Thursday, September 24, 2009

Gulrótarkaka




Þetta er án efa besta gulrótarkaka sem ég hef smakkað, hún er svo safarík og mjúk og yndisleg eitthvað, enda er hún frá mömmu sem er að sjálfsögðu besti kokkur í heimi.
Ég helmingaði þessa uppskrift í þetta skiptið og setti í lítið hringform og svo afganginn í muffins form og það kom bara rosalega vel út.
Ég er þessa dagana meira fyrir að baka en að elda mat þannig að ég hendi í köku og eiginmaðurinn sér okkur fyrir næringu á kvöldin og er bara búinn að standa sig með prýði.
En hér er uppskriftin af bestu gulrótarköku í heimi

Gulrótarkaka

400 ml hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 tsk matarsódi
1,5 tsk salt
2.5 tsk kanill
400 ml sykur
300 ml matarolía
4 egg
600 ml rifnar gulrætur(ég ríf þær gróft)
1 stór appelsína skorin í litla bita
100 ml saxaðar valhnetur
200 ml kókosmjöl

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið eitt hringsmelluform, gott að setja smjörpappír í botninn.
2. Hrærið saman sykri,eggjum,hveiti,lyftidufti,matarsóda,salti,kanil og matarolíu
3. Bætið svo við gulrótum,appelsínu,valhnetum og kókosmjöli
4. Hellið í formið og bakið í 1.5 klst. Látið kólna alveg áður en kremið er sett á.

Krem
100 ml smjör, mjúkt og við stofuhita (um 90 gr)
200 ml rjómaostur( um 190 gr)
4-5 msk flórsykur
smá vanilludropar

Aðferð:
1. Hrærið saman smjöri,rjómaosti,flórsykri og vanillu og smyrjið á kökuna.
Best finnst mér að hræra þetta með handþeytara og hræra fyrst smjörið til að ná kekkjum úr og bæta svo rjómaosti og síðast flórsykri og vanillu.
Aths. ef þið viljið hafa þetta í muffins formi þá er best að hafa það í sílíkonformum en þá karamellast kökurnar yst og verða mjög mjúkar og safaríkar. Ég hef ekki prófað í bréfformum þar sem mér finnast þau vera of lítil en núna síðast notaði ég álform úr IKEA sem virkuðu mjög vel en mér fannst kökurnar þurrkast örlítið að utan við það, sem kemur svo sem ekki að sök en bestar koma þær úr sílíkonformum. Tíminn sem kökurnar eru inni þegar þær eru í muffins formi er mjög stuttur og fer eftir formunum og myndi ég tékka á þeim eftir 10 mín með því að stinga prjóni í þær og fikra mig svo áfram eftir það. Ég hafði þessar í 15 mínútur og þær í sílíkonforminu(þau form eru minni) voru þær í 10 mínútur.

Aths.
Það hefur gerst núna nokkrum sinnum hjá mér að kremið skilur sig og hef ég reddað kökunni með því að smyrja skilda kreminu(bragðið er eins nefnilega)skera súkkulaði með ostaskerara yfir kökuna og setja kókosflögur á hliðarnar.

7 comments:

Anonymous said...

bara ad segja thér ad thessi sló í gegn hérna á heimilinu...rosa gód

harpa

cockurinn said...

Frábært! gaman að heyra;)

Eva Ingimarsd. said...

Mmmmmmmmmmmm, ætla sko að prófa þessa!! Frábær síða hjá þér Sigurrós!;)

Sigurrós Pálsdóttir matreiðslumaður á Vox said...

Takk fyrir það;)

Anonymous said...

Er uppskriftin sett í tvö form?
Er bökunartíminn 1 og hálf klst.???

Halldór said...

Veit ekki hvort þú skoðar þetta en ef að kremið skilur sig þá þarf bara að setja það í örbylgju á lágan hita, þá er ekkert mál að hræra því upp og ná því aftur saman.

Anonymous said...

Það er ekki skrítið að kremið skilji sig miðað við þessa uppskrift. 4 - 5 msk af flórsykri hljóta að eiga að vera 400 - 500 gr af flórsykri. Þá ætti kremið að verða fínt