Aspasrúllur með prociutto, brenndu smjöri og stökku parmesankexi



Nú er aspasinn svo undursamlega fallegur að maður bara ræður ekki við sig í búðunum, ég bara varð að kaupa fullt af honum. Þennan rétt er sérstaklega gott að hafa sem for-forrétt eða hors d'ouvres. Það er vegna smjörsins, því ef maður borðar mikið af honum getur það orðið aðeins of mikið af því góða. En alveg hreint unaðslegur réttur. Aspas saman með smjöri eða eggjum er hið fullkomna hjónaband.

Aspasrúllur með prociutto, brenndu smjöri og stökku parmesankexi

fyrir 4

8 aspasstönglar
4 sneiðar af prociutto
70 gr smjör
40 gr parmesan, nýrifinn og rifinn gróft

Flysjið aspasinn upp að efsta hlutanum og setjið í saltað, sjóðandi vatn í 3-4 mín. Kælið strax undir rennandi köldu vatni. Látið renna af þeim og haldið til hliðar.
Bræðið smjörið í litlum potti og látið það brúnast.
Setjið gróftrifna parmesanostinn í 2 hringi á bökunarpappír og inn í ofn í 4-5 mín við 180°C, eða þar til hann fer að brúnast. Takið hann þá út og látið kólna örlítið, þegar hann hefur rétt kólnað en er enn mjúkur eru hringirnir settir yfir skál og látið kólna alveg þannig. Skálarnar eru síðan annað hvort haldið eða brotnar í stóra bita.
Rétt áður en þetta er borið fram er aspasinn vafinn í prociuttosneiðarnar, þær lagðar fallega á diska og smá af smjörinu sigtað yfir með fínu sigti, skreytt með parmesankexinu og fíntrifnum parmesan

No comments: