Sunday, July 12, 2009

Grillaður þorskur með kryddjurtum,lime, grískri jógúrt og steiktum kartöflum

Tölvan okkar er enn biluð þannig að ég er núna á lánstölvu og get því sett inn uppskriftir á ný.
Við höfum verið eitthvað löt við matseðlagerð síðustu vikur og hefur matarreikningurinn hækkar svo um munar, því verð ég að hætta þessu rugli og halda áfram með matseðlana.
Þar sem kryddjurtirnar mínar lifa dúndurgóðu lífi í glugganum hjá mér og úti í beði hef ég verið dugleg að nýta mér þær og ég mun örugglega setja inn nokkrar uppskriftir í sumar þar sem ég notast við þær, maður þarf nefnilega að grisja svona annað slagið.
Ég fór einnig í matjurtagarðinn minn í dag og þar náði ég mér í dýrindis grænkál og silfurblöðkur þar sem það þurfti líka að grisja af þeim. Þannig að kvöldmaturinn var uppfullur af vítamínum og fersku salati og kryddjurtum.
Ég fékk alveg frábæran þorsk hjá vinkonu minni en maðurinn hennar hafði farið í sjóstangaveiði og veitt hann, lítill og sætur en ofboðslega bragðgóður.
Með honum bar ég fram salat með strengjabaunum,avócadó og ristuðum söltuðum cashew hnetum, ásamt fersku grænkálssalati, steiktum kartöflum krydduðum með ferskum kryddjurtum og svo síðast en ekki síst kaldri sósu úr grískri jógúrt, hvítvíni og enn og aftur ferskum kryddjurtum.
Ykkur finnst þetta kannski einum of mikið en það tekur smá tíma fyrir þorskinn að grillast þegar hann er grillaður heill svo að ég var bara að nýta tímann í rauninni. Hann tók 40 mín á grillinu og það er tíminn sem ég tók í allt meðlætið, fyrir þá utan suðuna á kartöflunum því það gerði ég löngu áður og steikti svo alveg undir það síðasta.

Grillaður þorskur með ferskum kryddjurtum og lime
f/4
1 heill lítill þorskur, hreinsaður
1/2 lime
3 greinar timían
smá mynta
smá sítrónu melissa
smá basilíka
smá steinselja

Aðferð:
1. Þorskurinn er hreinsaður og skolaður vel og svo eru kryddjurtunum og limesneiðum komið fyrir í sárinu.
2. Pakkið svo inn í álpappír og setjið á meðalheitt grill og grillið í 20 mín á hvorri hlið.

Strengjabaunasalat með avócadó og ristuðum cashew hnetum
f/4
3 lúkur af frosnum baunum en mæli heldur með ferskum í þetta og þá ætti 2 bakkar að duga
1/2 avócadó
1 lúka af cashew hnetum, ég keypti hreinar en það er hægt að kaupa ristaðar og saltaðar
flögusalt og pipar
extra virgin ólífuolía
smá limesafi

Aðferð:
1. Baunirnar eru soðnar örstutt og skellt svo í ískalt vatn á eftir, þerraðar og sett á stóran disk
2. skerið avócadó í sneiðar og berið limesafa á til að hann brúnist ekki
3. Ristið hneturnar og saltið
4. Dreifið avócadóinu og hnetunum yfir baunirnar og hellið svo smávegis af ólífuolíu í mjórri bunu yfir allt saman og saltið og piprið.

Grænkálssalat
einfalt:
rífið niður grænkál og setjið í skál og hellið vinaigrette yfir, ég nota úr mangóbalsamik ediki og olíu

Kryddjurtasósa úr grískri jógúrt og hvítvíni
f/4
2 kúfaðar matskeiðar af grískri jógúrt
3 msk mable sýrópi
3 msk hvítvín
smá sítrónu melissa
smá mynta
smá basilíka
flögusalt og pipar

Aðferð:
1. Saxið kryddjurtirnar og blandið saman við jógúrtina, sýrópið og hvítvínið. Hrærið öllu vel saman og smakkið til. Ef ykkur finnst þurfa meira sætt endilega setjið meira af sýrópinu og ef ykkur þykir hún ekki nægilega bragðmikil er gott að bæta hvítvíni og salti útí og jafnvel smá sítrónu-eða limesafa.

Steiktar kartöflur með kryddjurtum
f/4
ca 400 gr kartöflur, soðnar
smá sítrónu melissa
smá mynta
smá basilíka
salt og pipar
3-4 msk extra virgin ólífuolía

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar, skrælið og þerrið
2. Saxið kryddjurtirnar
3. Hitið olíuna á stórri pönnu þar til hún er vel heit setjið þá kartöflurnar á pönnuna og steikið við meðal-háan hita þar til þær brúnast vel(hægt að bæta niðurskornu hvítlauksrifi saman við).
4. Þegar þær eru tilbúnar fallega brúnar þá eru þær settar í skál og kryddjurtunum dreift yfir ásamt salti og pipar.

No comments: