Tuesday, December 29, 2009

Rjómapasta með fetaosti og beikoni

Ég verð nú að viðurkenna að ég var eilítið þvinguð til þess að setja hér inn þessa uppskrift, þeim fannst hún svo góð heimilisfólkinu mínu. Þannig er það nú með mig að ég vil helst ekki elda neitt með rjóma, ég er ekki mikið fyrir hann og rjóma pasta þykir mér frekar vera amerískt afbrigði af pastarétti en nokkurn tímann ítalskt, sérstaklega þar sem maður átti verulega erfitt með að finna rjóma í búðum á Ítalíu vegna einmitt þess að þeir nota hann afar sjaldan og enn sjaldnar með pasta. Þess vegna hef ég einbeitt mér að því að búa til pastarétti sem eru ferskari og léttari en rjómapasta en jæja ég átti rjóma inni í ísskáp eftir hátíðarnar, þar sem ég var með ís í eftirrétt og vegna þess að þetta er mjög dýrt hráefni ákvað ég að nota þetta í stað þess að henda í ruslið. Ég reyndar gerði mér grein fyrir því að ísskápurinn var því sem næst tómur en náði þó að henda í þennan rétt og kom svona líka vel út. Hér eru þó engin geimvísindi á ferð en ég set þetta inn samt sem áður.

Rjómapasta með fetaosti og beikoni
Fyrir litla sæta fjölskyldu

200 ml rjómi
1 msk fetaostur
2 tsk sýrður rjómi
2 gulrætur, skornar í 1 cm ferninga
1/2 lítill laukur, saxaður
4 beikonsneiðar, skrornar í litla bita
1/2 nautakraftsteningur
salt og pipar
smá smjörklípa
Spaghetti eða pasta(ég geri ráð fyrir 100 gr á svangan fullorðinn í aðalrétt og 50 gr á litlu músina mína en venjulegt barn borðar um 70 gr)

Aðferð:
1. Skerið og saxið lauk, gulrætur og beikon og léttsteikið upp úr smjörklipu í potti.Bætið þá rjómanum, ostinum og sýrða rjómanum saman við ásamt kraftinum, salti og pipar og látið sjóða vel niður í ca 10-15 mínútur, þar til sósan er þykk og ljúffeng.
2. Sjóðið pastað eða spaghetti á meðan og berið farm með brauði

Það er hægt að segja að þessi sé ein af þessum fljótlegu og einföldu uppskriftum þetta tók mig ekki meira en 15 mínútur að búa til.

No comments: