Það hefur lítið verið um nýjar uppskriftir á þennan vef vegna mikilla anna, ekki það að ég sé ekki að elda fyrir fjölskylduna á hverju kvöldi, eða sona næstum því heldur er það frekar að ekki hafi gefist tími til að setja þær allar inn.
Þar sem ég bý ekki á Íslandi þessa stundina þá er ég ekki svo heppin að geta gengið út í búð og keypt mér rúgbrauð. Ég fékk síðan tilboð frá veitingastað hér í Mílanó um að sjá um íslenskan kvöldverð á kynningu sem er á vegum ferðaskrifstofu hér í borg. Ég þáði það en svo kom babb í bátinn, allt sem er íslenskt fæst bara á Íslandi, eða hvað? Ég fór því á stúfana á netinu og fann rúgbrauðsuppskrift sem ég svo prófaði að gera. Þessi uppskrift tók mig bókstaflega engan tíma að undirbúa en hins vegar á það að vera inni í ofni í 12-13 tíma, en ég tók hins vegar lítið eftir því því að ég setti brauðið inn rétt eftir kvöldmatinn og það var svo inni yfir nóttina og kom rjúkandi heitt og unaðslegt úr ofninum tilbúið í morgunverðinn.
Ég vil taka það fram að þessi uppskrift kemur ekki frá mér beint en ég hins vegar skoðaði þær svo margar á netinu að ég man ekki hvaðan þessi kemur, ég bara varð að setja þetta hérna inn fyrir ykkur vinkonur mínar sem eru búsettar erlendis eins og ég. Við toppuðum svo alveg reynsluna með því að fara í IKEA og kaupa síld...
Uppskriftin er svohljóðandi:
Rúgbrauð
6 bollar rúgmjöl(enska: rye, ítalska: farina di segale, fæst í náttúruverslunum)
6 bollar heilhveiti/hveiti/gróft spelt
7 bollar sojamjólk/AB-mjólk/súrmjólk
5 tsk natron(baking powder, fæst í ethnic búðunum)
3 tsk salt
500 g algave sýróp/maple sýróp
AÐFERÐ:
Fyrst er þurrefnunum blandað saman og þá er blautu efnunum bætt saman við, hrært vel. Sett í mjólkurfernur, eða kalkúnapott(fylltar aðeins til hálfs eða 3/4) og sett í ofn við 100°C-120°C í 12-12 tíma.
ATHS: Þar sem það fæst ekki hér á Ítalíu hvorki súrmjólk né AB-mjólk notaði ég sojamjólkina og ég fann engan mun, ég notaði einnig heilhveiti sem var mjög gott og ég notaði maple sýróp þar sem annað sýróp er ekki til hér í Mílanó. Ég helmingaði uppskriftina og fékk 2 brauð úr því. Annars er alltaf hægt að frysta..
Ofninn minn er ekki alveg það besta á markaðnum og hafði ég hann á 100°C en brauðin voru ekki tilbúin eftir 13 tíma þannig að ég mæli með að fyrsta skipti sem þetta er prófað að hafa ofninn í 120°C, nema um sé að ræða flotta, nýja ofna.
Njótið vel.
Sunday, June 8, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment