Friday, January 23, 2009

Léttur og ódýr ýsuréttur

Ég er rosalega stolt af þessum rétti, hann var svo góður og svo einfaldur að það tók manninn minn(undir minni handleiðslu)10 mínútur að gera hann, þess vegna er gott að byrja á kartöflunum þar sem þær taka mestan tíma, ég sýð líka alltaf aðeins of mikið af þeim til þess að geta búið til kartöflusalat handa eiginmanninum í nesti. Ég fór í Kópavoginn á extra sparneytna bílnum mínum og keypti svo ferska ýsu í fiskibúðinni Freyju, að við bara slefuðum yfir henni, hún var algert æði og svo ódýr!

Léttur og ódýr ýsuréttur
f/4
800 gr ýsa
1/2 krukka ólífur
1 tsk capers
150 ml hvítvín
1 skallottulaukur
400-500 gr kartöflur, soðnar
ólífuolía,sítrónusafi,salt

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni, afhýðið þegar þær eru tilbúnar og setjið í skál saltið, dreypið smá sítrónusafa yfir og síðast ólífuolíu og blandið vel saman.
2. Roðflettið ýsuna og passið að engin bein séu í henni, skerið í stóra skammta bita eins og t.d. 10 cm bita. Saxið laukinn og skerið ólífurnar í tvennt, ef vill.
3. Hitið olíu á pönnu á meðal hita, léttsteikið laukinn og setjið svo fiskinn á pönnuna, steikið í 3 mín og snúið varlega við, hún á það til að detta í sundur. Þegar hún hefur verið steikt í ca 2 mínútur er hvítvíninu hellt út í pönnuna og soðið aðeins niður, í 4 mínútur, þá er ólífunum og kapers bætt saman við og rétturinn er tilbúinn.
Sósan sem er í pönnunni er smökkuð til með salti og pipar.

Borið fram með kartöflunum.

No comments: