Monday, January 26, 2009

Steiktar svínalundir með léttri hvítvíns-og gráðostasósu

Ég var eitthvað illa fyrirkölluð á sunnudaginn og þess vegna tók eiginmaðurinn að sér eldamennskuna það kvöldið og stóð sig með stakri prýði að vanda. Ég verð nú reyndar að viðurkenna að þessi uppskrift kemur beint upp úr uppskriftabók sem heitir Silfurskeiðin og er jú hin mesta snilld! Þar er hægt að finna fullt af léttum uppskriftum ásamt þungum og þá í báðum skilningi þessara orða. Enda var þessi svo einföld að hún tók ekki nema 5 cm pláss á blaðsíðunni, lítið af hráefnum og einföld matreiðsla, gerist ekki betra. Ég hef nú fjárfest í nýrri hvítvínsbelju þannig að þið megið búast við uppskriftum sem eru með því í, það er svo gott að nota vín í mat.

Svínakótilettur með léttri hvítvíns-og gráðostasósu
f/3-4
4 svínakótilettur
25 gr smjör
5 msk hvítvín
100 gr gorgonzola/íslenskur gráðostur
salt
Franskar kartöflur

Aðferð:
1. Hitið ofninn og bakið frönsku kartöflurnar
2. Hitið pönnu og bræðið smjörið og steikið því næst kótiletturnar
3. þegar þær eru steiktar eru þær teknar af pönnunni og í eldfast mót, álpappír settur yfir og haldið á þeim hita. Hellið hvítvíninu á pönnuna og látið sjóða örlítið niður og bætið þá ostinum saman við. Saltið og rétturinn er tilbúinn.
Berið fram með frönskum kartöflum.

Friday, January 23, 2009

Léttur og ódýr ýsuréttur

Ég er rosalega stolt af þessum rétti, hann var svo góður og svo einfaldur að það tók manninn minn(undir minni handleiðslu)10 mínútur að gera hann, þess vegna er gott að byrja á kartöflunum þar sem þær taka mestan tíma, ég sýð líka alltaf aðeins of mikið af þeim til þess að geta búið til kartöflusalat handa eiginmanninum í nesti. Ég fór í Kópavoginn á extra sparneytna bílnum mínum og keypti svo ferska ýsu í fiskibúðinni Freyju, að við bara slefuðum yfir henni, hún var algert æði og svo ódýr!

Léttur og ódýr ýsuréttur
f/4
800 gr ýsa
1/2 krukka ólífur
1 tsk capers
150 ml hvítvín
1 skallottulaukur
400-500 gr kartöflur, soðnar
ólífuolía,sítrónusafi,salt

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni, afhýðið þegar þær eru tilbúnar og setjið í skál saltið, dreypið smá sítrónusafa yfir og síðast ólífuolíu og blandið vel saman.
2. Roðflettið ýsuna og passið að engin bein séu í henni, skerið í stóra skammta bita eins og t.d. 10 cm bita. Saxið laukinn og skerið ólífurnar í tvennt, ef vill.
3. Hitið olíu á pönnu á meðal hita, léttsteikið laukinn og setjið svo fiskinn á pönnuna, steikið í 3 mín og snúið varlega við, hún á það til að detta í sundur. Þegar hún hefur verið steikt í ca 2 mínútur er hvítvíninu hellt út í pönnuna og soðið aðeins niður, í 4 mínútur, þá er ólífunum og kapers bætt saman við og rétturinn er tilbúinn.
Sósan sem er í pönnunni er smökkuð til með salti og pipar.

Borið fram með kartöflunum.

Monday, January 19, 2009

Matseðill fyrir vikuna 19.01-26.01

Já og jæja nú er ég í stuði. Ég ætla mér að vera rosalega skipulögð þessa vikuna og vera með mat í dag og á morgun og svo er ég að vinna en um helgina er ég í fríi þannig að þá þarf líka að vera með eitthvað gúmmulaði handa fjölskyldunni. Í kvöld verður fiskur og hvernig hann verður ákveð ég bara þegar ég er búin að kaupa fiskinn til að sjá hvað passar við hann og svona, meðæti með fisk getur líka verið svo einfalt eitthvað þannig að ég stressa mig nú yfirleitt ekkert á því. Þá er bara að finna fyrir hina dagana. Ég er í rosalega miklu stuði fyrir léttan mat þessa dagana, það passar reyndar ekkert við veðráttuna, þar sem kuldinn nístir mann inn að beini, ég býst nú reyndar við að ástæða þess sé sú að ég er bara ennþá að jafna mig eftir jólin, sem voru svo uppfull af kjöti og þá sérstaklega í vinnunni hjá mér, ég er bara hrædd um að ég hafi fengið svo mikið ógeð á því að ég geti bara ekki borðað það næstu mánuðina, nei annars, það getur varla verið...
Það eina sem poppar upp í hugann þegar ég fer að hugsa um rétti og uppskriftir eru sumarréttir. Á ég að þora að setja svoleiðis inn strax? Æjá ég elda bara það sem ég vil og hana nú!

Matseðill fyrir vikuna 19.01-26.01

Mánudagur
matur hjá mömmu. Spaghetti með pestó. Mamma er svo sniðug, hún á nefnilega alltaf heimatilbúið pestó inni í frysti, svona fyrir óvænta gesti.

Þriðjudagur
Hérna var æðislegur ýsuréttur

mið-fimm vinna

Föstudagur
Þorrinn er mættur og þá er ekkert annað hægt að gera en hlýða kalli húsbóndans og hafa þorramat.

Laugardagur
Matarboð

Sunnudagur
Svínakótelettur á ítalska vísu

Thursday, January 8, 2009

Steikt smálúða með smjörsoðnum gulrótum, steinseljurótarmauki, kartöflumús með grilluðum paprikum og fetaosti og salsa verde

Þessi réttur var algjört æði, við borðuðum á okkur gat! Ég var með ferskt salat með sem var svona til að létta réttinn og það kom mjög vel út.
Þetta er miðað við rétt fyrir 4

Steinseljurótarmauk

2 meðalstórar steinseljurætur
20 gr smjör
smá skvetta af mjólk(skiptir ekki máli hvernig mjólk)ég setti hrísgrjónamjólk
salt og pipar

Aðferð:
1. Rótin er soðin þar til hún er vel meyr, þá er hún maukuð með töfrasprota eða í hakkara og öllu blandað saman, smakkað til.

Kartöflumús með grillaðri papriku og fetaosti

5-6 meðalstórar kartöflur
70 gr smjör
50-70 ml mjólk
3 paprikur, grillaðar, afhýddar og skornar í meðalstóra bita
hálf fetaostsdós, hreinn feta ekki í olíu(fæst í Hagkaup eða Nóatúni)
salt og pipar

Aðferð:
1.Grillið paprikurnar og sjóðið kartöflurnar þar til þær eru alveg meyrar.
2. Takið hýðið af paprikunum og maukið kartöflurnar með kartöflumaukara og bætið smjöri, mjólk, salti og pipar saman við og smakkið til. Þegar músin er orðin góð er paprikunum og fetaosti bætt saman við.

Smjörsoðnar gulrætur

4-5 gulrætur, skornar langsum í fernt
20 gr smjör
salt og pipar

Aðferð:
1. Gulræturnar er u soðnar í saltvatni þar til næstum meyrar, þá er mestu af vatninu hellt af og smjörinu bætt saman við og soðið áfram í nokkrar mínútur til viðbótar.

Salsa verde
1 búnt steinselja
100 ml ólífuolía
1 msk edik(ég notaði rauðvíns en það má nota, hvítvíns eða borðedik)
1/4 hvítlaukur
salt og pipar

Aðferð:
1. Maukið steinseljuna með töfrasprota, bætið hvítlauk og ediki saman við og olíunni hægt saman við.
Smakkið til.

Veltið fisknum upp úr hveiti og extra hveiti dustað létt af áður en hann er steiktur á heitri pönnu.

Það er hægt að hita allt saman upp rétt áður en fiskurinn er steiktur þannig að allt sé heitt þegar það er lagt á borðið.

Ég bar þetta fram með fersku Icebergsalati,mangó, tómötum og vinaigrette úr mangóediki og olíu.

Besta kjúklingasalat í heimi

Ég er eiginlega alveg örugg á því að ég hafi sett uppskriftina af þessu salati í eitthvað af blöðunum sem ég var að skrifa fyrir eitt sumarið. Ég ætla þó að reyna að setja saman aftur þessa uppskrift, málið er nefnilega að við sem höfum gert þetta oftar en einu sinni förum eftir auganu og bragðskyni ekki uppskrift og ég veit að það sama mun eiga við um ykkur.

Besta kjúklingasalat í heimi
f/5-6
1-2 kjúklingar
1 beikonbréf
1/4 rauðlaukur, sneiddur mjög þunnt
1/2 fetaostsdós, hreinn feta ekki í olíu
1/2 ólífukrukka
1/2 mangó(má sleppa)
það má einnig setja karamelliseraðar pecanhnetur ef þið viljið
100 ml majónes
100 ml sýrður rjómi
50 ml balsamico edik
25 ml sykur
1 poki af blönduðu salati eða 1 iceberghaus og lambhagasalat

Aðferð:
1. Eldið kjúklinginn eftir smekk, ég skar hann í bita(læri,bringu o.s.frv.) og henti honum í ofninn í 200°C í 25 mínútur.
2. steikið beikonið þar til það er stökkt.
3. skerið laukinn
4. Blandið saman sýrðum og majónesi, saltið og piprið
5. setjið edikið og sykurinn í lítinn pott og látið sjóða þar til þykknar örlítið, ca.3 mínútur. Kælið og blandið síðan smátt og smátt saman við majónesið þar til liturinn er ljósbrúnn og bragðið rosalega gott;) þetta bragð er erfitt að útskýra.
6. Salatið er sett saman, þá er það sett á næstum flatan disk eða fat og sett í lög og fyrsta lagið byrjar á salati þá kjúkling, lauk, ólífur, ostur , niðurskorið beikonið og sósu dreift yfir, svo er þetta gert koll af kolli þar til diskurinn þolir ekki meir. Ef afgangar verða(sem er sjaldgæft) þá má borða þá daginn eftir með bestu lyst.

Wednesday, January 7, 2009

Devils food Cake with Brown Sugar Buttercream

Þetta er án efa besta kaka sem ég hef smakkað! Ég bauð systrum mínum,mökum þeirra og börnum í kaffiboð um daginn og bauð upp á þessa köku ásamt pönnukökum og það voru allir slefandi yfir þessari köku, ég gerði hana einnig í afmælisboði hjá mér á Ítalíu og einnig þá hélt enginn vatni yfir henni.
Ég ætla ekki að ljúga að ykkur og segja að hún taki enga stund því þá væri ég bara með leiðindi því hún tekur 3 klst hvorki meira né minna(ég tók tímann) og það gæti þurft að nota einhver trix við smjörkremið sem eru reyndar mjög athyglisverð og skemmtileg. En kakan er ekki dýr og meiri hluti hráefnisins er venjulega til í skápunum.
Hægt er að setja þessa köku einnig í múffuform

Devils food cake
f/10
200 ml sjóðandi vatn
50 ml kakóduft, ósætt
150 ml Nutella súkkulaðiálegg
100 ml nýmjólk(léttmjólk er líka í lagi)
1 tsk vanilludropar
400 ml hveiti
1 1/4 tsk matarsódi/lyftiduft má líka nota
1/2 tsk salt
200 ml ósaltað smjör(ég nota reyndar venjulegt og það er alveg í lagi) mjúkt
250 ml dökkur púðursykur
150 ml sykur
4 stór egg(best að hafa þau ekki beint úr ísskápnum)

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið 3 hringform sem eru 20x5 cm* með smjöri og setjið bökunarpappír í botninn, smyrjið hann og dustið með hveiti og hristið extra hveiti úr.
2. Pískið saman sjóðandi vatni, kakódufti og Nutella í skál þar til það er smooth, mjúkt og fallegt. Pískið þá mjólk og vanillu saman við.
3. Sigtið saman í aðra skál hveiti, matarsóda/lyftidufti og salti.
4. Þeytið saman smjöri og sykrunum í stórri skál með rafmagnsþeytara þar til það verður ljóst og létt, bætið þá einu eggi í einu saman við og þeytið vel saman á milli. Þeytið þá saman við súkkulaðiblöndunni og hveitiblöndunni í hlutum, bryrjið og endið á hveitiblöndunni(blandan mun líta út fyrir að vera skilin rétt áður en allt hefur verið þeytt til þrautar en mun koma saman aftur).
5. Skiptið deiginu jafnt í formin og sléttið yfirborðið. Bakið í efri og neðri part ofnsins og skiptið formunum á milli þegar helmingur bökunartímans er liðinn. Bakið þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur út næstum hreinn og kakan hefur skilið sig örlítið frá hliðum formsins 20-25 mín. Kælið á grind í a.m.k.10 mín.
6. Setjið eina köku á kökudisk og smyrjið með u.þ.b. einum bolla(200 ml) af smjörkremi og setjið annan botn þar ofan á og endurtakið og setjið þá síðusta kökubotninn þar ofan á og smyrjið toppinn og hliðarnar á kökunni með afganginum af kreminu.

Aths.
* Hægt er að nota 2 hringlaga kökuform 23x3 cm og bakað í 25-30 mín. Ferköntuðu formi sem er 33x23x5 cm í 35- 40 mín eða í 24 múffuformum sem eru 100 ml hvert. í 20-25 mín.
** Hægt er að baka kökuna 2 dögum áður en hún er sett saman og geymd við stofuhita vel innpökkuð í plasfilmu eða sett í frysti í viku.
***hægt er að setja kökuna saman daginn áður og sett í kæli í lokuðu kökuboxi eða með plastfilmu og haldið henni frá kreminu með tannstönglum, en passið að láta hana standa við stofuhita í a.m.k. 1 klst áður en hún er borin fram.

Brown Sugar Buttercream
dugar í 350 ml
það þarfað nota hitamæli

3 stórar eggjahvítur við stofuhita
1/8 tsk salt
200 ml dökkur púðursykur
100 ml vatn
1/2 tsk nýkreistur sítrónusafi
250 ml ósaltað smjör(ég nota saltað og það er alveg í lagi), mjúkt og skorið í bita
2 tsk vanilludropar

Aðferð:
1. Setjið eggjahvíturnar í skál ásamt salti
2. Hrærið saman púðursykri og vatni í litlum potti og látið sjóða varlega á meðalhita. Þegar blandan byrjar að sjóða byrjið þá að þeyta eggjahvíturnar með rafmagnsþeytara á meðalhita þar til þær byrja að freyða bætið þá sítrónusafanum saman við og þeytið svo áframá meðalhraða þar til hvíturnar geta haldið mjúkum toppum.(ekki hræra aftur þar til sykursýróp er tilbúið)
3.Á meðan setjið hitamæli í sykursýrópið og haldið áfram að sjóða þar til hitinn fer í 114-116°C það geta verið 6-9 mínútur. Hellið heitu sýrópinu í mjórri bunu út í eggjahvíturnar og þeytið á mesta hraða á meðan. Hrærið marengsinn þar til hann er kaldur og sleikið hliðar skálarinnar á meðan þannig að allt hrærist með.(það er mjög mikilvægt að marensinn sé kaldur áður en haldið er áfram).
4. Með þeytarann á meðal hraða, bætið smjörinu saman við einum bita í einu og hrærið vel á milli þar til það hefur blandast alveg saman við.( ef marensinn hefur verið of volgur eða heitur áður en smjörinu var bætt saman við og eftir fyrstu bitana af smjörinu lítur blandan súpulega út er hægt að setja skálina í stærri skál með ísvatni í nokkrar sekúndur áður en haldið er áfram að hræra smjörinu saman við). Haldið áfram að hræra smjörkremið þar til það er mjúkt og fallegt. (Blandan getur litið út fyrir að vera að skilja sig áður en allt smjörið hefur verið sett saman við, en mun koma aftur saman áður en allt hefur verið hrært saman í nokkrar mínútur.)
5. Bætið vanillunni saman við og hrærið í 1 mínútu til viðbótar.

Aths.
* Smjörkremið er hægt að gera daginn áður og kæla, eða frysta í 1 mánuð. Látið vera við stofuhita þegar það er hrært aftur saman með rafmagnsþeytara til að smyrja á kökuna.
** Ef kremið er of kalt þegar það er hrært aftur saman getur það byrjað að skilja sig en þá er hægt að ná í hárblásara og blása með heitu á skálina á meðan hún þeytir og hita þannig upp kremið og þá kemur það aftur saman.

Matseðill fyrir vikuna 5.-12.jan.

Gleðilegt ár öllsömul!
Nú er ég komin með upp í kok af kjöti og vil ekki sjá það að minnsta kosti næsta mánuðinn!
Ég held ég sé búin að borða eigin þyngd í kjöti í desember mánuði svo að nú tekur við fisk og kjúklingaát ásamt fullt af salati og léttmeti.
Þ.e.a.s. allavegana í aðalrétt, eftirrétturinn má alveg vera sætur og góður eins og vanalega og ég ætla að setja hér inn uppskrift af alveg hreint guðdómlegri köku sem ég fékk úr amerísku blaði sem ég á en hef breytt örlítið eftir hentugleika.
Þessa vikuna verð ég aðeins tvo daga vikunnar heima í mat þannig að ég set hér inn þá daga. Næsta vika verður betri í þessu þar sem ég er í fríi fimm daga þeirrar viku.
Í kvöld var ég með besta kjúklingasalat sem til er! Ég segi þetta með mikilli sannfæringu þar sem ég hef smakkað þau allmörg en þetta bara slær allt út. Dóttir mín t.d. gat ekki hætt að segja okkur hvað þetta væri góður matur og sagði meira að segja sjálf ,,ohh þetta er svo góður matur að ég bara get ekki hætt að segja hvað þetta er góður matur!"
Ég fékk þessa uppskrift frá mömmu og hún kom til hennar frá Ragnheiði og hafa þær stöllur brasað ýmsa gómsæta rétti saman.
Það getur vel verið að ég hafi sett þessa uppskrift annað hvort hér inn eða á hitt bloggið sem ég var með þegar ég bjó úti. En best að setja hana bara aftur inn. Ég hef aðeins breytt henni frá sínu upprunalega horfi en þó er undirstaðan sú sama.

Miðvikudagur
Besta kjúklingasalat sem til er

Fimmtudagur
Fiskur(fish of the day) ég er búin að kaupa rauðar paprikur, steinseljurót og steinselju Ég ákveð uppskriftina eftir fisknum sem ég fæ.