Sunday, June 28, 2009

Tölvubilanir

Já tölvan okkar crashaði í vikunni og hef ég því ekkert getað komið inn uppskriftum eða öðru hér á síðuna.
Eiginmaðurinn sá um kjúklinginn í vikunni og vildi endilega grilla hann og hann bætti hnetusmjöri saman við BBQ uppskriftina mína og það kom svo fáránlega vel út að það verður pottþétt gert aftur. Hann er alveg svakalegur dashari að það er vonlaust að komast að því hversu mikið hann setti í uppskriftina.
Ég fékk ekki villtan lax í þessari viku en vona að hann komi í næstu svo að ég geti fullnægt þeirri þörf. Maður á víst að borða mikið af laxi og bleikju á meðgöngu, eða helst feitu fiskunum, sem eru svo sem fleiri en þessir fara best ofan í restina af fjölskyldunni.

Tuesday, June 23, 2009

Matseðill fyrir vikuna 24.06-27.06

Ég frétti af villtum laxi í Melabúðinni í vikunni en það var víst lítið af honum því hann er búinn en ég bíð bara spennt eftir næstu sendingu og verð þá með eitthvað gómsætt með villtum laxi sem er algjört uppáhald hjá mér.
Ég er víst með mikið æði fyrir ávöxtum þessa dagana og hef borðað ógrynnin öll af þeim og það hefur ekki verið ódýrt, er gjörsamlega búin að sprengja vikueyðsluna með þessu. Á 5 dögum eru farin 4 epli,1,5 ananas(stór), 4 bananar, ´1/2 melóna, 2 appelsínur og ca 10 ferskjur, já ég get sagt ykkur að það kostar að vera ófrískur með æði. Þar að auki er ég með æði fyrir múslí sem er ekki heldur neitt sérstaklega ódýrt heldur og fer ég núna að búa til mína eigin blöndu þar sem ég er að fara með 1 kg á viku af þessu.

En að matnum, þar sem ég hef eytt vikupeningnum í þetta allt saman þá verð ég að vera extra sparsöm í kvöldmatnum. Ég væri alveg til í kjúklingasúpu á morgun með einhvers konar austurlenskum árhifum, kannski er það rigningin sem kemur þessari löngun í mig.
en best að koma inn matseðlinum:

Miðvikudagur
kjúklingasúpa með austurlenskum áhrifum

Fimmtudagur
ég ætla að reyna að ná í lax

Föstudagur
kallinn vill hafa grill ætli við sjáum ekki hvað verður á tilboði og ég ætla að hafa bakaðar kartöflur með og svokallaða piparsósu með en það er enginn rjómi og ekkert majónes, hmm spennandi.

Laugardagur
já við sjáum til hvar við verðum...

Thursday, June 18, 2009

Grilluð klaustursbleikja vafin í kerfil með kryddjurtakartöflumús

Ég fór í bakgarðinn hjá móður minni í dag og nældi mér í kerfil og svo í alveg hreint frábæra Klaustursbleikju á Freyjugötunni, ég þurfti svo að hreinsa af kryddjurtunum mínum úr glugganum, þar sem þær voru farnar að svigna undan þungum stórum blöðum, og úr varð ótrúlega gómsæt máltíð.
Þetta var allt svo sumarlegt og ferskt og létt í maga, ég mæli með þessum frábæra sumarrétti.
Ég var að frétta af villtum laxi í Melabúðinni í dag, þannig að ég fer hiklaust þangað í næstu viku og vonandi næ ég mér í einn slíkan, ég fæ ekki nóg af honum.
Ég bar þetta svo fram með ofnbökuðu brokkólí og strengjabaunum með parmesanosti, og Ab-mjólkursósunni sem ég var með síðast með bleikjunni(Ab-mjólk,maple sýróp og mynta)
En hér er uppskriftin sem er bæði einföld og fljótleg.

Grilluð Klaustursbleikja umvafin kerfli
f/4
2 heilar bleikjur
1 lime
fullt af kerfli
salt og pipar
annað hvort grillfiskigrind eða 2 grillbakkar

Aðferð:
1. Fyllið vaskinn af köldu vatni og dýfið kerflinum ofan í og hristið vel. Takið svo uppúr og annað hvort hristið vel eða setjið í salatvindu(ef þið eigið svoleiðis).
2. Þvoið fiskinn og þerrið með þurrku. Saltið og piprið að innan og utan. Skerið lime í sneiðar og leggjið innan í fiskinn.
3. Leggjið kerfil á bakkann og setjið fiskinn ofan á hreiðrið og setjið svo kerfil ofan á hann einnig.
4. Búið til kartöflumúsina og brokkólíið áður en fiskurinn er grillaður, þar sem það tekur svo stuttan tíma að grilla hann þá er best að hfa allt annað tilbúið og hita það svo bara upp rétt áður en fiskurinn er tilbúinn.

Kryddjurtakartöflumús
f/4
5-6 meðalstórar kartöflur, soðnar og maukaðar
4 msk fersk basilíka og sítrónumelissa, saxað
100-150 gr smjör
100 ml mjólk
salt og pipar

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar og maukið
2. stappið smjörið með kryddjurtunum og bætið svo út í heita músina og bætið mjólk smátt og smátt saman við þannig að hún verði léttari og vel hægt að hræra í henni, saltið eftir smekk og piprið, oft er smekksatriði með hversu mikið smjör og salt er notað því er best að smakka sig áfram og bæta alltaf smátt og smátt saman við og smakka. Best er að hræra í músinni yfir lágum hita og passa að leyfa henni ekki að sitja á hellunni þannig að hún brenni við.

Bakað brokkólí og strengjabaunir með parmesan
f/4
1/2 brokkólíhaus
2 lúkur af strengjabaunum
4 msk parmesan, rifinn gróft
1-2 msk extra virgin ólífuolía
salt og pipar

Aðferð:
1. Skerið brokkólíið í smá blóm og látið renna vatn á baunirnar ef þið eruð að nota frosnar.
2. Leggjð í eldfast mót og kveikið á ofninum á 180°C.
3. Hellið olíunni yfir og veltið upp úr henni, saltið og piprið og dreifið/rífið ostinn yfir
4. Bakið í 20-30 mínútur.

Tuesday, June 16, 2009

matseðill fyrir vikuna 16.06-19.06

Nú er sumarið gengið í garð með sínum hefðbundnu skrítnu vikum. Það er óvíst hvar maður verður hvern dag og óvænt heimboð færast í aukana, hvílíkur unaður!
Ég hef nú samt sem áður sett saman smá matseðil fyrir vikuna og kannski verður úr þessu hjá mér og kannski ekki það kemur bara í ljós.
Ég er komin með kryddjurtir út í glugga og setti kaffikorg í moldina hjá þeim fyrir helgi og fór svo út úr bænum í 2 daga, þegar ég kom heim þá höfðu þær vaxið um a.m.k. 5 sentímetra! Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég hef heldur ekki séð neina lús á basilíkunni, vonandi virkar þetta á þær líka.
Ég fer svo á morgun upp í matjurtagarðinn minn og set kaffikorg á grænmetið þar, það á víst að halda kálflugunni frá og hraða á vexti, vonandi virkar það eins vel og á kryddjurtirnar mínar.
Ég fór um helgina í tjaldferðalag og skemmti mér konunglega, að sjálfsögðu, nema hvað að það var auðvitað grillað og grillað. Ég hafði því, ásamt eiginmanninum, sett lambaprime í marineringu, búið til marineringu fyrir svínarif, búið til túnfisksalat og miðjarðarhafssósuna og kartöflusalat, ásamt að sjálfsögðu samlokum og flatkökum með hangikjeti. Lambakjötið lá í marineringu í 2 daga og var svo ótrúlega mjúkt og unaðslega bragðgott að það er á hreinu að ég geri þetta aftur, en ég er hins vegar komin með nóg af majónes/sýrðum sósum og ætla því að einbeita mér að einhvers konar léttum grillsósum á næstu vikum án majónessins og sýrða rjómans.
Þegar ég fór í síðustu viku að kaupa bleikju hjá fisksalanum í Þingholtinu þá upplýsti hún mig um það að á miðvikudögum fengi hún Klaustursbleikju, en það er einmitt bleikjan sem við notum á Voxinu og er algjört dúndur, ég ætla því að fara á fimmtudaginn og kaupa mér hjá henni.
En hér er matseðill vikunnar:

Þriðjudagur
Bakað tómatpasta með osti og parmesan, borið fram með brauði

Miðvikudagur
Þjóðhátíðardagur, best að plana sem minnst...

Fimmtudagur
Grilluð bleikja í kerfli með blóðbergskartöflumús

Föstudagur
Bómkáls- og brokkólíeggjabaka með chillipiparsósu og gúrku-og myntusalati

Tuesday, June 9, 2009

Grilluð bleikja með steiktum ananas og myntujógúrtsósu

Ég tók mig loksins til og eldaði fiskinn sem ég hef ætlað að gera í ansi langan tíma. Ég fór reyndar í Kolaportið um helgina og keypti mér Sílamávsegg og Svartfuglsegg, og ég sauð þau með matnum í kvöld. Þau voru mjög góð á bragðið en það var svo slepjulegt eitthvað að taka utan af þeim að ég missti eiginlega lystina á þeim en fjölskyldan var alveg rosalega sátt við þau, ég harðsauð þau og blandaði svo smá smjöri og salti saman við og hakkaði saman með töfrasprota og hitaði þangað til þau voru þurr.
Ananasinn í búðunum núna er alveg rosalega sætur og góður og ég mæli með því að nota hann í allt, hann er svo sumarlegur og ferskur og safaríkur.
Myntan er líka mjög sumarleg og fersk og kemur sterk inn. Mér finnst ekki passa við svona léttan og góðan mat eins og bleikju að vera með þykka majónessósu og langaði því í eitthvað annað en hafði samt ekki orku í að kokka upp eitthvað flókið og tímafrekt þannig að úr varð þessi dýrindissósa með AB-mjólk, maple sýrópi og myntu, þunn eins og mér fannst passa við og svo myntan sem lyfti henni á hærra plan.

Grilluð bleikja með steiktum ananas og myntujógúrtsósu
f/4
800-1 kg bleikja, beinhreinsið og skolið vel og þerrið svo með bréfi
1 lime, skorin í þunnar sneiðar
salt og pipar

Steiktur ananas með chilli og skallottulauk
2/3 ananas
2 litlir skallottulaukar, saxaðir eða sneiddir þunnt
1/2 chilli, grænn eða rauður, saxaður smátt
smá olía

Borið fram með kartöflumús

AB-mjólkursósa með mynta
200 ml ab-mjólk
2-3 msk mablesýróp
1 msk mynta, söxuð

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar
2. Skerið ananasinn, chillialdinið og skallottulaukinn og steikið í olíu í potti þar til laukurinn og chillialdinið er mjúkt, hægt er að hita þetta aftur upp þegar allt er tilbúið.
3. Hitið grillið og búið til sósuna
4. Þegar grillið er orðið heitt og kartöflurnar soðnar er bleikjan sett á grillið(á grillbakka með roðhliðina niður), hafið á meðal hita í ca. 5 mínútur á roðhliðinni eða þar til hann er tilbúinn(misjafnt eftir grillum).
5. Á meðan bleikjan er á grillinu er kartöflumúsin búin til, skrælið kartöflurnar og stappið, bætið smjöri, smá mjólk og saltið og piprið þar til hún smakkast guðdómlega(ég er algjör kartöflustöppuaðdáandi).
6. Gott er að hræra í músinni í potti yfir meðal-lágum hita og hita ananasinn upp á meðan á annarri hellu, þannig ætti allt að vera heitt þegar bleikjan er tilbúin.

Mjög gott er að bera þetta fram með ristuðu brauði smurðu með smjöri á meðan það er heitt til að smjörið bráðni og skerið í þríhyrninga

Saturday, June 6, 2009

Sætur sítrónukjúklingur með stökkri húð og spaghetti með strengjabaunum

Það er búið að vera svo brjálað að gera hjá okkur systrunum í undirbúningi fyrir sextugs afmæli móður minnar að það fór lítið fyrir fisknum á fimmtudaginn og svo í gær var svo farið á veitingastaðinn Dill, sem er þvílík snilld, mæli með honum.
Ég hins vegar eldaði dýrindisrétt á miðvikudaginn og ætla ég að setja hann hér inn, hann var hreint unaðslegur.
Ég hafði reyndar ekki tíma til að marinera þannig að þeir sem hafa tíma þá er það örugglega betra og þá er best að marinera hann í sólarhring.
Ég átti svo lítinn bakka af kjúkling og var því hrædd um að hann myndi ekki duga handa okkur og ákvað að hafa spaghetti með og það kom bara mjög vel út og það er alveg pottþétt að ég geri þennan rétt aftur. Þetta tók mig líka ca 15 mín fyrir utan tímann sem ég þurfti að bíða eftir kjúklingnum í ofninum og spaghetti-inu að sjóða, þannig að þennan rétt má alveg flokka undir fljótlegan rétt.

