Ég tók mig loksins til og eldaði fiskinn sem ég hef ætlað að gera í ansi langan tíma. Ég fór reyndar í Kolaportið um helgina og keypti mér Sílamávsegg og Svartfuglsegg, og ég sauð þau með matnum í kvöld. Þau voru mjög góð á bragðið en það var svo slepjulegt eitthvað að taka utan af þeim að ég missti eiginlega lystina á þeim en fjölskyldan var alveg rosalega sátt við þau, ég harðsauð þau og blandaði svo smá smjöri og salti saman við og hakkaði saman með töfrasprota og hitaði þangað til þau voru þurr.
Ananasinn í búðunum núna er alveg rosalega sætur og góður og ég mæli með því að nota hann í allt, hann er svo sumarlegur og ferskur og safaríkur.
Myntan er líka mjög sumarleg og fersk og kemur sterk inn. Mér finnst ekki passa við svona léttan og góðan mat eins og bleikju að vera með þykka majónessósu og langaði því í eitthvað annað en hafði samt ekki orku í að kokka upp eitthvað flókið og tímafrekt þannig að úr varð þessi dýrindissósa með AB-mjólk, maple sýrópi og myntu, þunn eins og mér fannst passa við og svo myntan sem lyfti henni á hærra plan.
Grilluð bleikja með steiktum ananas og myntujógúrtsósu
f/4
800-1 kg bleikja, beinhreinsið og skolið vel og þerrið svo með bréfi
1 lime, skorin í þunnar sneiðar
salt og pipar
Steiktur ananas með chilli og skallottulauk
2/3 ananas
2 litlir skallottulaukar, saxaðir eða sneiddir þunnt
1/2 chilli, grænn eða rauður, saxaður smátt
smá olía
Borið fram með kartöflumús
AB-mjólkursósa með mynta
200 ml ab-mjólk
2-3 msk mablesýróp
1 msk mynta, söxuð
Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar
2. Skerið ananasinn, chillialdinið og skallottulaukinn og steikið í olíu í potti þar til laukurinn og chillialdinið er mjúkt, hægt er að hita þetta aftur upp þegar allt er tilbúið.
3. Hitið grillið og búið til sósuna
4. Þegar grillið er orðið heitt og kartöflurnar soðnar er bleikjan sett á grillið(á grillbakka með roðhliðina niður), hafið á meðal hita í ca. 5 mínútur á roðhliðinni eða þar til hann er tilbúinn(misjafnt eftir grillum).
5. Á meðan bleikjan er á grillinu er kartöflumúsin búin til, skrælið kartöflurnar og stappið, bætið smjöri, smá mjólk og saltið og piprið þar til hún smakkast guðdómlega(ég er algjör kartöflustöppuaðdáandi).
6. Gott er að hræra í músinni í potti yfir meðal-lágum hita og hita ananasinn upp á meðan á annarri hellu, þannig ætti allt að vera heitt þegar bleikjan er tilbúin.
Mjög gott er að bera þetta fram með ristuðu brauði smurðu með smjöri á meðan það er heitt til að smjörið bráðni og skerið í þríhyrninga
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment