Ég fór í bakgarðinn hjá móður minni í dag og nældi mér í kerfil og svo í alveg hreint frábæra Klaustursbleikju á Freyjugötunni, ég þurfti svo að hreinsa af kryddjurtunum mínum úr glugganum, þar sem þær voru farnar að svigna undan þungum stórum blöðum, og úr varð ótrúlega gómsæt máltíð.
Þetta var allt svo sumarlegt og ferskt og létt í maga, ég mæli með þessum frábæra sumarrétti.
Ég var að frétta af villtum laxi í Melabúðinni í dag, þannig að ég fer hiklaust þangað í næstu viku og vonandi næ ég mér í einn slíkan, ég fæ ekki nóg af honum.
Ég bar þetta svo fram með ofnbökuðu brokkólí og strengjabaunum með parmesanosti, og Ab-mjólkursósunni sem ég var með síðast með bleikjunni(Ab-mjólk,maple sýróp og mynta)
En hér er uppskriftin sem er bæði einföld og fljótleg.
Grilluð Klaustursbleikja umvafin kerfli
f/4
2 heilar bleikjur
1 lime
fullt af kerfli
salt og pipar
annað hvort grillfiskigrind eða 2 grillbakkar
Aðferð:
1. Fyllið vaskinn af köldu vatni og dýfið kerflinum ofan í og hristið vel. Takið svo uppúr og annað hvort hristið vel eða setjið í salatvindu(ef þið eigið svoleiðis).
2. Þvoið fiskinn og þerrið með þurrku. Saltið og piprið að innan og utan. Skerið lime í sneiðar og leggjið innan í fiskinn.
3. Leggjið kerfil á bakkann og setjið fiskinn ofan á hreiðrið og setjið svo kerfil ofan á hann einnig.
4. Búið til kartöflumúsina og brokkólíið áður en fiskurinn er grillaður, þar sem það tekur svo stuttan tíma að grilla hann þá er best að hfa allt annað tilbúið og hita það svo bara upp rétt áður en fiskurinn er tilbúinn.
Kryddjurtakartöflumús
f/4
5-6 meðalstórar kartöflur, soðnar og maukaðar
4 msk fersk basilíka og sítrónumelissa, saxað
100-150 gr smjör
100 ml mjólk
salt og pipar
Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar og maukið
2. stappið smjörið með kryddjurtunum og bætið svo út í heita músina og bætið mjólk smátt og smátt saman við þannig að hún verði léttari og vel hægt að hræra í henni, saltið eftir smekk og piprið, oft er smekksatriði með hversu mikið smjör og salt er notað því er best að smakka sig áfram og bæta alltaf smátt og smátt saman við og smakka. Best er að hræra í músinni yfir lágum hita og passa að leyfa henni ekki að sitja á hellunni þannig að hún brenni við.
Bakað brokkólí og strengjabaunir með parmesan
f/4
1/2 brokkólíhaus
2 lúkur af strengjabaunum
4 msk parmesan, rifinn gróft
1-2 msk extra virgin ólífuolía
salt og pipar
Aðferð:
1. Skerið brokkólíið í smá blóm og látið renna vatn á baunirnar ef þið eruð að nota frosnar.
2. Leggjð í eldfast mót og kveikið á ofninum á 180°C.
3. Hellið olíunni yfir og veltið upp úr henni, saltið og piprið og dreifið/rífið ostinn yfir
4. Bakið í 20-30 mínútur.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment