Monday, August 31, 2009

Matseðill fyrir vikuna 31.08- 04.09. 2009

Þar sem litla krílið hefur enn ekki látið sjá sig og vill bara vera í rólegheitunum inni í bumbunni þá er ekkert annað að gera en að gera matseðil fyrir vikuna.
Við höfum tekið eftir því síðustu vikurnar að matvöruverð hefur hækkað töluvert þar sem matarkarfan okkar hefur hækkað en það er víst lítið við því að gera annað en að nýta allt sem maður kaupir eins vel og hægt er og að kaupa ódýrt hráefni og reyna að hafa fá hráefni í hverjum rétti. Við fórum upp í matjurtagarð í gær og tókum upp kartöflur, næpur, grænkál og salat en því miður þá fundum við aðeins eina gulrót, við vorum aðeins of áköf í arfareitingu í byrjun sumars þannig að fræin fóru, tja já þau bara fóru eitthvert annað. En maður lærir af reynslunni og þá er bara um að gera að gera betur næst. Þar sem ég er alin upp í húsi með stórum garði þar sem helmingur garðsins fór í kartöflugarð þá fannst okkur þetta heldur lítil kartöfluuppskera, en það er vonandi hægt að bæta úr því á næsta ári. Við vorum alltaf heilan dag að taka upp kartöflur en í gær tók þetta ekki nema rúman klukkutíma. Við erum því með kartöflur fyrir nokkra mánuði en ég efast um að þetta dugi út veturinn. Það er kannski ráð að geyma þær þar til eftir áramót þar sem kartöflubændur lentu í uppskerubresti og því munu kartöflur verða mun dýrari eftir áramótin þegar innflutningur hefst með krónuna eins og hún er.
Þar sem ég keypti fullt af grænmeti í grænmetislasagnaið í síðustu viku er um að gera að nýta það í þessari viku og ætla ég að byrja á ratatuille og vinna mig svo áfram eftir vikunni en vonandi mun ég fæða eins og eitt lítið kríli í þessari viku þannig að kannski verður einhver skortur á uppskriftum.

Matseðill fyrir vikuna 31.08.-04.09

Mánudagur
Ofngrillaður kjúklingur með ratatuille

Þriðjudagur
Blómkáls-og brokkólísúpa

Miðvikudagur
Ofnbökuð ýsa með pestó, tómötum og mangó/ananassalsa

Fimmtudagur
Einfalt pasta með steiktum strengjabaunum og kryddjurtaolíu

Föstudagur
Enn og aftur tapaði eiginmaðurinn sér á svínakjötsútsölu og verða því grilluð svínarif þennan föstudaginn

No comments: