Monday, August 31, 2009

Sinneps-og hunangsgljáður kjúklingur með ratatuille

Ég var að nýta afgangana af grænmetinu frá grænmetislasagnainu sem ég gerði í síðustu viku. Þannig að uppskriftin er soldið lituð af því og gæti kannski verið betri en mér fannst þetta koma mjög vel út. Það gæti hins vegar verið betra að grilla grænmetið fyrst áður en maður steikir allt saman á pönnu og setur tómatsósuna saman við en ég hafði ekki tíma í það þannig að svona er uppskriftin að þessu sinni.

Sinneps-og hunangsgljáður kjúklingur
f/2
1 bakki af kjúklingabitum(blönduðum)
5 tsk Dijon sinnep
2 tsk hunang
salt og pipar

Aðferð:
1.Hrærið saman sinnepi og hunangi í skál. Saltið og piprið kjúklingabitana og spyrjið svo sinnepsblöndunni ofan á og bakið í ofni við 200°C í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og hefur fallega gullinbrúna húð.

Ratatuille
f/4
1/2 laukur, skorinn í sneiðar og svo helmingaðar
1/4 af púrrulauk, skorinn í sneiðar
1/2 eggaldin, skorið í 2 cm bita
1/2 zucchini, sorið í 2 cm bita
3/4 paprika, skorin í 2 cm bita
2 hvítlauksrif, skorin í sneiðar
4 greinar timían
1 msk rósmarín
basilíka eða 3 tsk pestó
2 greinar steinselja
1 dós niðursoðnir tómatar, hakkaðir eða heilir
1 tómatur, skorinn í 2 cm bita

Aðferð
1. Skerið allt grænmetið og hitið olíu á pönnu
2. Steikið við meðalháan hita allt grænmetið fyrir utan hvítlaukinn og tómatinn og gott er að byrja á lauknum og paprikunni og bæta svo restinni saman við. Steikið rólega og hrærið oft í þar til allt grænmetið er orðið vel meyrt(gæti tekið um 15 mínútur, þá er tómötunum og hvítlauknum bætt saman við og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar.
3. Bætið þá tómötunum úr dósinni og hellið smá botnfylli af vatni í dósina til að hreinsa hana vel af tómatsafanum og hellið saman við. Bætið þá öllum kryddjurtunum saman við og sjóðið við lágan hita í ca 5-10 mínútur.

Þetta er gott með pasta, fiski og kjúklingi eða bara eitt og sér með grilluðu brauði. Það er hægt að bera þetta fram heitt, kalt eða við stofuhita(best þannig) og geymist í kæli í nokkra daga í lofttæmdum umbúðum

Gott er að setja kjúklinginn inn um leið og grænmetið fer á pönnuna, þannig er þetta tilbúið á nokkurn veginn sama tíma.

Matseðill fyrir vikuna 31.08- 04.09. 2009

Þar sem litla krílið hefur enn ekki látið sjá sig og vill bara vera í rólegheitunum inni í bumbunni þá er ekkert annað að gera en að gera matseðil fyrir vikuna.
Við höfum tekið eftir því síðustu vikurnar að matvöruverð hefur hækkað töluvert þar sem matarkarfan okkar hefur hækkað en það er víst lítið við því að gera annað en að nýta allt sem maður kaupir eins vel og hægt er og að kaupa ódýrt hráefni og reyna að hafa fá hráefni í hverjum rétti. Við fórum upp í matjurtagarð í gær og tókum upp kartöflur, næpur, grænkál og salat en því miður þá fundum við aðeins eina gulrót, við vorum aðeins of áköf í arfareitingu í byrjun sumars þannig að fræin fóru, tja já þau bara fóru eitthvert annað. En maður lærir af reynslunni og þá er bara um að gera að gera betur næst. Þar sem ég er alin upp í húsi með stórum garði þar sem helmingur garðsins fór í kartöflugarð þá fannst okkur þetta heldur lítil kartöfluuppskera, en það er vonandi hægt að bæta úr því á næsta ári. Við vorum alltaf heilan dag að taka upp kartöflur en í gær tók þetta ekki nema rúman klukkutíma. Við erum því með kartöflur fyrir nokkra mánuði en ég efast um að þetta dugi út veturinn. Það er kannski ráð að geyma þær þar til eftir áramót þar sem kartöflubændur lentu í uppskerubresti og því munu kartöflur verða mun dýrari eftir áramótin þegar innflutningur hefst með krónuna eins og hún er.
Þar sem ég keypti fullt af grænmeti í grænmetislasagnaið í síðustu viku er um að gera að nýta það í þessari viku og ætla ég að byrja á ratatuille og vinna mig svo áfram eftir vikunni en vonandi mun ég fæða eins og eitt lítið kríli í þessari viku þannig að kannski verður einhver skortur á uppskriftum.

Matseðill fyrir vikuna 31.08.-04.09

Mánudagur
Ofngrillaður kjúklingur með ratatuille

Þriðjudagur
Blómkáls-og brokkólísúpa

Miðvikudagur
Ofnbökuð ýsa með pestó, tómötum og mangó/ananassalsa

Fimmtudagur
Einfalt pasta með steiktum strengjabaunum og kryddjurtaolíu

Föstudagur
Enn og aftur tapaði eiginmaðurinn sér á svínakjötsútsölu og verða því grilluð svínarif þennan föstudaginn

Wednesday, August 26, 2009

Matseðill fyrir vikuna 24.08-28.08 2009

Nú fer að líða að komutíma barnsins þannig að ég ákvað í dag að búa til nokkra rétti sem ég get fryst og notað þegar barnið er komið og enginn hefur tíma né orku í að elda kvöldmatinn. Þannig að það var drifið í að búa til grænmetislasagn, venjulegt lasagn(extra stóran skammt) og svo notaði ég afganginn af kjötsósunni fyrir lasagnið til að nota sem bolognes sósu. Ég gerði í gær pestó sem ég skipti niður í skammta og setti í poka og inn í frysti. Ég er að spá í að búa til úr uxahölunum á föstudaginn þ.e. ef ég verð ekki farin á fæðingardeildina. Ég hef nú þegar sett inn uppskriftirnar af lasagnainu, báðum og er best að hafa uppi á þeim með því að fara á google leit og setja inn lasagn sigurrós og grænmetislasagn sigurrós. Ég tvöfaldaði uppskriftina af lasagnainu og þannig átti nóg fyrir risastórt lasagn og fyrir bolognes sósu.
Í gær var ég mjög sein fyrir og bjó því bara til eggjaköku og kartöflur, einfalt og tók 20 mínútur.

Mánudagur
pylsur, letidagur

Þriðjudagur
eggjakaka með salsa, skinku og parmesan og soðnar kartöflur italian style, þá skrælir maður þær, saltar, dreypir sítrónusafa og síðast ólífuolíu yfir og hristir.

Miðvikudagur


fimmtudagur

Föstudagur
vonandi brasseraður uxahali

Við skulum svo bara sjá til með helgina, erfitt að plana svo langt fram í tímann þegar maður er kominn á steypirinn ;)

Thursday, August 20, 2009

Matseðill fyrir vikuna 17.08-21.08.2009

Nú gengur þetta kæruleysi ekki lengur, það að hafa ekki haft tíma eða öll óvæntu grillin og þess háttar í júlí hefur gert okkur mikinn grikk í fjármálum. Eyðslan hefur farið úr öllu hófi og því þarf ég nú að taka verulegar í r...gatið á okkur hjónakornunum og byrja á ný með matseðlagerð. Ég vil enn ekki trúa því að fyrsta haustlægðin sé að gera okkur lífið leitt þessa dagana og held enn í vonina um að sumarið sé ekki enn á enda. Ég neita því að fara í vetrarfötin bæði bókstsaflega og í eldhúsinu og held mig við sumarlega rétti.
Ég reyndi þessa vikuna að gera eitthvað annað en þetta venjulega með kjúklinginn, þar sem enn er hann ódýrastur og skrapp því til Mexíkó og hafði kjúklingaburrito á ódýran máta og svo daginn eftir þá nýtti ég afgangana þannig að ég hafði restina af burrito kökunum(fylltum) og svo var ég með supernachos með, þá tók ég afgangana af kjúklingafyllingunni og setti yfir nachos svo fullt af gulum baunum og reif svo ost yfir allt saman og bræddi, og hafði svo ostasósu og salsa með. Þetta sló í gegn, sérstaklega fannst dótturinni skemmtilegt að hafa snakk í kvöldmatinn, mikið sport.
Þar sem ég var ekki búin að negla niður neinn matseðil í upphafi vikunnar þá átti ég ekkert í ísskápnum í dag en var þó búin að kaupa Klaustursbleikju, þannig að úr varð hvítvínsbleikja með smjörblancheruðum gulrótum og kartöflum, ólífum og kapers.
En hér kemur þá matseðillinn

Mánudagur
Villisveppavelouté með baguette

Þriðjudagur
Kjúklingaburrito

Miðvikudagur
kjúklingaburrito með supernachos

Fimmtudagur
Hvítvínsbleikja með ólífum og kapers borið fram með smjörblancheruðum gulrótum og kartöflum

Föstudagur
Grænmetislasagna

Friday, August 7, 2009

Blóðbergskjúklingur með nýpum og gulrótum

Ég ákvað að skella mér í matjurtagarðinn minn í morgun og fór upp í Heiðmörk í leiðinni til að athuga með bláber. Ég fann 2 bláber en hins vegar fann ég tvo Kúalubba, sem er sveppur. Ég kom því heim með fulla fötu af grænmeti, kryddi og salati og svona til að toppa náttúrufríkina tvo nýtýnda sveppi. Ég hlakkaði alveg svakalega til eldamennskunnar. Eins og ég er þá vildi ég hafa þetta sem fljótlegast og einfaldast og henti öllu í braising pottinn minn og bakaði í 40 mínútur og hafði svo soðnar og svo léttsteiktar kartöflur með ásamt rjómalöguðum Kúalubbasveppum. Þetta sló alveg í gegn hjá eiginmanninum.
Ég hefði kannski frekar viljað hafa lambakjöt en kjúklingurinn var kominn úr frystinum svo að hann varð fyrir valinu.

Blóðbergskjúklingur með nýpum og gulrótum
f/4
2 bakkar af kjúklingabitum
nokkuð af blóðbergi, saxað
nokkuð af bláberjalyngi, saxað
2 greinar af steinselju, saxað
4 gulrætur, litlar, skornar í bita
3 nýpur, skornar í bita
1/2 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
2 msk ólífuolía
smá kjúklingakraftur
100 ml hvítvín
2 stór hvítlauksrif

Aðferð:
1. olían, hvítvínið og krafturin sett í eldfast mót, kjúklingurinn ofan á og hann saltaður og pipraður og svo er blóðberginu, bláberjalynginu og steinseljunni dreift yfir ásamt restinni af hráefninu. Þessu er svo stungið í ofninn við 190°C í 40 mínútur.
Borið fram með kartöflum og rjómalöguðum sveppum

Kartöflurnar sauð ég og léttsteikti svo með grænkáli, salti og pipar

Sveppina steikti ég með 1 litlum skallottulauk, söxuðum og hellti svo eins og 2 msk af rjóma útá þegar þeir voru orðnir vel steiktir. Rjóminn er látinn sjóða þar til hann þykknar sem tekur u.þ.b. 1 mínútu á heitri pönnu.