Jæja þá er aspasinn loksins búinn og ég ákvað að gera eitthvað annað með fiskinum en bara venjulegar kartöflur. Þetta sló algerlega í gegn hjá fjölskyldunni og þá er sérstaklega skemmtilegt að segja frá því að Heklu matvöndu fannst þetta mjög gott. Þessi uppskrift verður skrifuð í millilítrum og endilega látið mig vita hvort ykkur þykir þægilegra, millilítrar eða grömm.
Gulrótar og kartöflupönnukökur
350 ml gulrætur, gróft rifnar
100 ml kartöflur, gróft rifnar
200 ml laukur, skorinn í þunnar sneiðar
1 stórt egg
1/2 tsk salt
1/4 tsk pipar
50 ml hveiti
1. Blandið saman gulrótum, kartöflum og lauk og bætið svo restinni saman við. Hrærið vel í.
2. Setjið bökunar pappír á bökunarplötu.
3. Hitið 1 1/2 msk olíu í stórri pönnu og hafið á meðalhita. Takið með sleif góða slettu af gulrótarmaukinu og setjið á pönnuna og fletjið létt í hring, það ættu að komast um 4 pönnukökur í hvert skipti. Eldið í ca.4 mínútur á hverri hlið. Færið pönnukökurnar á bökunarpappír og geymið þar til á að bera þær fram. Rétt áður en þetta er borið fram er þetta sett inní ofn á 180°C í ca 2 mínútur til að hita upp aftur.
Steiktur fiskur
Ég geri reyndar ráð fyrir að flestir kunni að steikja fisk en hér er mín útgáfa.
200-250 gr fiskur á mann(fer eftir græðgi í fisk á heimilinu)
100 ml hveiti
1 egg
200 ml brauðrasp/eða skrítna appelsínugula raspið
smjörklípa og olíusletta
1.Fiskurinn er skorinn í skammta
2. Takið fram 3 diska og raðið í röð við hliðina á steikarpönnunni. Í þann sem er næstur pönnunni er sett raspið, þann við hliðina er sett eggið(saltað og piprað mjög vel) og í þann síðasta er hveitið sett.
3. Smjörið og olían hituð á pönnunni og á meðan er fisknum velt upp úr hveitinu. Þegar pannan er orðin heit er hveitið dustað létt af fisknum honum dýft í eggið og velt þar upp úr með gaffli og svo í raspið og á pönnuna, og þannig koll af kolli.
Ef þið eruð með stóra fjölskyldu og litla pönnu er hægt að setja fiskinn sem er steiktur á bökunarpappír og hitaður upp í ofni rétt áður en hann er borinn fram.
Tatziki
200 gr grísk jógúrt eða sýrður rjómi(18%)
1/2 hvítlauksrif
1/2 gúrka, skræld og kjarninn skafinn úr með skeið
salt og pipar
1. Sýrði rjóminn er settur í skál hvítlauksrifið kramið útí, þá er gúrkan rifinn útí, saltað og piprað.
Þegar á að bera fram þá er fiskurinn og pönnukökurnar settar inn í ofn, lagt á borðið og já þið vitið restina....
aths. Hægt er að setja ýmislegt í staðinn fyrir kartöflurnar og gulræturnar eins og til dæmis rauðbeður, gulrófur, steinseljurót, sellerírót o.s.frv.
No comments:
Post a Comment