Sítrónukjúklingur með stökkri húð
f/4
1 kjúklingur eða 2 bakkar af kjúklingabitum
1-2 sítrónur(fer eftir stærð þeirra), bæði safinn og börkurinn(rifinn)
4 msk púðursykur
1 kjúklingakraftsteningur
vatn
salt og pipar
hveiti til að velta upp úr
2 hvítlauksrif

Spaghetti með strengjabaunum
f/4
80-100 gr af þurru spaghetti á mann
2 lúkur strengjabaunir(ég notaði bara frosnar)
1 stór skallottulaukur, saxaður
extra virgin ólífuolía

Aðferð-kjúklingur:
1. Skerið fitu og aukahúð af kjúklingnum og veltið upp úr hveiti og dustið aukahveiti af
2. Steikið kjúklinginn í olíu(má vera hvaða olía sem er) þar til hann verður gullinbrúnn,saltið hann og piprið.
3. Setjið kjúklingakraftinn í eldfast mót ásamt smá botnfylli af vatni, leggjið svo kjúklingabitana í mótið og rífið sítrónubörkinn yfir og kreistið svo sítrónurnar yfir og skerið hvítlaukinn gróft og dreifið í botninn á mótinu. Smyrjið svo púðursykri jafnt yfir húðina á kjúklingnum og bakið í ofninum við 200°C í 25-30 mínútur(fer eftir stærð bitanna, tékkið alltaf á stærsta bitanum hvort hann sé tilbúinn). Einnig er hægt að skera þunnar sítrónusneiðar og smyrja með smá púðursykri og stinga á milli kjúklingabitanna ef þið viljið.
4. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er spaghetti-ið soðið og strengjabaunirnar steiktar við meðalhita ásamt lauknum, það er í lagi að laukurinn verði stökkur og brúnn en passið að hann brenni ekki. Gott er að vera óspar á olíuna og nota extra virgin og steikja þetta vel og lengi. Saltið og piprið, best að nota flögusaltið hér.
5. Þegar spaghetti-ið er soðið er það sigtað og svo hellt á pönnuna með baununum og blandað vel saman og borið fram með kjúklingnum.
6. Þegar kjúklingurinn er borinn fram er gott að ausa vökvanum í mótinu rétt aðeins yfir húðina á kjúklingnum til að hafa þetta aðeins safaríkara.

Aths. ef þið ætlið að marinera kjúklinginn er best að setja bitana í skál og kreista sítrónurnar yfir þannig að vökvinn hylji(það gæti þurft fleiri sítrónur í þetta)og sleppið þá sítrónusafanum þegar hann er eldaður í ofninum og hafði aðeins kjúklingasoðið.
Þetta er fljótleg útgáfa af kjúklingnum sem var í brúðkaupinu mínu og við höfum notað þennan rétt í ansi margar veislur, hann slær alltaf í gegn!

Tuesday, June 2, 2009

matseðill fyrir vikuna 02.06.-07.06

Það verður smá sumarblær á matseðlinum þessa vikuna enda kominn júní. Ég tók mig og fjölskylduna til í dag og í gær og plantaði alls konar góðgæti í matjurtagarðinn sem ég hef tekið á leigu og hlakka mikið til í haust þegar ég má taka upp og sjá árangur erfiðisins.
Þar sem við vorum að vinna í garðinum fram að kvöldmatarleyti og allir glorhungraðir þegar heim var komið þá tók eiginmaðurinn sig til og bjó til dýrindis samlokur, fullar af mat, tóamtar,ostur,skinka, harðsoðin egg, agúrka og salat og bragðbætt með Dijon sinnepi og majónesi(brauðsneiðarnar eru ristaðar fyrst), bara mjög góður skyndibiti.
Á morgun byrjar svo vikan fyrir alvöru í matardagskránni.
Ég ákvað að hafa grillaðar pizzur í gær og fann það út að það er best að taka botninn og grilla hann á annarri hliðinni fyrst og svo snúa við og setja fyllinguna og ostinn og grilla þá hina hliðina og loka grillinu. Þetta er nú örugglega misjafnt eftir grillum en svona virkar þetta best hjá okkur.
Ég gerði spaghetti carbonara(uppskrift komin inn, bara googla) og grillaði grófar margaritupizzur með, þá bjó ég til margar litlar pizzur, það kom mjög vel út og Heklu fannst það algjört æði að hafa litlar barnapizzur eins og hún kallaði þær.

Þriðjudagur
Samlokur

Miðvikudagur
Sítrónumarineruð kjúklingalæri með stökkri húð borið fram með hrísgrjónum og salati

Fimmtudagur
Grilluð bleikja í kerfli með steiktum chilli ananas, ofnsteiktum myntukartöflum og fersku salati

Föstudagur
Á þessum degi verður farið út að borða á Dill og hlakka ég svakalega til!

Laugardagur
eins og fyrr vil ég ekkert ákveða með þennan dag, það getur ýmislegt skemmtilegt gerst á laugardögum

Sunnudagur
Lauflétt pasta með strengjabaunum og myntu borið fram með fersku salati og brauði