Friday, December 4, 2009

Piparkökur

Nú hef ég gert nokkrar tilraunir með piparkökur og hef hingað til ekki verið nógu ánægð með afraksturinn alltaf eitthvað að en svo ákvað ég að leita að amerískri uppskrift og sjá hvort kanarnir væru ekki bara með þetta og viti menn ég rambaði á eina sem er alveg súper dúper góð ég reyndar breytti aðeins kryddmagninu og sé ekki eftir því, ég vil nefnilega hafa þær soldið sterkar eða bragðmiklar, stökkar en örlítið mjúkar inní og ef ég hef þær þunnar þá eiga þær að vera alveg stökkar en svo ef ég hef þær þykkri þá eiga þær að vera stökkar að utan og mjúkar að innan. Þessi uppskrift uppfyllir allar þessar kröfur mínar svo endilega tékkið á þessum ef þið eruð að leita að rosalega góðri piparkökuuppskrift.

Þessi uppskrift er vel stór og gefur alveg helling af piparkökum í öllum stærðum og gerðum. Það eina sem hægt er að setja út á þessa uppskrift er að maður getur ekki flatt hana út aftur og aftur og aftur, þ.e 3var sinnum er eiginlega það mesta en ég passaði bara að stinga út þannig að formin snertust alveg svo að sem minnst væri af afgöngum. Ég notaði líka mjög gott ráð sem er að fletja út deigið og setja það svo á smjörpappír og stinga út á honum og taka svo utan af formunum deigið en þannig aflagast ekki kökurnar eins og þær geta gert ef maður þarf að taka þær af borðinu og setja á pappírinn, þá geta ýmsar hendur eða hausar teygst.

Piparkökur

130 ml hunang(má skipta á milli hunangs,maple sýróps og Golden sýróps)
130 ml púðursykur
2 msk mulið engifer
3 tsk mulinn kanill
1 tsk stjörnuanís, mulinn
1 tsk negull
2 tsk matarsódi
200 ml smjör, skorið í bita
1 egg léttþeytt
600 ml hveiti
1/2 tsk salt

Aðferð:
1. Setjið í djúpan pott: hunang,púðursykur og krydd og látið suðuna koma upp yfir meðalhita. Takið af hitanum.
2. Hrærið matarsóda saman við(blandan bólgnar öll upp og freyðir sem er eðlilegt)
3.Bætið þá smjöri saman við 3 msk í einu og látið bráðna alveg saman við áður en næstu smjörskeiðum er bætt saman við. Þar til allt er bráðnar saman.+
4. Bætið eggi saman við og hrærið hveiti og salti síðast saman við.
5. Hitið ofninn í 160°C.
6. Takið deigið úr pottinum og setjið á hveitistráð borð og hnoðið þar til það er komið saman og er glansandi fallegt.(30 sek til 1 mínúta)Passið að hnoða ekki of mikið.
7. Skiptið deiginu í tvennt og plastið annan hlutann og geymið við stofuhita. Fletið svo hinn hlutan út í ca 35 cm ferning, setjið á smjörpappír, skerið út fígúrur og bakið í ofni við 160°C í 10-12 mínútur(í mínum ofni voru þær 12 mínútur en hann er ekki blástursofn) Mæli með að fylgjast með þeim.

No comments: