Þessi sósa er einfaldlega besta BBQ sósa sem ég hef smakkað og þær hef ég smakkað ansi margar. Ég hef smakkað þær hjá meistarakokkum en engin jafnast á við þessa, enda er hún einföld og ef það var eitthvað sem ég lærði á þessum þremur árum á Ítalíu þá var það að einfalt er einfaldlega betra.
Ég verð að hafa bakaðar kartöflur með þessum rétti ég er bara svo íhaldssöm með þetta, ég var alin upp við þær, pabbi nefnilega sá um föstudagsmatinn á mínum uppvaxtarárum og þá var haldið í hefðir í þónokkur ár en svo þegar allir fóru að kvarta eftir kannski 4-8 ár þá var skipt um hefð og ný var mótuð. Hann sá einnig um dýrindis brunch á laugardögum og sunnudögum og það var mjög erfitt að kveðja það þegar maður flutti að heiman enda var manni iðulega boðið, nema þegar við bjuggum erlendis, þá var kannski hringt og við fengum að heyra hvað var mikið stuð á liðinu í gegnum tólið. Ein af þessum hefðum föður míns var grill á föstudögum, hvað sem á gekk þá var grillað, ekki einu sinni stormur eða snjóbyljir gátu haldið honum frá grillinu, þá klæddi hann sig bara betur og grillaði eins og hann ætti lífið að leysa, og ég get sagt ykkur það í fullkominni hreinskilni að við vorum alltaf guðs lifandi fegnar, við systurnar, því þetta var svo rosalega skemmtileg hefð. En nú er langt síðan grillið var tekið fram á Laufásveginum og var ég því komin með fráhvarfseinkenni og skipaði eiginmanninum út að grilla á meðan kartöflurnar mjökuðust að fullkomnun í ofninum. Hvað er betra en bökuð kartafla með fullt af smjöri og salti? Hið fullkomna samband kartöflunnar við smjörið og saltið hefur svo sannarlega ekki farið framhjá mér og er ég svo gersamlega kolfallin fyrir því, ef ég kemst nálægt fullkominni Duchesse(mjúk kartöflumús) þá get ég einfaldlega ekki hætt, þá fjúka allar reglur um kolvetnishöft út í veður og vind!
Hér kemur hin snilldar uppskrift föður míns með smá tvisti frá mér
BBQ sósa pabba
þessi uppskrift er frekar stór og getur dugað fyrir allt upp í kjöt fyrir 10 manns
ég helminga hana þegar við erum bara þrjú
200 ml tómatsósa(ketchup Heinz eða þvíumlíkt)
100 ml ólífuolía
1 msk sesamfræ(enn betra ef þau eru ristuð)
1 hvítlauksrif, kramið
1 msk rósmarín
50 ml púðursykur
Aðferð:
1. Öllu blandað saman í stóra skál og kjötið sett í til marineringar, gott er að láta það í þegar kartöflurnar fara inn í ofninn en þær taka yfirleitt um klukkutíma að bakast og þegar þær eru næstum tilbúnar er kjötið sett á grillið og munið að þessi sósa er bara betri ef hún fær að brenna aðeins. Á meðan kjötið er á grillinu er gott að salta og pipra á hvorri hlið.
Kartöflurnar eru bestar þegar maður þvær þær að utan og saltar á hvorri hlið setur svo á ofngrindina og bakar við 200°C í klukkutíma. Til að athuga hvort þær eru tilbúnar er best að stinga hnífsoddi í þá stærstu og ef það er engin fyrirstaða er hún tilbúin ef ekki má hún dúlla sér aðeins lengur. Ef kartöflurnar eru stórar og mjög kringlóttar er best að gera ráð fyrir einum og hálfum klukkutíma í bökun, þess vegna vel ég alltaf þær flötu þegar ég vel bökunarkartöflur.
Það er líka mjög gott að hafa ferkst salat með. Ég hef icebergsalat með parmesanosti(hann var keyptur í eyðslukasti eiginmannsins þegar hann langaði í spaghetti carbonara) og ristuðum sesamfræum, mangóbalsamico edik og ólífuolíudressingu. Mangóbalsamico er handa Heklu litlu þar sem bragðið er sætara og mildara en á venjulegu ediki og gerir salat ómótstæðilegt fyrir krakka.
Saturday, February 21, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment