Wednesday, December 30, 2009

Pasta með steiktum harricot verte baunum og balsamicdressingu

Ég er í einhverju pastastuði þessa dagana, kannski vegna þess að það er langt síðan ég hef haft það og hátíðamaturinn þetta árið sem önnur þungur í maga og þarf aðeins að létta á þessu öllu saman.
Ég henti í eitt salat í gær með þessari frábæru dressingu, svo langaði mig að fá smá Ítalíufílíng í kroppinn og steikti því strengjabaunir með extra virgin ólífuolíu og maldonsalti, þar til þær verða léttbrúnar, það er fáránlega gott, soldið eins og snakk.
Venjulega þegar ég geri svona salat með pasta hef ég enga dressingu en í þetta skiptið ákvað ég að breyta til og það heppnaðist svona líka dásamlega.

Pasta með steiktum harricot verte baunum og balsamic dressingu
f/4
400 gr pasta
200 gr strengjabaunir(harricot verte)
6 kirsuberjatómatar eða konfekttómatar, skornir í fernt
3 msk fetaostur
3 msk ólifur, skornar í tvennt
3-4 sneiðar beikon
2 tsk sýrður rjómi
2 tsk majónes
salt og pipar

Dressing:
2 msk balsamico edik
4-5 msk ólífuolía
1 tsk sinnep
1 msk púðursykur

Aðferð:
1. Steikið baunirnar mjög vel í slatta af olíu og smá maldon salti, þar til þær eru létt brúnaðar. Á meðan er beikonið steikt í ofninum(setjið á smjörpappír og grillið) og vatn sett yfir fyrir pasta.
2. Sjóðið pasta og létt kælið það.
3. Setjið allt í skál fyrir utan dressinguna og blandið létt saman
4. Gerið dressinguna: Notið helst töfrasprota til þess að gera hana þykka, þá er olíunni hellt varlega saman við edikið og púðursykurinn og hrært í á meðan svo er sinnepinu bætt saman við.
Blandið saman við pastað eftir smekk. Sumir vilja hafa mikið aðrir lítið, læt ykkur ráða því.

Tuesday, December 29, 2009

Rjómapasta með fetaosti og beikoni

Ég verð nú að viðurkenna að ég var eilítið þvinguð til þess að setja hér inn þessa uppskrift, þeim fannst hún svo góð heimilisfólkinu mínu. Þannig er það nú með mig að ég vil helst ekki elda neitt með rjóma, ég er ekki mikið fyrir hann og rjóma pasta þykir mér frekar vera amerískt afbrigði af pastarétti en nokkurn tímann ítalskt, sérstaklega þar sem maður átti verulega erfitt með að finna rjóma í búðum á Ítalíu vegna einmitt þess að þeir nota hann afar sjaldan og enn sjaldnar með pasta. Þess vegna hef ég einbeitt mér að því að búa til pastarétti sem eru ferskari og léttari en rjómapasta en jæja ég átti rjóma inni í ísskáp eftir hátíðarnar, þar sem ég var með ís í eftirrétt og vegna þess að þetta er mjög dýrt hráefni ákvað ég að nota þetta í stað þess að henda í ruslið. Ég reyndar gerði mér grein fyrir því að ísskápurinn var því sem næst tómur en náði þó að henda í þennan rétt og kom svona líka vel út. Hér eru þó engin geimvísindi á ferð en ég set þetta inn samt sem áður.

Rjómapasta með fetaosti og beikoni
Fyrir litla sæta fjölskyldu

200 ml rjómi
1 msk fetaostur
2 tsk sýrður rjómi
2 gulrætur, skornar í 1 cm ferninga
1/2 lítill laukur, saxaður
4 beikonsneiðar, skrornar í litla bita
1/2 nautakraftsteningur
salt og pipar
smá smjörklípa
Spaghetti eða pasta(ég geri ráð fyrir 100 gr á svangan fullorðinn í aðalrétt og 50 gr á litlu músina mína en venjulegt barn borðar um 70 gr)

Aðferð:
1. Skerið og saxið lauk, gulrætur og beikon og léttsteikið upp úr smjörklipu í potti.Bætið þá rjómanum, ostinum og sýrða rjómanum saman við ásamt kraftinum, salti og pipar og látið sjóða vel niður í ca 10-15 mínútur, þar til sósan er þykk og ljúffeng.
2. Sjóðið pastað eða spaghetti á meðan og berið farm með brauði

Það er hægt að segja að þessi sé ein af þessum fljótlegu og einföldu uppskriftum þetta tók mig ekki meira en 15 mínútur að búa til.

Monday, December 21, 2009

Súkkulaðikaramellur hjúpaðar súkkulaði


Ég prófaði loksins að gera þessar og sem betur fer því þær eru guðdómlegar! Ef ykkur finnast fílakaramellur góðar þá þykir ykkur þessar klikkaðar! Það var líka miklu minna mál að búa þær til heldur en ég hélt, það eina sem maður þarf alveg pottþétt er réttur hitamælir(tékkið á því með því að mæla sjóðandi vatn), en ég komst að því að minn er 2 gráðum of lár. Maður ræður alveg hvort maður hjúpar þær eða ekki en ég var eitthvað stressuð yfir að þær yrðu of harðar og sauð þær aðeins of stutt sem gerði það að verkum að hún varð of mjúk en ég reddaði því bara með því að setja hana inn í kæli og skera kalda í litla bita, bræða súkkulaði og dýfa hverjum og einum þar í. Soldið tímafrekt þar sem ég vildi hafa bitana litla en ekki flókið ferli. Það tók mig 1 klst að hjúpa allt og ætli það hafi ekki tekið mig 45 mínútur að búa til karamelluna og þar fór mesti tíminn í að bíða eftir að karamellan yrði nægilega heit með því að standa yfir pottinum með hitamælinn. Karamella getur brunnið mjög hratt þannig að ég mæli með því að fylgjast vel með og standa yfir pottinum(góður tími til að taka símaspjall við einhvern sem þú hefur ekki heyrt í lengi).
Ég notaði bara suðusúkkulaði og fannst það ekkert verra en hefði ég notað fínna súkkulaði en ég mæli með því að nota aðeins súkkulaði sem er undir 70%.
Saltið í þeim kemur með skemmtilegt surprise í munninum, ég veit ekki með ykkur en alltaf þegar ég borða snakk þá tek ég mér hlé á milli til að borða súkkulaði og hafið þið smakkað popp blandað með Nóa kroppi? Það er svakalega gott. Þetta er svipaður fílingur fyrir utan að ég notaði svakalega lítið salt og það verður að vera milt salt eins og Maldon, þá kemur smávegis hint af salti, æðislegt! Hins vegar ef þið eigið ekki Maldon og notið það ekki að staðaldri verið þá ekkert að kaupa það til að nota aðeins 1 tsk, sleppið því bara, þær eru alveg jafn góðar.

Súkkulaðikaramella með maldonsalti og súkkulaðihjúpaðar

400 ml rjómi
300 gr súkkulaði(suðu)undir 70%, fínt hakkað
350 ml sykur
100 ml ljóst sýróp
50 ml vatn
1/4 tsk salt, maldon
1,5 msk smjör, skorið í bita
2 tsk maldon salt
20,3 cm ferkantað form, 2 lengjur af smjörpappír, leggjið smjörpappírinn þannig að fljóti yfir barmana og svo aðra lengju í hina áttina

Aðferð:
1.Sjóðið rjóma í 1 ltr potti við meðal hita. Minnkið hitann og bætið súkkulaðinu saman við, látið standa í 1 mínútu og hærið svo þar til súkkulaðið er alveg bráðið.Takið af hita.
2. Látið suðuna koma upp á sykrinum,sýrópinu, vatni og salti í 5 ltr potti við meðalhita. Hrærið þar til sykurinn hefur alveg leysts up. Sjóðið án þess að hræra þartil sykurinn er djúp gullinn, ca 10 mín.
3. Hallið pottinum og hellið súkkulaðiblöndunni varlega saman við(blandan bullar mjög mikið). Haldið áfram að sjóða þar til blandan nær 124°C, ca 15 mín.
4. Bætið þá smjöri saman við og hrærið þar til það hefur blandast vel saman við.
5. Hellið strax í form(ekki skrapa botninn á pottinum).
6. Látið standa í 10 mínútur og stráið þá ca 1/2-1 tsk af maldon salti yfir. Kælið alveg í forminu í ca 2 tíma. Snúið karamellunni við á hreint skurðarbretti og takið bökunarpappírinn af, snúið þá karamellunni upp með saltið upp og smyrjið örlítilli olíu á beittan hníf og skerið í 3 cm bita.

Ef þið viljið hjúpa með súkkulaði þá breytti það ekkert rosalega miklu máli hvort ég var með suðusúkkulaði eða 56% þannig að suðu gengur alveg og ég notaði ca. 300 gr til að hjúpa allar.

Monday, December 14, 2009

Þriggja hæða súkkulaði og marengskaka með mokkarjóma og karamellu



Já þetta er massívur titill enda massív kaka get ég sagt ykkur. Ég hef nú gert hana fyrir tvö afmæli og hún var enn betri í seinna skiptið. Hún lítur líka mjög grand út og fólk heldur að maður hafi verið að baka þetta í heillangan tíma en viti menn það er ekkert mál að vippa þessari saman. Ég bakaði súkkulaðibotninn 2 vikum fyrir afmælið, plastaði hann vel og frysti og marengsinn er einnig hægt að geyma í 2 vikur í lofttæmdum umbúðum, svo að það eina sem þarf að gera á daginn sem hún er borin fram er að gera rjómann og setja hana saman, sem tók mig um 10 mínútur.
Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa næst þegar ykkur langar í svakalega köku! eða þurfið að slá fólk út af laginu í einhverju kaffiboðinu eða saumaklúbbnum.
Uppskriftin á eftir að líta út fyrir að vera flókin en þegar þið byrjið þá er hún það alls ekki. Hins vegar má geta þess að marengs tekur langan tíma í ofni, þannig að ef þið ætlið að gera þessa köku á einum degi eða alla í einu þá þarf að byrja snemma, þó svo að vinnan sé lítil er hún kannski tímafrek í ofninum, en þá er bara hægt að taka til á meðan;) já eða fara í vinnuna.

Þriggja hæða súkkulaði-og marengskaka með mokkarjóma og karamellu
(Kakan er samansett þannig að neðsta lagið er súkkulaðibotn,rjómi,marengsbotn,rjómi og karamella,marengsbotn rjómi og karamella)

Súkkulaðibotn
(1 botn)
100 ml sjóðandi vatn
75 ml ósætt kakóduft(ekki hollenskt)
50 ml mjólk(helst nýmjólk)
1/2 tsk vanilludropar
200 ml hveiti
rúmlega hálf teskeið matarsódi
salt á hnífsoddi
113 gr smjör, mjúkt(ég mýkti það með því að kremja það á milli fingranna)
125 ml púðursykur
75 ml sykur
4 stór egg

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. og smyrjið 23 cm hringform og setjið smjörpappír í botninn og dustið með hveiti.
2.Blandið saman kakó og sjóðandi vatni þar til það glansar og bætið þá mjólk og vanillu saman við.
3. Sigtið saman hveiti , matarsóda og salti í annarri skál.
4. Þeytið saman smjör og báðar tegundirnar af sykri með rafmagnsþeytara(eða í vél)þar til það er ljóst og létt og bætið þá eggjum saman við einu í einu og pískið vel saman eftir hvert egg. Þeytið þá saman við hveiti og kakóblöndunum til skiptis og byrjið og endið á hveitiblöndunni(deigið gæti litið út fyrir að hafa skilið).
5. Setjið deigið í formið og bakið í 20-25 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur út hreinn. Takið út og kælið á grind og takið svo úr forminu og kælið alveg. Hægt er að geyma botninn vel plastaðann við stofuhita í tvo daga eða í fryst í viku(jafnvel meira en þá gæti hún orðið soldið laus í sér).

Púuðursykurs-og kornflexmarengs
(2 botnar)
4 eggjahvítur
100 gr sykur
100 gr púðursykur
70 gr kornflex
1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 150°C og setjið smjörpappír í hliðarnar á tveimur 23 cm hringsmelluformum og setjið á ofnplötur með smjörpappír(enn betra ef þið eigið sílíkonform, eða sílíkonmottur en passið að það sé í sömu stærð og súkkulaðibotninn)
2. Stífþeytið eggjahvíturnar. Bætið sykrum útí og þeytið í 8-12 mínútur.
3. Myljið kornflexið(gott að setja það í lítinn nestispoka og mylja með kökukefli)
og hrærið varlega saman við eggjahvíturnar ásamt lyftiduftinu.
4. Setjið helminginn í hvort form og sléttið vel úr.

Bakið við 150°C í klukkutíma og látið kólna í ofninum, passið að opna ekki ofninn fyrr en ofninn er orðinn alveg kaldur(annars gæti marengsinn fallið).
Aths. ef hann fellur er það í lagi en setjið þá bara minna af rjómanum þegar kakan er sett saman.

Karamellusósa
150 ml sykur
50 ml vatn
1,5 msk smjör
100 ml rjómi

Aðferð:
1. Setjið sykur og vatn á pönnu og þegar hann er orðinn nokkuð brúnn er smjörinu bætt saman við(blandan mun bulla rosalega) og síðast rjómanum.
Það er einnig hægt að gera þetta í potti en þá tekur það lengri tíma fyrir sykurinn að brúnast.
(ég geri tvöfalda uppskrift og geymi karamelluna til að hafa með ís eða ef einhver vill auka á kökuna, svo er bara svo gott að vera með karamellusósu í ísskápnum, alltaf tilbúna, hún geymist svo rosalega lengi)

Mokkarjómi
500 ml rjómi
2 msk(kúfaðar)vanilluskyr, þetta græna ekki skyr.is það passar ekki(prófaði það)
50 gr(5 msk kúfaðar)flórsykur
1 msk espresso kaffi(sterkt), kalt

Aðferð.
1. Þeytið rjómann vel og blandið öllu hinu mjög varlega saman við með sleikju.

Setjið saman kökuna
Setjið súkkulaðibotninn fyrst á kökudisk og smyrjið með 1/3 af rjómanum, setjið þá marengsbotn ofan á og smyrjið með 1/3 af rjómanum og dreifið karamellu yfir með skeið, passið að setja ekki of mikið(hún á ekki að þekja). Setjið þá seinni marengsbotninn ofan á og smyrjið með afgangnum af rjómanum og dreifið karamellu yfir með skeið eða eins og ég gerði og sést á myndinn með rjómasprautu og gerði fyrst lóðréttar línur,þá láréttar ofan á og svo á ská og aftur á ská í hina áttina og gott að láta hverja línu fara aðeins niður kökuna á hliðunum.

Endilega ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir bara setja í athugasemdakerfið og ég mun svara ykkur um hæl.

Friday, December 4, 2009

Piparkökur

Nú hef ég gert nokkrar tilraunir með piparkökur og hef hingað til ekki verið nógu ánægð með afraksturinn alltaf eitthvað að en svo ákvað ég að leita að amerískri uppskrift og sjá hvort kanarnir væru ekki bara með þetta og viti menn ég rambaði á eina sem er alveg súper dúper góð ég reyndar breytti aðeins kryddmagninu og sé ekki eftir því, ég vil nefnilega hafa þær soldið sterkar eða bragðmiklar, stökkar en örlítið mjúkar inní og ef ég hef þær þunnar þá eiga þær að vera alveg stökkar en svo ef ég hef þær þykkri þá eiga þær að vera stökkar að utan og mjúkar að innan. Þessi uppskrift uppfyllir allar þessar kröfur mínar svo endilega tékkið á þessum ef þið eruð að leita að rosalega góðri piparkökuuppskrift.

Þessi uppskrift er vel stór og gefur alveg helling af piparkökum í öllum stærðum og gerðum. Það eina sem hægt er að setja út á þessa uppskrift er að maður getur ekki flatt hana út aftur og aftur og aftur, þ.e 3var sinnum er eiginlega það mesta en ég passaði bara að stinga út þannig að formin snertust alveg svo að sem minnst væri af afgöngum. Ég notaði líka mjög gott ráð sem er að fletja út deigið og setja það svo á smjörpappír og stinga út á honum og taka svo utan af formunum deigið en þannig aflagast ekki kökurnar eins og þær geta gert ef maður þarf að taka þær af borðinu og setja á pappírinn, þá geta ýmsar hendur eða hausar teygst.

Piparkökur

130 ml hunang(má skipta á milli hunangs,maple sýróps og Golden sýróps)
130 ml púðursykur
2 msk mulið engifer
3 tsk mulinn kanill
1 tsk stjörnuanís, mulinn
1 tsk negull
2 tsk matarsódi
200 ml smjör, skorið í bita
1 egg léttþeytt
600 ml hveiti
1/2 tsk salt

Aðferð:
1. Setjið í djúpan pott: hunang,púðursykur og krydd og látið suðuna koma upp yfir meðalhita. Takið af hitanum.
2. Hrærið matarsóda saman við(blandan bólgnar öll upp og freyðir sem er eðlilegt)
3.Bætið þá smjöri saman við 3 msk í einu og látið bráðna alveg saman við áður en næstu smjörskeiðum er bætt saman við. Þar til allt er bráðnar saman.+
4. Bætið eggi saman við og hrærið hveiti og salti síðast saman við.
5. Hitið ofninn í 160°C.
6. Takið deigið úr pottinum og setjið á hveitistráð borð og hnoðið þar til það er komið saman og er glansandi fallegt.(30 sek til 1 mínúta)Passið að hnoða ekki of mikið.
7. Skiptið deiginu í tvennt og plastið annan hlutann og geymið við stofuhita. Fletið svo hinn hlutan út í ca 35 cm ferning, setjið á smjörpappír, skerið út fígúrur og bakið í ofni við 160°C í 10-12 mínútur(í mínum ofni voru þær 12 mínútur en hann er ekki blástursofn) Mæli með að fylgjast með þeim.