Tuesday, July 14, 2009

Grillaður rabbarbaralax með nýju smælki

Þessa dagana er tilvalið að fara í sitt nánasta umhverfi og ræna arfa og rabbarbara sem vex villtur, enda er allt matarkyns að hækka í verði ekki satt, um að gera að spara sér aurinn.
Ég fór því upp á hæðina sem er hér við enda götunnar og þar sá ég breiðurnar af villtum rabbarbara og kerfli svo að ég týndi mér smávegis í matinn. Ég hafði freistast í Melabúðina og keypt mér villt laxaflök og týndi smælki úr kartöflustaflanum sem var nýkominn úr týnslu. Enda gat ég ekki beðið eftir kvöldmatnum.
Þess vegna verður smá rabbarbaraþema kvöldmatarins í kvöld og ég get sagt ykkur það að við vorum í sjöunda himni!
Með þessu hafði ég svo rabbarbarasósu bragðbætta með chilli og balsamik ediki

Grillaður Rabbarbaralax
f/4
200 gr á mann(flestir borða meira af laxi en öðrum fiski annars er venjulega 150 gr á mann af fiski)
400 gr rabbarbari
75 gr hrásykur
50 ml vatn
nokkur blöð af kerfli
1/2 sítróna, sneidd

Aðferð:
1. Skerið rabbarbarann í litla bita og setjið í djúpan pott ásamt sykrinum og látið sjóða við vægan hita í ca 30 mínútur eða þar til rabbarbarinn er meyr en nokkrir harðari en aðrir. Sigtið og kælið.
2. Þvoið vel kerfilinn og leggjið hann á álpappír nægilega stóran til að fara utan um laxaflökin. Leggjið laxinn á kerfilinn og saltið og piprið laxinn og makið svo rabbarbaranum yfir og síðast leggjið sítrónusneiðarnar yfir og pakkið svo öllu inn í álpappírinn þannig að kerfillinn farin einnig yfir laxinn. Grillið við meðal háan hita á roðhliðinni í 7 mínútur og svo á kjöthliðinni í 3 mínútur.

Rabbarbarasósa
f/4
sýrópið sem kom af rabbarbaranum
1/2 chillialdin, saxið smátt
1 skallottulaukur, saxið smátt
1 msk balsamik edik
salt og pipar
1/2 msk ólífuolía, eða hvaða olía sem er

Aðferð:
1.Hitið olíuna í litlum potti og léttsteikið laukinn og chillialdinið, þegar það hefur mýkst er edikinu bætt saman við og látið sjóða alveg niður þá er sýrópinu bætt saman við og suðan látin koma upp, tekið af hitanum og saltað og piprað.

Smælki
f/4
100 gr á mann
50 gr smjör
flögusalt

Sjóðið kartöflurnar og þegar þær eru soðnar er smjöri bætt saman við og þær saltaðar. Berið strax fram.

Ég setti laxinn á rétt eftir að ég byrjaði að sjóða kartöflurnar. Sósuna var ég búin að gera áður en ég setti nokkuð á grill eða heita hellu.

Gott er að hafa ferskt salat með þessu öllu saman.

No comments: