Thursday, September 10, 2009
Bláberjapæ
Ég eignaðist lítinn dreng í fyrradag hraustan og fallegan. Þar sem það er nú yfirstaðið get ég loksins farið að gera meira í eldhúsinu.
Nú eru allir í berjamó eða nýbúnir að fara í berjamó og eiga líklegast fulla ísskápa og frysta af bláberjum. Ég persónulega er algjör bláberjastelpa og fæ ekki nóg af þeim í hvernig formi sem þau birtast mér. Mig hefur þó lengi dreymt um bláberjapæ þar sem ég er líka algjör pæjustelpa, ég bara elska þessa hörðu, flögulaga en samt örlítið mjúku áferð deigsins og hið hálfsæta bragð þess sem er svo bætt upp með sætri og unaðslega mjúkri fyllingu og ekki skemmir fyrir að hafa ís með svona til að toppa unaðinn.
Ég henti í deig fyrir þónokkru og átti ansi mikinn afgang og ákvað að prófa að setja það í frysti og þar hefur það legið síðan og beðið eftir að vera bakað. Mamma kom svo með bláber handa mér daginn áður en ég átti en þá hafði ég einnig tekið út úr frystinum einn part af deiginu. Í gær voru svo hvoru tveggja á síðasta snúning og hvað var annað hægt að gera en að henda í eins og eina pæju? Ég bara gat ekki horft upp á þetta eyðileggjast í ísskápnum. Ég ákvað þó að þessi yrði prufukaka og ég reyndi að láta mér standa á sama um útkomuna en eins og vanalega þá var það ómögulegt og gat ég ekki staðist freistinguna og smakkaði í gær og var hún hreint unaðsleg og eiginlega enn betri því hún var svo einföld. Meira að segja eiginmaðurinn sem er enginn berjakall fannst hún mjög góð. þetta verður því syndin mín næstu daga, tja kannski maður bjóði einhverjum gestum uppá smá flís, það er aldrei að vita.
En með tilbúna deiginu tók þetta u.þ.b. 5 mínútur að henda saman og svo 40-45 mínútur í ofninum. Enda ekki annað hægt þar sem maður er varla genginn saman eftir barnsburðinn.
Bláberjapæ
1 hringlaga smelluform(úr IKEA)
500 gr smjördeig(hægt að nota tilbúið annars fylgir uppskrift hér að neðan)
600 gr(má vera rúmlega)Fersk bláber
150-200 ml sykur(má sleppa eða minnka ef þið viljið ekki mjög sæta pæju)
6 grahams hafrakex, mulin, ekki of fínt
Aðferð:
1. Fletjið deigið út þannig að þykktin sé tæplega sentimeter að þykkt, notið hveiti til að hjálpa til, þannig að það festist ekki við borðið og snúið deiginu oft við.
2. Smyrjið formið með smjöri og dreifið hveiti í þannig að hylji vel og dustið svo aukahveiti úr forminu. Hitið ofninn í 200°C.
3. Fellið deigið í formið, lagið göt ef einhver myndast. Dreifið kexmylsnunni í botninn og hellið svo bláberjunum yfir og síðast er sykrinum stráð yfir og blandað berjunum, svo er deigið sem liggur fyrir ofan berin fellt yfir þau og smurt með blöndu af eggi og vatni.
4. Bakað við 200°C í 40-45 mínútur, gott er að setja álpappír yfir eftir 25 mínútur og taka hann svo af þegar 5 mínútur eru eftir af bökunartíma.
Smjördeig eða mördeig(á dönsku)
Þessi uppskrift er í stærra lagi og gæti dugað í fleiri en eina pæju
250 gr flórsykur (1)
330 gr smjör(1)
660 gr hveiti(2)
3 egg(3)
Aðferð:
1. Hrærið öllu saman í hrærivél í númeraröðinni og passið að það verði ekki of heitt og takið svo úr hrærivélinni og hnoðið í höndunum til að koma því saman. Pakkið í plastfilmu og kælið í a.m.k.30 mínútur áður en það er rúllað út.
Ég persónulega bjó til miklu meira deig og mæli með því, því er svo skipt niður í 500 gr hvert og fryst, þá á maður alltaf til pæjudeig í frystinum, sem er afþýtt á einum degi inni í ísskáp.
Uppskriftin sem ég gerði er í þessum stærðum:
750 gr flórsykur
1000 gr smjör
2000 gr hveiti
10 egg
Sama aðferð og hér fyrir ofan.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Hjartanlegar hamingjuóskir með drenginn. Allt það besta til ykkar.
Anna Katrín.
p.s. alltaf jafn gaman að kíkja við og fá hugmyndir hér.
Kærar þakkir:) Gaman að heyra
Post a Comment