Monday, July 13, 2009

Grillað lambaprime marinerað í blóðbergi

Ég skellti mér upp á Valhúsahæð áðan en þar vex blóðberg eins og ég veit ekki hvað,út um allt þarna og bara bíður eftir að vera tínt, og ég tíndi heilmikið til að marinera lambaprime.
Lambaprime er eitt af því grillkjöti sem hefur verið hvað mest á tilboði í sumar og við höfum nýtt okkur það óspart því þetta er dýrindis kjöt, alltaf mjúkt, það eina sem þarf að passa er að skera af of mikla fitu sem getur verið á því, annars þarf ekker að gera við það.
Ég fór með svona í útilegu um daginn og setti í marineringu áður en lagt var af stað og það var svo mjúkt og bragðmikið eftir að hafa legið í marineringunni í 2 daga að ég er enn að láta mig dreyma um unaðslegt bragðið.
Í marineringuna í þetta skiptið notaði ég það sem hendi var næst og leyfði blóðberginu að njóta sín sem mest þannig að engar aðrar kryddjurtir voru notaðar og vökvi sem ýtir frekar undir bragðmikið blóðbergið frekar en að yfirgnæfa eða vera of bragðdauft. Með þessu bar ég fram nýjar kartöflur soðnar og svo velt upp úr smjöri og salti og nýtti svo afganginn af sósunni frá því í gær, grísku jógúrtinni með kryddjurtunum.

Marinering fyrir grillað lambaprime
f/4
200 gr á mann af kjöti
4 hvítlauksrif
2 tsk sinnep
2 góðar lúkur af blóbergi
salt og pipar
2 msk balsamik edik
4 msk ólífuolía(eða bara olía af einhverju tagi)
smá sletta af sherry, má sleppa
2 msk vodka(Reyka)

Aðferð:
1. Öllu hrært saman og kjötinu velt upp úr og látið liggja í leginum eins lengi og þið hafið tíma í en gott er að hafa það a.m.k. 30 mín til klukkutíma.
2. Grillið með öllu gúmmulaðinu á í ca 10 mínútur á meðalháum hita á hvorri hlið eða þar til vökvi sem rennur úr kjötinu er orðinn ljósrauður, fyrir medium steikt. Passið þá að stinga aðeins örlitla stungu í kjötið til þess að vökvinn fari ekki allur úr kjötinu og skilji eftir þurrt kjöt.
Berið fram með nýjum íslenskum kartöflum velt upp úr smjöri og salti
og góðri grillsósu

2 comments:

Anonymous said...

Skemmtilegt blogg hjá þér, er búin að "bookmarka" þig :) Gaman að sjá að þú nýtir blóðberg úr náttúrunni, hef sjálf gert það í nokkur ár, lærði það af ömmu, og er alveg hissa á hve fáir vita um þetta góðgæti.
Kv.
Kolbrún

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

Já það er alveg merkilegt hversu mikið af okkar náttúrulega kryddi hefur gleymst í gegnum árin.