Monday, April 14, 2008

Blómkálsklattar með eggaldinlasagna




Ég var beðin um grænmetisrétti og hér kemur einn alveg geggjaður. Melanzane alla parmigiana hefur verið minn uppáhaldsréttur síðan ég smakkaði hann fyrst á Sardiníu árið 1995, þetta fullkomna hjónaband eggaldins, mozzarella og tómatsósu heillaði mig alveg upp úr skónum. Hins vegar þegar ég prófaði að gera þetta heima á Íslandi komst ég að því að þessi réttur er jafn dýr og nautalund með bernaise. Í dag ákvað ég að prófa að gera hann aðeins ódýrari og hann var ekki síðri, langt í frá, hann var geggjaður. Blómkálsklattarnir eru að litlu leiti stolnir af michelin staðnum sem ég var að vinna á nema færðir í annan búning og aðeins fljótlegri.

Blómkálsklattar

Handa 4
400 g blómkálsknúpar
1/2 kartafla
1 egg, þeytt lítillega með smá salti
brauðmylsna
hveiti til að velta upp úr
ólífuolía

Setjið blómkálið og kartöfluna í sjóðandi, saltað vatn og sjóðið í 4-5 mín. Þegar þeir eru mjúkir eru þeir teknir upp úr vatninu og settir strax undir rennandi kalt vatn og kældir alveg niður. Þegar þeir eru kaldir eru þeir hakkaðir með töfrasprota eða settir í blandara og hakkað í mauk. Ef blandan er mjög vatnsmikil er gott að setja maukið í pott og hita við háan hita í 4-5 mín til að láta vatnið gufa aðeins upp og þétta blönduna. Setjið eggið í grunna skál, setjið hveitið í aðra grunna skál og brauðmylsnuna í þá þriðju. Takið blómkálsmaukið þegar það hefur kólnað aðeins og mótið klatta í höndunum, veltið hverjum og einum varlega upp úr hveiti og svo í eggið og síðast upp úr brauðmylsnunni, þetta þarfnast varkárni þar sem klattarnir eru mjúkir. Setjið klattana á disk með bökunar pappír og setjið inn í frysti.
Á meðan búið til eggaldinlasagna.

Eggaldinlasagna

Handa 4

3 eggaldin, þunnt skorin
200 g rifin ostur, getur verið mozzarella, gouda eða hvað sem er
200 ml ólífuolía
1 dós hakkaðir tómatar
1/2 laukur, saxaður
100 gr rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C. Setjið eggaldinsneiðarnar á pappírsþurrku og saltið lítillega yfir hverja og eina sneið og látið liggja í 15-20 mín. Á meðan setjið 50 ml af ólífuolíu í pott og bætið lauknum saman við og steikið við meðal-lágan hita í 5- 10 mín, bætið þá tómötunum saman við og haldið á lágum hita á meðan eggaldinið er steikt. Þegar á að steikja eggaldinið er best að hafa 2 pönnur í gangi og setja lítið af ólífuolíu í hvora svo þegar hver sneið er sett á pönnuna er henni strokið fyrst einni hliðinni upp úr olíunni og svo steikt á hinni hliðinni. Þegar eggaldinið er brúnt á báðum hliðum er það lagt í lög í ofnfast fat og tómatsósa sett yfir hvert lag ásamt lagi af rifnum osti. Passið að tómatsósan sé efst og þar ofan á kemur rifinn ostur og svo um 100 g af rifnum parmesan osti. Þetta er svo bakað í ofni við 180°C í 30 mín. eða þar til osturinn er fallega gullinbrúnn.

Þegar eggaldinlasagnaið er tilbúið er það tekið úr ofninum og leyft að kólna aðeins. Þá eru blómmkálsklattarnir steiktir upp úr ólífuolíu, u.þ.b. 4 mín á hvorri hlið og svo settir inn í ofn í 4 mín til viðbótar.
Þetta er svo borið fram með ykkar uppáhaldssalati.

Friday, April 11, 2008

Steiktur aspas með beikoni


Enn og aftur aspas. Hér hef ég hann með beikoni. Það sem helst þarf að hafa í huga þegar aspas er eldaður er að sjóða/steikja hann ekki of mikið, þá getur hann orðið seigur. Það þarf líka að steikja hann við lágan hita, frekar en háan. Þetta er einnig líklegast auðveldasti forréttur sem til er.

Fyrir 4

8 aspasstönglar
4 beikonsneiðar

Skrælið aspasinn næstum upp að toppnum, vefjið einni beikonsneið utan um tvo stöngla. Setjið á pönnu við meðal-háan hita steikið í 2 mín á hvorri hlið, lækkið þá hitann í lágan og setjið lok á pönnuna, steikið í 3 mín til viðbótar eða þar til aspasinn er orðinn mjúkur viðkomu og beikonið er stökkt. Berið strax fram.

Wednesday, April 9, 2008

Aspasrúllur með prociutto, brenndu smjöri og stökku parmesankexi



Nú er aspasinn svo undursamlega fallegur að maður bara ræður ekki við sig í búðunum, ég bara varð að kaupa fullt af honum. Þennan rétt er sérstaklega gott að hafa sem for-forrétt eða hors d'ouvres. Það er vegna smjörsins, því ef maður borðar mikið af honum getur það orðið aðeins of mikið af því góða. En alveg hreint unaðslegur réttur. Aspas saman með smjöri eða eggjum er hið fullkomna hjónaband.

Aspasrúllur með prociutto, brenndu smjöri og stökku parmesankexi

fyrir 4

8 aspasstönglar
4 sneiðar af prociutto
70 gr smjör
40 gr parmesan, nýrifinn og rifinn gróft

Flysjið aspasinn upp að efsta hlutanum og setjið í saltað, sjóðandi vatn í 3-4 mín. Kælið strax undir rennandi köldu vatni. Látið renna af þeim og haldið til hliðar.
Bræðið smjörið í litlum potti og látið það brúnast.
Setjið gróftrifna parmesanostinn í 2 hringi á bökunarpappír og inn í ofn í 4-5 mín við 180°C, eða þar til hann fer að brúnast. Takið hann þá út og látið kólna örlítið, þegar hann hefur rétt kólnað en er enn mjúkur eru hringirnir settir yfir skál og látið kólna alveg þannig. Skálarnar eru síðan annað hvort haldið eða brotnar í stóra bita.
Rétt áður en þetta er borið fram er aspasinn vafinn í prociuttosneiðarnar, þær lagðar fallega á diska og smá af smjörinu sigtað yfir með fínu sigti, skreytt með parmesankexinu og fíntrifnum parmesan

Monday, April 7, 2008

Gratineraðar kartöflur með vorlauk og béchamel sósu



Gratineraðar kartöflur er mjög einfalt að gera og þegar veðrið er eins og það er á Íslandi er alltaf hægt að ylja sér með unaðslega rjómakenndum kartöflum. Það er mjög gott að bera þær fram með fiski-eða kjötfrikadellum, fisk eða bragðlitlu kjöti þar sem kartöflurnar eru mjög bragðmiklar og gætu stolið senunni.

Gratineraðar kartöflur með vorlauk og béchamelsósu
f/4
400 gr kartöflur, skornar í þykkar sneiðar
50 gr vorlaukur, skorinn á ská í sneiðar
500 ml mjólk(má vera nýmjólk eða léttmjólk)
50 gr smjör
40 gr hveiti
hnífsoddur af múskathnetu, nýrifinn
salt og pipar
parmaostur, nýrifinn
Hitið ofninn í 180°C.Bræðið smjör í potti þegar það er bráðið er hveitinu bætt saman við og blandað vel saman þar til það myndar bollu, þá er mjólkinni bætt saman við og pískað stanslaust þar til mjólkin fer að sjóða og mjólkin orðin þykk. Þá er múskatinu bætt útí.
Kartöflurnar eru lagðar í lög ásamt vorlauknum, saltið og piprið og því næst er béchamelsósunni hellt yfir og sett inn í ofn við 180°C í 1 klst. Þá er parmesan osturinn rifinn yfir, ríflegt magn og sett undir grillið í nokkrar mín við 200°C eða þar til það fer að brúnast.
Berið fram .

Thursday, April 3, 2008

Ofur einfaldur ofnsteiktur kjúklingur


Í þessari uppskrift er hægt að nota hvaða kjúkling sem er, allt frá hamflettum bringum upp í heilan kjúkling. Það sem þarf að gera er að skera grænmeti og henda í fat og inn í ofn, gæti ekki verið einfaldara og betra..

Ofur einfaldur ofnsteiktur kjúklingur

f/4

1 kjúklingur eða 4 kjúklingabringur eða 8 kjúklingabitar
4 gulrætur, skornar í litla ferninga
1/2 sellerístöngull, skorinn í litla bita
1/2 laukur, saxaður gróft
400 gr litlar kartöflur, skornar í frekar litla bita, ekki þó eins litla og gulrótina
4 salvíulauf
4 timjankvistir, bara laufin
vatn og kjúklingakraftur
ólífuolía

Aðferð:
Hitið ofinn í 190°C. Hitið ólífuolíuna á pönnu eða í pottinum sem verður notaður fyrir kjúklinginn. Setjið allt grænmetið í og steikið létt, bætið kjúklingnum saman við og steikið lítillega hellið þá soðinu saman við(það á að ná upp að helming kjúklingsins, 1 krafteningur er fyrir hverja 500 ml),stráið kryddjurtunum yfir, setijð lok á og inn í ofn. Tíminn fer eftir hvers konar vöðva þið notið; kjúklingabringur eða bitar taka u.þ.b. 30-40 mín og heill kjúklingur tekur 1-1 1 /2 klst, ef þið eruð með leirpott er það 1 1/2 klst ef þynnri pottur er notaður er að 1 klst. Best er að athuga hvort hann sé tilbúinn. Soðið er notað sem sósa.
Afgangurinn af kartöflunum var svo notaður daginn eftir líka, þær eru jafnvel betri þá.

Tuesday, April 1, 2008

Ofnsteikt lambalæri með rósmarín og hvítlauk að ítölskum hætti


Þetta er lambakjöt sem ég fékk við Gardavatn um páskana, það er kannski ekkert nýtt í þessari uppskrift heldur frekar aðferðin sem gerði lambið sérstaklega bragðgott. Lambið sem við borðuðum var mjólkurlamb sem ekki er hægt að fá á Íslandi en okkar lamb er þó betra, verð ég að segja.
Það er í rauninni engin uppskrift með þessu heldur bara upptalning á því sem er sett í lambið.

1 lambalæri(það minnsta sem þið finnið)
2 rósmarínkvistar
3 hvítlauksrif
50 ml ólífuolía,extra virgin helst gæðavara
salt og pipar

Hitið ofninn í 190°C. Setjið lambið í ofnfast fat og smyrjið það með olíunni dreifið rósmaríninu yfir og saltið og piprið. Hvítlaukurinn er svo sneiddur gróft og settur í botninn á fatinu. Setjið inn í ofn og eldið í ca.1 1/2- 2 klst. Eftir 1 klst er rósmarín greinin tekin uppúr ásamt hvítlauknum og því hent.
Aths. ég mæli með því að kaupa lambalæri í kjötborðinu og láta afgreiðslufólkið þar úrbeina það fyrir ykkur og fáið að halda beininu, leggjið svo beinið í botninn á eldfasta fatinu með lambakjötinu. Þetta er gert til að gefa soðinu sem fellur af meira bragð ogþað er svo soðið aðeins niður og borið fram eins og það er. Ekki rjómabætt eða þess háttar, Ítalir eru nefnilega ekki mikið sósufólk eins og þeir vita sem hafa verið hér, þeir velja heldur að hafa soðið sem fellur af kjötinu með og dreypa örlitlu yfir kjötið til bragðbætingar.
Berið fram með soðnum kartöflum sem eru bragðbættar með salti,sítrónusafa og ólífuolíu.

Steikt kálfakjöt með döðlutómötum í balsamic ediki og steinseljurótarmauki


Hér er ein auðveld og þægileg.
Ítalskt kálfakjöt er að vissu leyti einstakt og ófáanlegt annars staðar, það er ljóst eins og svínakjöt en samt sem áður er bragðið á við nautakjöt. Hægt er að nota svína kjöt í staðinn og í þessa uppskrift myndi henta best að vera með svínahnakka. Döðlutómatar eru pínulitlir tómatar sem eru íílangir í laginu, þeir bragðast svipað og kirsuberjatómatar en skinnið er þynnra og tómatarnir springa í munninum og bragðið er sætara. Steinselurót er drottnig rótarávaxtanna, hún er sæt og unaðsleg á bragðið, hún er þægileg að vinna með og hún passar sérstaklega vel með kjöti.

Steinseljurótarmauk
250 gr steinseljurót
50 gr smjör
salt og pipar
vatn

Aðferð: Skrælið steinseljurótina og skerið í munnbita, setijð í lítinn pott og hellið vatni yfir, sjóðið í ca. 10 mínútur eða þar til hún er alveg meyr. Hellið þá mestu af vatninu í skál en skiljið þó smávegis eftir. Maukið rótina með töfrasprota þar til hún er vel maukuð, bætið þá smjöri,salti og pipar, ef ykkur finnst maukið vera of þykkt er smá af soðvatninu hellt útí.

Döðlutómatar með balsamic ediki
1 skallottlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
200 gr döðlutómatar
50 ml balsamic edik
50 ml sykur
ólífuolía

Sjóðið edikið og sykurinn saman þar til það þykknar aðeins.
Hellið 1 msk ólífuolíu í lítinn pott, steikið laukinn við lágan hita í 5 mínútur, bætið þá tómötunum saman við og steikið við lágan hita í 5 mínútur til viðbótar.

Kjötið er sett á pönnu með blöndu af smjöri og ólífuolíu og steikt alveg í gegn og það hefur fengið á sig fallegan gullinbrúnan lit, ca 7 mínútur á hvorri hlið.

Borið fram: Setjið kjötið á hvern disk og raðið tómötunum í kring og hellið edikblöndunni yfir þá, setjið svo 1 msk af steinseljurótarmauki á hverja sneið.
Aths. fyrir þá sem búa erlendis er vel hægt að nota jerúsalem ætiþistla í staðinn fyrir steinseljurót.