Saturday, June 6, 2009

Sætur sítrónukjúklingur með stökkri húð og spaghetti með strengjabaunum

Það er búið að vera svo brjálað að gera hjá okkur systrunum í undirbúningi fyrir sextugs afmæli móður minnar að það fór lítið fyrir fisknum á fimmtudaginn og svo í gær var svo farið á veitingastaðinn Dill, sem er þvílík snilld, mæli með honum.
Ég hins vegar eldaði dýrindisrétt á miðvikudaginn og ætla ég að setja hann hér inn, hann var hreint unaðslegur.
Ég hafði reyndar ekki tíma til að marinera þannig að þeir sem hafa tíma þá er það örugglega betra og þá er best að marinera hann í sólarhring.
Ég átti svo lítinn bakka af kjúkling og var því hrædd um að hann myndi ekki duga handa okkur og ákvað að hafa spaghetti með og það kom bara mjög vel út og það er alveg pottþétt að ég geri þennan rétt aftur. Þetta tók mig líka ca 15 mín fyrir utan tímann sem ég þurfti að bíða eftir kjúklingnum í ofninum og spaghetti-inu að sjóða, þannig að þennan rétt má alveg flokka undir fljótlegan rétt.

Sítrónukjúklingur með stökkri húð
f/4
1 kjúklingur eða 2 bakkar af kjúklingabitum
1-2 sítrónur(fer eftir stærð þeirra), bæði safinn og börkurinn(rifinn)
4 msk púðursykur
1 kjúklingakraftsteningur
vatn
salt og pipar
hveiti til að velta upp úr
2 hvítlauksrif

Spaghetti með strengjabaunum
f/4
80-100 gr af þurru spaghetti á mann
2 lúkur strengjabaunir(ég notaði bara frosnar)
1 stór skallottulaukur, saxaður
extra virgin ólífuolía

Aðferð-kjúklingur:
1. Skerið fitu og aukahúð af kjúklingnum og veltið upp úr hveiti og dustið aukahveiti af
2. Steikið kjúklinginn í olíu(má vera hvaða olía sem er) þar til hann verður gullinbrúnn,saltið hann og piprið.
3. Setjið kjúklingakraftinn í eldfast mót ásamt smá botnfylli af vatni, leggjið svo kjúklingabitana í mótið og rífið sítrónubörkinn yfir og kreistið svo sítrónurnar yfir og skerið hvítlaukinn gróft og dreifið í botninn á mótinu. Smyrjið svo púðursykri jafnt yfir húðina á kjúklingnum og bakið í ofninum við 200°C í 25-30 mínútur(fer eftir stærð bitanna, tékkið alltaf á stærsta bitanum hvort hann sé tilbúinn). Einnig er hægt að skera þunnar sítrónusneiðar og smyrja með smá púðursykri og stinga á milli kjúklingabitanna ef þið viljið.
4. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er spaghetti-ið soðið og strengjabaunirnar steiktar við meðalhita ásamt lauknum, það er í lagi að laukurinn verði stökkur og brúnn en passið að hann brenni ekki. Gott er að vera óspar á olíuna og nota extra virgin og steikja þetta vel og lengi. Saltið og piprið, best að nota flögusaltið hér.
5. Þegar spaghetti-ið er soðið er það sigtað og svo hellt á pönnuna með baununum og blandað vel saman og borið fram með kjúklingnum.
6. Þegar kjúklingurinn er borinn fram er gott að ausa vökvanum í mótinu rétt aðeins yfir húðina á kjúklingnum til að hafa þetta aðeins safaríkara.

Aths. ef þið ætlið að marinera kjúklinginn er best að setja bitana í skál og kreista sítrónurnar yfir þannig að vökvinn hylji(það gæti þurft fleiri sítrónur í þetta)og sleppið þá sítrónusafanum þegar hann er eldaður í ofninum og hafði aðeins kjúklingasoðið.
Þetta er fljótleg útgáfa af kjúklingnum sem var í brúðkaupinu mínu og við höfum notað þennan rétt í ansi margar veislur, hann slær alltaf í gegn!

No comments: