Monday, December 14, 2009
Þriggja hæða súkkulaði og marengskaka með mokkarjóma og karamellu
Já þetta er massívur titill enda massív kaka get ég sagt ykkur. Ég hef nú gert hana fyrir tvö afmæli og hún var enn betri í seinna skiptið. Hún lítur líka mjög grand út og fólk heldur að maður hafi verið að baka þetta í heillangan tíma en viti menn það er ekkert mál að vippa þessari saman. Ég bakaði súkkulaðibotninn 2 vikum fyrir afmælið, plastaði hann vel og frysti og marengsinn er einnig hægt að geyma í 2 vikur í lofttæmdum umbúðum, svo að það eina sem þarf að gera á daginn sem hún er borin fram er að gera rjómann og setja hana saman, sem tók mig um 10 mínútur.
Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa næst þegar ykkur langar í svakalega köku! eða þurfið að slá fólk út af laginu í einhverju kaffiboðinu eða saumaklúbbnum.
Uppskriftin á eftir að líta út fyrir að vera flókin en þegar þið byrjið þá er hún það alls ekki. Hins vegar má geta þess að marengs tekur langan tíma í ofni, þannig að ef þið ætlið að gera þessa köku á einum degi eða alla í einu þá þarf að byrja snemma, þó svo að vinnan sé lítil er hún kannski tímafrek í ofninum, en þá er bara hægt að taka til á meðan;) já eða fara í vinnuna.
Þriggja hæða súkkulaði-og marengskaka með mokkarjóma og karamellu
(Kakan er samansett þannig að neðsta lagið er súkkulaðibotn,rjómi,marengsbotn,rjómi og karamella,marengsbotn rjómi og karamella)
Súkkulaðibotn
(1 botn)
100 ml sjóðandi vatn
75 ml ósætt kakóduft(ekki hollenskt)
50 ml mjólk(helst nýmjólk)
1/2 tsk vanilludropar
200 ml hveiti
rúmlega hálf teskeið matarsódi
salt á hnífsoddi
113 gr smjör, mjúkt(ég mýkti það með því að kremja það á milli fingranna)
125 ml púðursykur
75 ml sykur
4 stór egg
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. og smyrjið 23 cm hringform og setjið smjörpappír í botninn og dustið með hveiti.
2.Blandið saman kakó og sjóðandi vatni þar til það glansar og bætið þá mjólk og vanillu saman við.
3. Sigtið saman hveiti , matarsóda og salti í annarri skál.
4. Þeytið saman smjör og báðar tegundirnar af sykri með rafmagnsþeytara(eða í vél)þar til það er ljóst og létt og bætið þá eggjum saman við einu í einu og pískið vel saman eftir hvert egg. Þeytið þá saman við hveiti og kakóblöndunum til skiptis og byrjið og endið á hveitiblöndunni(deigið gæti litið út fyrir að hafa skilið).
5. Setjið deigið í formið og bakið í 20-25 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur út hreinn. Takið út og kælið á grind og takið svo úr forminu og kælið alveg. Hægt er að geyma botninn vel plastaðann við stofuhita í tvo daga eða í fryst í viku(jafnvel meira en þá gæti hún orðið soldið laus í sér).
Púuðursykurs-og kornflexmarengs
(2 botnar)
4 eggjahvítur
100 gr sykur
100 gr púðursykur
70 gr kornflex
1/2 tsk lyftiduft
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 150°C og setjið smjörpappír í hliðarnar á tveimur 23 cm hringsmelluformum og setjið á ofnplötur með smjörpappír(enn betra ef þið eigið sílíkonform, eða sílíkonmottur en passið að það sé í sömu stærð og súkkulaðibotninn)
2. Stífþeytið eggjahvíturnar. Bætið sykrum útí og þeytið í 8-12 mínútur.
3. Myljið kornflexið(gott að setja það í lítinn nestispoka og mylja með kökukefli)
og hrærið varlega saman við eggjahvíturnar ásamt lyftiduftinu.
4. Setjið helminginn í hvort form og sléttið vel úr.
Bakið við 150°C í klukkutíma og látið kólna í ofninum, passið að opna ekki ofninn fyrr en ofninn er orðinn alveg kaldur(annars gæti marengsinn fallið).
Aths. ef hann fellur er það í lagi en setjið þá bara minna af rjómanum þegar kakan er sett saman.
Karamellusósa
150 ml sykur
50 ml vatn
1,5 msk smjör
100 ml rjómi
Aðferð:
1. Setjið sykur og vatn á pönnu og þegar hann er orðinn nokkuð brúnn er smjörinu bætt saman við(blandan mun bulla rosalega) og síðast rjómanum.
Það er einnig hægt að gera þetta í potti en þá tekur það lengri tíma fyrir sykurinn að brúnast.
(ég geri tvöfalda uppskrift og geymi karamelluna til að hafa með ís eða ef einhver vill auka á kökuna, svo er bara svo gott að vera með karamellusósu í ísskápnum, alltaf tilbúna, hún geymist svo rosalega lengi)
Mokkarjómi
500 ml rjómi
2 msk(kúfaðar)vanilluskyr, þetta græna ekki skyr.is það passar ekki(prófaði það)
50 gr(5 msk kúfaðar)flórsykur
1 msk espresso kaffi(sterkt), kalt
Aðferð.
1. Þeytið rjómann vel og blandið öllu hinu mjög varlega saman við með sleikju.
Setjið saman kökuna
Setjið súkkulaðibotninn fyrst á kökudisk og smyrjið með 1/3 af rjómanum, setjið þá marengsbotn ofan á og smyrjið með 1/3 af rjómanum og dreifið karamellu yfir með skeið, passið að setja ekki of mikið(hún á ekki að þekja). Setjið þá seinni marengsbotninn ofan á og smyrjið með afgangnum af rjómanum og dreifið karamellu yfir með skeið eða eins og ég gerði og sést á myndinn með rjómasprautu og gerði fyrst lóðréttar línur,þá láréttar ofan á og svo á ská og aftur á ská í hina áttina og gott að láta hverja línu fara aðeins niður kökuna á hliðunum.
Endilega ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir bara setja í athugasemdakerfið og ég mun svara ykkur um hæl.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Djöfull líst mér vel á þessa, prófa pottþétt.
-Kv. Hafdís.
namm! Hún var rosalega góð, jafn góð og hún lítur út fyrir að vera!
Frábært!!
langar að vita hvort þú ert að miða við blástursofn eða venjulegan ofn
Post a Comment