Monday, December 21, 2009

Súkkulaðikaramellur hjúpaðar súkkulaði


Ég prófaði loksins að gera þessar og sem betur fer því þær eru guðdómlegar! Ef ykkur finnast fílakaramellur góðar þá þykir ykkur þessar klikkaðar! Það var líka miklu minna mál að búa þær til heldur en ég hélt, það eina sem maður þarf alveg pottþétt er réttur hitamælir(tékkið á því með því að mæla sjóðandi vatn), en ég komst að því að minn er 2 gráðum of lár. Maður ræður alveg hvort maður hjúpar þær eða ekki en ég var eitthvað stressuð yfir að þær yrðu of harðar og sauð þær aðeins of stutt sem gerði það að verkum að hún varð of mjúk en ég reddaði því bara með því að setja hana inn í kæli og skera kalda í litla bita, bræða súkkulaði og dýfa hverjum og einum þar í. Soldið tímafrekt þar sem ég vildi hafa bitana litla en ekki flókið ferli. Það tók mig 1 klst að hjúpa allt og ætli það hafi ekki tekið mig 45 mínútur að búa til karamelluna og þar fór mesti tíminn í að bíða eftir að karamellan yrði nægilega heit með því að standa yfir pottinum með hitamælinn. Karamella getur brunnið mjög hratt þannig að ég mæli með því að fylgjast vel með og standa yfir pottinum(góður tími til að taka símaspjall við einhvern sem þú hefur ekki heyrt í lengi).
Ég notaði bara suðusúkkulaði og fannst það ekkert verra en hefði ég notað fínna súkkulaði en ég mæli með því að nota aðeins súkkulaði sem er undir 70%.
Saltið í þeim kemur með skemmtilegt surprise í munninum, ég veit ekki með ykkur en alltaf þegar ég borða snakk þá tek ég mér hlé á milli til að borða súkkulaði og hafið þið smakkað popp blandað með Nóa kroppi? Það er svakalega gott. Þetta er svipaður fílingur fyrir utan að ég notaði svakalega lítið salt og það verður að vera milt salt eins og Maldon, þá kemur smávegis hint af salti, æðislegt! Hins vegar ef þið eigið ekki Maldon og notið það ekki að staðaldri verið þá ekkert að kaupa það til að nota aðeins 1 tsk, sleppið því bara, þær eru alveg jafn góðar.

Súkkulaðikaramella með maldonsalti og súkkulaðihjúpaðar

400 ml rjómi
300 gr súkkulaði(suðu)undir 70%, fínt hakkað
350 ml sykur
100 ml ljóst sýróp
50 ml vatn
1/4 tsk salt, maldon
1,5 msk smjör, skorið í bita
2 tsk maldon salt
20,3 cm ferkantað form, 2 lengjur af smjörpappír, leggjið smjörpappírinn þannig að fljóti yfir barmana og svo aðra lengju í hina áttina

Aðferð:
1.Sjóðið rjóma í 1 ltr potti við meðal hita. Minnkið hitann og bætið súkkulaðinu saman við, látið standa í 1 mínútu og hærið svo þar til súkkulaðið er alveg bráðið.Takið af hita.
2. Látið suðuna koma upp á sykrinum,sýrópinu, vatni og salti í 5 ltr potti við meðalhita. Hrærið þar til sykurinn hefur alveg leysts up. Sjóðið án þess að hræra þartil sykurinn er djúp gullinn, ca 10 mín.
3. Hallið pottinum og hellið súkkulaðiblöndunni varlega saman við(blandan bullar mjög mikið). Haldið áfram að sjóða þar til blandan nær 124°C, ca 15 mín.
4. Bætið þá smjöri saman við og hrærið þar til það hefur blandast vel saman við.
5. Hellið strax í form(ekki skrapa botninn á pottinum).
6. Látið standa í 10 mínútur og stráið þá ca 1/2-1 tsk af maldon salti yfir. Kælið alveg í forminu í ca 2 tíma. Snúið karamellunni við á hreint skurðarbretti og takið bökunarpappírinn af, snúið þá karamellunni upp með saltið upp og smyrjið örlítilli olíu á beittan hníf og skerið í 3 cm bita.

Ef þið viljið hjúpa með súkkulaði þá breytti það ekkert rosalega miklu máli hvort ég var með suðusúkkulaði eða 56% þannig að suðu gengur alveg og ég notaði ca. 300 gr til að hjúpa allar.

No comments: