Monday, April 14, 2008

Blómkálsklattar með eggaldinlasagna




Ég var beðin um grænmetisrétti og hér kemur einn alveg geggjaður. Melanzane alla parmigiana hefur verið minn uppáhaldsréttur síðan ég smakkaði hann fyrst á Sardiníu árið 1995, þetta fullkomna hjónaband eggaldins, mozzarella og tómatsósu heillaði mig alveg upp úr skónum. Hins vegar þegar ég prófaði að gera þetta heima á Íslandi komst ég að því að þessi réttur er jafn dýr og nautalund með bernaise. Í dag ákvað ég að prófa að gera hann aðeins ódýrari og hann var ekki síðri, langt í frá, hann var geggjaður. Blómkálsklattarnir eru að litlu leiti stolnir af michelin staðnum sem ég var að vinna á nema færðir í annan búning og aðeins fljótlegri.

Blómkálsklattar

Handa 4
400 g blómkálsknúpar
1/2 kartafla
1 egg, þeytt lítillega með smá salti
brauðmylsna
hveiti til að velta upp úr
ólífuolía

Setjið blómkálið og kartöfluna í sjóðandi, saltað vatn og sjóðið í 4-5 mín. Þegar þeir eru mjúkir eru þeir teknir upp úr vatninu og settir strax undir rennandi kalt vatn og kældir alveg niður. Þegar þeir eru kaldir eru þeir hakkaðir með töfrasprota eða settir í blandara og hakkað í mauk. Ef blandan er mjög vatnsmikil er gott að setja maukið í pott og hita við háan hita í 4-5 mín til að láta vatnið gufa aðeins upp og þétta blönduna. Setjið eggið í grunna skál, setjið hveitið í aðra grunna skál og brauðmylsnuna í þá þriðju. Takið blómkálsmaukið þegar það hefur kólnað aðeins og mótið klatta í höndunum, veltið hverjum og einum varlega upp úr hveiti og svo í eggið og síðast upp úr brauðmylsnunni, þetta þarfnast varkárni þar sem klattarnir eru mjúkir. Setjið klattana á disk með bökunar pappír og setjið inn í frysti.
Á meðan búið til eggaldinlasagna.

Eggaldinlasagna

Handa 4

3 eggaldin, þunnt skorin
200 g rifin ostur, getur verið mozzarella, gouda eða hvað sem er
200 ml ólífuolía
1 dós hakkaðir tómatar
1/2 laukur, saxaður
100 gr rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C. Setjið eggaldinsneiðarnar á pappírsþurrku og saltið lítillega yfir hverja og eina sneið og látið liggja í 15-20 mín. Á meðan setjið 50 ml af ólífuolíu í pott og bætið lauknum saman við og steikið við meðal-lágan hita í 5- 10 mín, bætið þá tómötunum saman við og haldið á lágum hita á meðan eggaldinið er steikt. Þegar á að steikja eggaldinið er best að hafa 2 pönnur í gangi og setja lítið af ólífuolíu í hvora svo þegar hver sneið er sett á pönnuna er henni strokið fyrst einni hliðinni upp úr olíunni og svo steikt á hinni hliðinni. Þegar eggaldinið er brúnt á báðum hliðum er það lagt í lög í ofnfast fat og tómatsósa sett yfir hvert lag ásamt lagi af rifnum osti. Passið að tómatsósan sé efst og þar ofan á kemur rifinn ostur og svo um 100 g af rifnum parmesan osti. Þetta er svo bakað í ofni við 180°C í 30 mín. eða þar til osturinn er fallega gullinbrúnn.

Þegar eggaldinlasagnaið er tilbúið er það tekið úr ofninum og leyft að kólna aðeins. Þá eru blómmkálsklattarnir steiktir upp úr ólífuolíu, u.þ.b. 4 mín á hvorri hlið og svo settir inn í ofn í 4 mín til viðbótar.
Þetta er svo borið fram með ykkar uppáhaldssalati.

4 comments:

Ólöf said...

úúúúúú lúkkar vel síðan!! Líka girnilegur matur verð að prófa:)

Anonymous said...

Namm. En hvar á ég að setja hálfu kartöfluna?

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

takktakk
já hún fer með blómkálinu, best að bæta því inn núna;)

Anonymous said...

djísess ég drukknaði næstum í eigin munnvatni!
ætla þokkalega að prófa þetta! Hvenær komiði heim?
ást
kata