Tuesday, April 1, 2008

Ofnsteikt lambalæri með rósmarín og hvítlauk að ítölskum hætti


Þetta er lambakjöt sem ég fékk við Gardavatn um páskana, það er kannski ekkert nýtt í þessari uppskrift heldur frekar aðferðin sem gerði lambið sérstaklega bragðgott. Lambið sem við borðuðum var mjólkurlamb sem ekki er hægt að fá á Íslandi en okkar lamb er þó betra, verð ég að segja.
Það er í rauninni engin uppskrift með þessu heldur bara upptalning á því sem er sett í lambið.

1 lambalæri(það minnsta sem þið finnið)
2 rósmarínkvistar
3 hvítlauksrif
50 ml ólífuolía,extra virgin helst gæðavara
salt og pipar

Hitið ofninn í 190°C. Setjið lambið í ofnfast fat og smyrjið það með olíunni dreifið rósmaríninu yfir og saltið og piprið. Hvítlaukurinn er svo sneiddur gróft og settur í botninn á fatinu. Setjið inn í ofn og eldið í ca.1 1/2- 2 klst. Eftir 1 klst er rósmarín greinin tekin uppúr ásamt hvítlauknum og því hent.
Aths. ég mæli með því að kaupa lambalæri í kjötborðinu og láta afgreiðslufólkið þar úrbeina það fyrir ykkur og fáið að halda beininu, leggjið svo beinið í botninn á eldfasta fatinu með lambakjötinu. Þetta er gert til að gefa soðinu sem fellur af meira bragð ogþað er svo soðið aðeins niður og borið fram eins og það er. Ekki rjómabætt eða þess háttar, Ítalir eru nefnilega ekki mikið sósufólk eins og þeir vita sem hafa verið hér, þeir velja heldur að hafa soðið sem fellur af kjötinu með og dreypa örlitlu yfir kjötið til bragðbætingar.
Berið fram með soðnum kartöflum sem eru bragðbættar með salti,sítrónusafa og ólífuolíu.

1 comment:

Sean said...

Looks Delicious.