Monday, February 23, 2009

Bolla Bolla Bolla

Ég er búin að borða svo mikið af bollum í dag að ég þarf verulega á góðu skokki að halda!
Ég bakaði þær í gær til þess að dóttirin gæti tekið með sér í skólan og eiginmaðurinn í vinnuna og ég fann uppskrift í uppskriftabók hjá tengdó og þær heppnuðust alveg prýðilega. Það hafa borist til mín kvartanir um að þær falli alltaf eða komi út með gati undir, ég verð bara að segja að þá getur ekki verið að það sé farið eftir uppskriftinni frá A til Ö því þetta hefur bara aldrei gerst hjá mér, kannski er þessi uppskrift svona góð, aldrei að vita.

Vatnsdeigsbollur
ca 20 bollur í minni kantinum
250 ml hveiti
100 gr smjör
300 ml vatn
2 egg
lyftiduft á hnífsoddi
salt á hnífsoddi

Aðferð:
Hitið ofninn í 220°C
1. Bræðið smjörið og vatnið saman í þykkbotna potti
2. Takið af hitanum þegar það er bráðið og pískið hveitinu, saltinu og lyftiduftinu saman við þar til deigið glansar.
3. Setjið aftur á helluna yfir lágan hita og hrærið saman þar til deigið sleppir potti.
4. Takið af hitanum og hrærið eggin saman við eitt í einu og hrærið þannig að blandist vel eftir hvort egg. Setjið bökunarpappír á ofngrind og mótið bollur með tveimur matskeiðum og best er að hafa þær frekar litlar,jafnstórar og þannig að þær séu mótaðar meira upp heldur en flatar.
5. Bakið í ofninum við 220°C í 10 mín lækkið þá hitann í 180°C og bakið áfram í 10 mínútur og passið að opna alls ekki ofninn fyrr en eftir 20 mín, því annars falla þær. Þær eiga að vera gullinbrúnar að lit. Best er að skera þær rétt eftir að þær eru teknar úr ofninum.

Glassúr:
ég verð að segja að ég er frekar dýr í rekstri hér, en ég má það stundum
50 gr 70% súkkulaði eða konsúmsúkkulaði með appelsínubragði
2 tsk smjör

Brætt saman og sett ofan á bollurnar með skeið.

Svo set ég bara rifsberjasultu(ja eða þá sultu sem ég á í ísskápnum) og þeyttan rjóma á milli.

3 comments:

Anonymous said...

Til hamingju með óléttuna!
Vildi bara láta þig vita að mig langaði alveg sjúklega mikið í einhvern góðan sunnudagsmat í gær og gerði svínakóteletturnar með gráðostasósunni, sló alveg í gegn.
Haltu endilega áfram, frábærar uppskriftir sem er gott að grípa í þegar maður getur ekki skroppið í mat til famílíunnar med det
samme:-)
Kveðja frá Gautaborg, Jakobína

Anonymous said...

Þetta er sama bolluupsskrift og ég fékk frá mömmu, ég lengdi bökunartímann hjá mér um fimm mínútur því fyrsta umferð féll eftir 20 mínúturnar. En þetta fer örugglega eftir ofnum, baka misvel.
Klárlega bestu bollurnar í bænum og súper einfaldar í framleiðslu!

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

Frábært Jakobína, það er nú ansi gaman að heyra.
Já ofnarnir geta verið mjög mismunandi, minn er t.d. mjög primitívur og sýnir engar tölur eftir 200°C, þannig að ég bara set yfir og held að það sé 220°eða eitthvað svoleiðis. Mamma á held ég eina ofninn sem ég hef prófað sem er með ákkúrat hita og hægt er að fara ákkúrat eftir tíma í uppskriftum. Enda er hann bara 6 mánaða kríli;)