Wednesday, January 7, 2009

Devils food Cake with Brown Sugar Buttercream

Þetta er án efa besta kaka sem ég hef smakkað! Ég bauð systrum mínum,mökum þeirra og börnum í kaffiboð um daginn og bauð upp á þessa köku ásamt pönnukökum og það voru allir slefandi yfir þessari köku, ég gerði hana einnig í afmælisboði hjá mér á Ítalíu og einnig þá hélt enginn vatni yfir henni.
Ég ætla ekki að ljúga að ykkur og segja að hún taki enga stund því þá væri ég bara með leiðindi því hún tekur 3 klst hvorki meira né minna(ég tók tímann) og það gæti þurft að nota einhver trix við smjörkremið sem eru reyndar mjög athyglisverð og skemmtileg. En kakan er ekki dýr og meiri hluti hráefnisins er venjulega til í skápunum.
Hægt er að setja þessa köku einnig í múffuform

Devils food cake
f/10
200 ml sjóðandi vatn
50 ml kakóduft, ósætt
150 ml Nutella súkkulaðiálegg
100 ml nýmjólk(léttmjólk er líka í lagi)
1 tsk vanilludropar
400 ml hveiti
1 1/4 tsk matarsódi/lyftiduft má líka nota
1/2 tsk salt
200 ml ósaltað smjör(ég nota reyndar venjulegt og það er alveg í lagi) mjúkt
250 ml dökkur púðursykur
150 ml sykur
4 stór egg(best að hafa þau ekki beint úr ísskápnum)

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið 3 hringform sem eru 20x5 cm* með smjöri og setjið bökunarpappír í botninn, smyrjið hann og dustið með hveiti og hristið extra hveiti úr.
2. Pískið saman sjóðandi vatni, kakódufti og Nutella í skál þar til það er smooth, mjúkt og fallegt. Pískið þá mjólk og vanillu saman við.
3. Sigtið saman í aðra skál hveiti, matarsóda/lyftidufti og salti.
4. Þeytið saman smjöri og sykrunum í stórri skál með rafmagnsþeytara þar til það verður ljóst og létt, bætið þá einu eggi í einu saman við og þeytið vel saman á milli. Þeytið þá saman við súkkulaðiblöndunni og hveitiblöndunni í hlutum, bryrjið og endið á hveitiblöndunni(blandan mun líta út fyrir að vera skilin rétt áður en allt hefur verið þeytt til þrautar en mun koma saman aftur).
5. Skiptið deiginu jafnt í formin og sléttið yfirborðið. Bakið í efri og neðri part ofnsins og skiptið formunum á milli þegar helmingur bökunartímans er liðinn. Bakið þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur út næstum hreinn og kakan hefur skilið sig örlítið frá hliðum formsins 20-25 mín. Kælið á grind í a.m.k.10 mín.
6. Setjið eina köku á kökudisk og smyrjið með u.þ.b. einum bolla(200 ml) af smjörkremi og setjið annan botn þar ofan á og endurtakið og setjið þá síðusta kökubotninn þar ofan á og smyrjið toppinn og hliðarnar á kökunni með afganginum af kreminu.

Aths.
* Hægt er að nota 2 hringlaga kökuform 23x3 cm og bakað í 25-30 mín. Ferköntuðu formi sem er 33x23x5 cm í 35- 40 mín eða í 24 múffuformum sem eru 100 ml hvert. í 20-25 mín.
** Hægt er að baka kökuna 2 dögum áður en hún er sett saman og geymd við stofuhita vel innpökkuð í plasfilmu eða sett í frysti í viku.
***hægt er að setja kökuna saman daginn áður og sett í kæli í lokuðu kökuboxi eða með plastfilmu og haldið henni frá kreminu með tannstönglum, en passið að láta hana standa við stofuhita í a.m.k. 1 klst áður en hún er borin fram.

Brown Sugar Buttercream
dugar í 350 ml
það þarfað nota hitamæli

3 stórar eggjahvítur við stofuhita
1/8 tsk salt
200 ml dökkur púðursykur
100 ml vatn
1/2 tsk nýkreistur sítrónusafi
250 ml ósaltað smjör(ég nota saltað og það er alveg í lagi), mjúkt og skorið í bita
2 tsk vanilludropar

Aðferð:
1. Setjið eggjahvíturnar í skál ásamt salti
2. Hrærið saman púðursykri og vatni í litlum potti og látið sjóða varlega á meðalhita. Þegar blandan byrjar að sjóða byrjið þá að þeyta eggjahvíturnar með rafmagnsþeytara á meðalhita þar til þær byrja að freyða bætið þá sítrónusafanum saman við og þeytið svo áframá meðalhraða þar til hvíturnar geta haldið mjúkum toppum.(ekki hræra aftur þar til sykursýróp er tilbúið)
3.Á meðan setjið hitamæli í sykursýrópið og haldið áfram að sjóða þar til hitinn fer í 114-116°C það geta verið 6-9 mínútur. Hellið heitu sýrópinu í mjórri bunu út í eggjahvíturnar og þeytið á mesta hraða á meðan. Hrærið marengsinn þar til hann er kaldur og sleikið hliðar skálarinnar á meðan þannig að allt hrærist með.(það er mjög mikilvægt að marensinn sé kaldur áður en haldið er áfram).
4. Með þeytarann á meðal hraða, bætið smjörinu saman við einum bita í einu og hrærið vel á milli þar til það hefur blandast alveg saman við.( ef marensinn hefur verið of volgur eða heitur áður en smjörinu var bætt saman við og eftir fyrstu bitana af smjörinu lítur blandan súpulega út er hægt að setja skálina í stærri skál með ísvatni í nokkrar sekúndur áður en haldið er áfram að hræra smjörinu saman við). Haldið áfram að hræra smjörkremið þar til það er mjúkt og fallegt. (Blandan getur litið út fyrir að vera að skilja sig áður en allt smjörið hefur verið sett saman við, en mun koma aftur saman áður en allt hefur verið hrært saman í nokkrar mínútur.)
5. Bætið vanillunni saman við og hrærið í 1 mínútu til viðbótar.

Aths.
* Smjörkremið er hægt að gera daginn áður og kæla, eða frysta í 1 mánuð. Látið vera við stofuhita þegar það er hrært aftur saman með rafmagnsþeytara til að smyrja á kökuna.
** Ef kremið er of kalt þegar það er hrært aftur saman getur það byrjað að skilja sig en þá er hægt að ná í hárblásara og blása með heitu á skálina á meðan hún þeytir og hita þannig upp kremið og þá kemur það aftur saman.

No comments: