Monday, February 23, 2009

Bolla Bolla Bolla

Ég er búin að borða svo mikið af bollum í dag að ég þarf verulega á góðu skokki að halda!
Ég bakaði þær í gær til þess að dóttirin gæti tekið með sér í skólan og eiginmaðurinn í vinnuna og ég fann uppskrift í uppskriftabók hjá tengdó og þær heppnuðust alveg prýðilega. Það hafa borist til mín kvartanir um að þær falli alltaf eða komi út með gati undir, ég verð bara að segja að þá getur ekki verið að það sé farið eftir uppskriftinni frá A til Ö því þetta hefur bara aldrei gerst hjá mér, kannski er þessi uppskrift svona góð, aldrei að vita.

Vatnsdeigsbollur
ca 20 bollur í minni kantinum
250 ml hveiti
100 gr smjör
300 ml vatn
2 egg
lyftiduft á hnífsoddi
salt á hnífsoddi

Aðferð:
Hitið ofninn í 220°C
1. Bræðið smjörið og vatnið saman í þykkbotna potti
2. Takið af hitanum þegar það er bráðið og pískið hveitinu, saltinu og lyftiduftinu saman við þar til deigið glansar.
3. Setjið aftur á helluna yfir lágan hita og hrærið saman þar til deigið sleppir potti.
4. Takið af hitanum og hrærið eggin saman við eitt í einu og hrærið þannig að blandist vel eftir hvort egg. Setjið bökunarpappír á ofngrind og mótið bollur með tveimur matskeiðum og best er að hafa þær frekar litlar,jafnstórar og þannig að þær séu mótaðar meira upp heldur en flatar.
5. Bakið í ofninum við 220°C í 10 mín lækkið þá hitann í 180°C og bakið áfram í 10 mínútur og passið að opna alls ekki ofninn fyrr en eftir 20 mín, því annars falla þær. Þær eiga að vera gullinbrúnar að lit. Best er að skera þær rétt eftir að þær eru teknar úr ofninum.

Glassúr:
ég verð að segja að ég er frekar dýr í rekstri hér, en ég má það stundum
50 gr 70% súkkulaði eða konsúmsúkkulaði með appelsínubragði
2 tsk smjör

Brætt saman og sett ofan á bollurnar með skeið.

Svo set ég bara rifsberjasultu(ja eða þá sultu sem ég á í ísskápnum) og þeyttan rjóma á milli.

Saturday, February 21, 2009

Grísahnakkar í BBQ sósu pabba

Þessi sósa er einfaldlega besta BBQ sósa sem ég hef smakkað og þær hef ég smakkað ansi margar. Ég hef smakkað þær hjá meistarakokkum en engin jafnast á við þessa, enda er hún einföld og ef það var eitthvað sem ég lærði á þessum þremur árum á Ítalíu þá var það að einfalt er einfaldlega betra.
Ég verð að hafa bakaðar kartöflur með þessum rétti ég er bara svo íhaldssöm með þetta, ég var alin upp við þær, pabbi nefnilega sá um föstudagsmatinn á mínum uppvaxtarárum og þá var haldið í hefðir í þónokkur ár en svo þegar allir fóru að kvarta eftir kannski 4-8 ár þá var skipt um hefð og ný var mótuð. Hann sá einnig um dýrindis brunch á laugardögum og sunnudögum og það var mjög erfitt að kveðja það þegar maður flutti að heiman enda var manni iðulega boðið, nema þegar við bjuggum erlendis, þá var kannski hringt og við fengum að heyra hvað var mikið stuð á liðinu í gegnum tólið. Ein af þessum hefðum föður míns var grill á föstudögum, hvað sem á gekk þá var grillað, ekki einu sinni stormur eða snjóbyljir gátu haldið honum frá grillinu, þá klæddi hann sig bara betur og grillaði eins og hann ætti lífið að leysa, og ég get sagt ykkur það í fullkominni hreinskilni að við vorum alltaf guðs lifandi fegnar, við systurnar, því þetta var svo rosalega skemmtileg hefð. En nú er langt síðan grillið var tekið fram á Laufásveginum og var ég því komin með fráhvarfseinkenni og skipaði eiginmanninum út að grilla á meðan kartöflurnar mjökuðust að fullkomnun í ofninum. Hvað er betra en bökuð kartafla með fullt af smjöri og salti? Hið fullkomna samband kartöflunnar við smjörið og saltið hefur svo sannarlega ekki farið framhjá mér og er ég svo gersamlega kolfallin fyrir því, ef ég kemst nálægt fullkominni Duchesse(mjúk kartöflumús) þá get ég einfaldlega ekki hætt, þá fjúka allar reglur um kolvetnishöft út í veður og vind!

Hér kemur hin snilldar uppskrift föður míns með smá tvisti frá mér

BBQ sósa pabba
þessi uppskrift er frekar stór og getur dugað fyrir allt upp í kjöt fyrir 10 manns
ég helminga hana þegar við erum bara þrjú

200 ml tómatsósa(ketchup Heinz eða þvíumlíkt)
100 ml ólífuolía
1 msk sesamfræ(enn betra ef þau eru ristuð)
1 hvítlauksrif, kramið
1 msk rósmarín
50 ml púðursykur

Aðferð:
1. Öllu blandað saman í stóra skál og kjötið sett í til marineringar, gott er að láta það í þegar kartöflurnar fara inn í ofninn en þær taka yfirleitt um klukkutíma að bakast og þegar þær eru næstum tilbúnar er kjötið sett á grillið og munið að þessi sósa er bara betri ef hún fær að brenna aðeins. Á meðan kjötið er á grillinu er gott að salta og pipra á hvorri hlið.

Kartöflurnar eru bestar þegar maður þvær þær að utan og saltar á hvorri hlið setur svo á ofngrindina og bakar við 200°C í klukkutíma. Til að athuga hvort þær eru tilbúnar er best að stinga hnífsoddi í þá stærstu og ef það er engin fyrirstaða er hún tilbúin ef ekki má hún dúlla sér aðeins lengur. Ef kartöflurnar eru stórar og mjög kringlóttar er best að gera ráð fyrir einum og hálfum klukkutíma í bökun, þess vegna vel ég alltaf þær flötu þegar ég vel bökunarkartöflur.

Það er líka mjög gott að hafa ferkst salat með. Ég hef icebergsalat með parmesanosti(hann var keyptur í eyðslukasti eiginmannsins þegar hann langaði í spaghetti carbonara) og ristuðum sesamfræum, mangóbalsamico edik og ólífuolíudressingu. Mangóbalsamico er handa Heklu litlu þar sem bragðið er sætara og mildara en á venjulegu ediki og gerir salat ómótstæðilegt fyrir krakka.

Wednesday, February 18, 2009

Brettum upp ermarnar og hefjumst handa

já nú er ég til í slaginn, komin í venjulegan vinnutíma og þá er ekkert annað að gera en að halda áfram með vikumatseðlana. Ég tók eftir því að þegar þeir voru ekki til staðar þá fór verðið á matarkörfunni upp um 2000 kr á viku sem er enginn smá peningur!
Nú er ég líka orðin ófrísk þannig að síðustu 3 mánuðir hafa einnig einkennst af mikilli ,,morgun" ógleði sem teygði sig yfir allan daginn og var því ómögulegt fyrir mig að borða mat sem var mikið brasaður eða steiktur eða eitthvað í þeim dúr, það er líka kannski ástæðan fyrir því að réttirnir sem ég hef sett inn síðustu mánuði hafa verið mjög léttir. Það var t.d. ekki séns fyrir mig að borða uppáhaldið mitt, brasseraða rétti. Mig hefur nú í langan tíma langað til að elda uxahala handa honum Sverri mínum(hmm eða mér), því hann trúir mér ekki að það sé svona fáránlega gott eins og ég held fram. Þar sem hægt er að kaupa uxahala á 10 kr kílóið væri hægt að segja að það sé mjög ódýr matur. Ég ætla að gera þann rétt einhvern tímann á næstu vikum. Ég hef líka ákveðið og verið dugleg við að setja inn fiskrétt í hverri viku, nauðsynlegt fyrir heila litla krílisins, eða svo segir mamma.
Nóg er komið af blaðri í þetta skiptið og hér kemur matseðill vikunnar.

Matseðill vikunnar 19.feb-22.feb.

Fimmtudagur
Grísahnakkar(fékk þá á tilboði um daginn og henti í frystinn)
BBQ sósan hans pabba og bakaðar kartöflur(var að lesa að kartöfluhýði getur innihaldið eiturefni, en mér er sama, hýðið á bakaðri kartöflu er best!)

Föstudagur
Risotto, ég verð að sjá hvernig flökurleikinn verður, hvort ég geti fengið sveppa eða tómat eða hvað það nú verður...

Laugardagur
Grilluð lúða í paprikuþema, grillaðar paprikusósa, kartöflumús með paprikum og fetaosti og kannski maður hendi í paprikusalat með grilluðum paprikum, jú ég er með smá æði fyrir rauðum paprikum.

Sunnudagur
Pizza eða grillaður kjúklingur fer eftir leti dagsins.

Sunday, February 8, 2009

Enn um brauðið góða

Ég fékk þá flugu í höfuðið um daginn að gera eplapie. Ég fór því í búðina til að kaupa epli og hveiti í kökuna, mig vantaði sæt epli og vissi nafnið á nokkrum þannig en snillingarnir í búðunum hér setja aldrei nafnið á eplunum í kassan, en samt getur verið 300 kr verðmunur og í verð merkingunni uppi á vegg stendur ,, gul epli x kr/kg" ,,græn epli x kr/kg" og svo lítur maður á úrvalið og viti menn, það er enginn litarmunur á 3 tegundum af eplum, þau eru öll græn!!! Ég varð að sjálfsögðu alveg brjáluð og endaði með að kaupa Fugi eplin ásamt ,,grænum eplum" sem ég að sjálfsögðu hef ekki hugmynd um nafnið. Vissuð þið að það eru til yfir hundrað eplategundir og bragðið er alls ekki eins á þeim, reyndar mjög mismunandi? En jæja ég komst yfir pirringinn af þessu um leið og ég smakkaði á guðdómlegu pæjunni, uppskriftina fann ég á netsíðu sem ég leita mikið í þegar ég vil baka eða bara smjatta í hausnum á einhverjum réttum sem ég nenni ekki að elda sjálf, kemur fyrir alla... Hins vegar misskildi ég eitthvað magnið á eplunum eða var með of lítið kökuform þar sem ég á ekki ekta pie-form, þannig að ég var með allt of mikið af eplum sem ég hafði þegar skorið í bita og sett kanilsykur á, hvað var þá til ráða? jú Brauðið góða... Ég henti í brauðið og setti eplin í staðinn fyrir hnetu- og rúsínublönduna og setti smá haframjöl með, kannski meira fyrir samviskuna en nokkuð annað, og út kom dýrindis eplabrauð. Algjört sælgæti!
Annars hefur þessi vika verið full af matarboðum þannig að það tók því ekki að búa til matseðil fyrir vikuna. Nú styttist í að ég verði aftur að hinni venjulegu húsmóður í 8 tíma starfi á dag sem þarf svo að finna út hvað á að hafa í matinn eftir vinnu á hverjum degi, þá verður líklega meira um fulla matseðla fyrir alla vikuna. Ég hlakka mikið til.

Monday, February 2, 2009

Gómsætt kornabrauð

Ég var í tímaþröng um daginn og var að fara að hitta vinkonu mína og systur í kaffi heima hjá systur minni og langaði alveg rosalega að koma með eitthvað með kaffinu. Ég tímdi hins vegar ekki að kaupa handa okkur brauð og bakkelsi þar sem verð á því er komið upp úr öllu valdi, ég bara neita að kaupa brauð fyrir 400 kr þegar ég get vel bakað það sjálf! En ég hafði aðeins 2 klukkutíma og var þar að auki með 2 aukagrislinga í heimsókn(sem reyndar auðveldar stundum hlutina fyrir manni), hvað var til ráða? Ég fór í búðina og keypti þurrger og eina súkkulaðiplötu og treysti svo á það að eiga restina í skápnum heima, já það er eins gott að vera með gott ,,búr". Ég er ekki það reyndur bakari að ég geti bara skáldað eitthvað deig og vuola´ ooonei, matur er mitt thing ekki bakstur þar er ég frekar óörugg en einhvern veginn heppnast alltaf hjá mér, aldrei að vita nema amma sé eitthvað með puttana í þessu hjá manni svona bakvið tjöldin. En jæja áfram með söguna, ég fór sem sagt í uppáhalds uppskriftabók mömmu og okkar systranna en hún heitir Silver Palate(eftir 20 ár og fullt af uppskriftum hefur þessi bók ekki enn klikkað, ekki á einni uppskrift, snilld) en alltaf vantaði mig eitthvað í brauðin, þannig að ég tók til minna ráða tók eina uppskrift og bara fyllti í eyðurnar með einhvers konar hnetu-rúsínu-og fræjablöndu sem ég hef átt í skápnum hjá mér síðan ég var í nartstuði og vildi ekki fitna.... Þetta brauð varð algjört dúndur og það tók mig ca. 10 mín að blanda og svo var það klukkutíma í ofninum. Það sló í gegn í kaffiboðinu! Mér fannst hins vegar ekki nóg að vera bara með eitt brauð þannig að ég ákvað að henda í súkkulaði muffins, þá tók ég devils food cake uppskriftina mína sem ég setti hér inn um daginn og í staðinn fyrir nutellasúkkulaðiáleggið notaði ég 1 plötu(100 gr) af 70% súkkulaði og þar sem ég var í tímaþröng þá setti ég bara Betty Crocker súkkulaðikrem ofan á þær. Viti menn ég mætti í kaffiboðið ákkúrat á réttum tíma!!! Ég verð að segja að ég var asskoti hreykin af sjálfri mér. Ég ætla því að setja inn uppskriftina að brauðinu góða, athugið að snilldin við þetta brauð er að það er ekkert ger og það þarf engan tíma til að hefast.

Kornabrauð með rúsínum
1 brauð

400 ml blönduð korn með rúsínum, þessu er hægt að skipta út fyrir apríkósur og rúsínur og haframjöl eða alls konar fræ og hnetur
3 msk auk 100 ml sykur
65 ml grænmetisolía, hana á ég aldrei þannig að ég nota alltaf ólífuolíu
2 egg
450 ml hveiti
1 msk lyftiduft
135 ml mjólk
1/2 tsk salt

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið brauðform og dustið með hveiti
2. Setjið hnetublönduna í mortel og berjið létt, ég hafði ekki mikinn tíma þannig að þetta var barið mjög gróft hjá mér, og bætið 3 msk af sykri saman við. Ef þið notið bara apríkósur og rúsínur er gott að láta þær liggja í bleyti í sjóðandi heitu vatni í 10 mín og láta svo leka vel af þeim.
3.Setjið afganginn af sykrinum(100 ml) saman við olíuna og pískið vel. Bætið eggjunum saman við(ég gerði þetta í hrærivélinni), eitt í einu og hrærið þar til þetta hefur blandast vel saman.
4. Blandið þurrefnunum saman, hveitinu, lyftidufti og salti og bætið ásamt mjólkinni smátt og smátt saman við olíublönduna og blandið síðast hnetu og rúsínublöndunni saman við.
5. Setjið í bökunarformið og bakið í miðjum ofni þar til prjónn sem settur er í miðju brauðsins kemur út hreinn, ca 1 klst. Takið þá út úr ofninum og látið kólna örlítið í forminu á grind og takið svo úr forminu. Þetta er alveg ótrúlega gott að bera fram ennþá volgt með smjöri og osti.