Tuesday, June 16, 2009

matseðill fyrir vikuna 16.06-19.06

Nú er sumarið gengið í garð með sínum hefðbundnu skrítnu vikum. Það er óvíst hvar maður verður hvern dag og óvænt heimboð færast í aukana, hvílíkur unaður!
Ég hef nú samt sem áður sett saman smá matseðil fyrir vikuna og kannski verður úr þessu hjá mér og kannski ekki það kemur bara í ljós.
Ég er komin með kryddjurtir út í glugga og setti kaffikorg í moldina hjá þeim fyrir helgi og fór svo út úr bænum í 2 daga, þegar ég kom heim þá höfðu þær vaxið um a.m.k. 5 sentímetra! Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég hef heldur ekki séð neina lús á basilíkunni, vonandi virkar þetta á þær líka.
Ég fer svo á morgun upp í matjurtagarðinn minn og set kaffikorg á grænmetið þar, það á víst að halda kálflugunni frá og hraða á vexti, vonandi virkar það eins vel og á kryddjurtirnar mínar.
Ég fór um helgina í tjaldferðalag og skemmti mér konunglega, að sjálfsögðu, nema hvað að það var auðvitað grillað og grillað. Ég hafði því, ásamt eiginmanninum, sett lambaprime í marineringu, búið til marineringu fyrir svínarif, búið til túnfisksalat og miðjarðarhafssósuna og kartöflusalat, ásamt að sjálfsögðu samlokum og flatkökum með hangikjeti. Lambakjötið lá í marineringu í 2 daga og var svo ótrúlega mjúkt og unaðslega bragðgott að það er á hreinu að ég geri þetta aftur, en ég er hins vegar komin með nóg af majónes/sýrðum sósum og ætla því að einbeita mér að einhvers konar léttum grillsósum á næstu vikum án majónessins og sýrða rjómans.
Þegar ég fór í síðustu viku að kaupa bleikju hjá fisksalanum í Þingholtinu þá upplýsti hún mig um það að á miðvikudögum fengi hún Klaustursbleikju, en það er einmitt bleikjan sem við notum á Voxinu og er algjört dúndur, ég ætla því að fara á fimmtudaginn og kaupa mér hjá henni.
En hér er matseðill vikunnar:

Þriðjudagur
Bakað tómatpasta með osti og parmesan, borið fram með brauði

Miðvikudagur
Þjóðhátíðardagur, best að plana sem minnst...

Fimmtudagur
Grilluð bleikja í kerfli með blóðbergskartöflumús

Föstudagur
Bómkáls- og brokkólíeggjabaka með chillipiparsósu og gúrku-og myntusalati

No comments: