Tuesday, December 30, 2008

SúkkulaðiBrullé

Þessa uppskrift fékk ég í Danmörku og hún er mjög rík eða það er mikið og gott súkkulaðibragð, sem þýðir að það má ekki vera í stórum skálum. Ég hef sett þetta í skotglös sem hefur hentað mjög vel. Til að gera hið fullkomna brullé þarf að hafa gasbrennara og ljósbrúnan cane sykur þá eruð þið pottþétt með þetta.

Súkkulaðibrullé
f/6 manns

500 ml rjómi(ekki matreiðslu)
135 gr dökkt súkkulaði(70%), fínt hakkað
1 vanillustöng(má setja 1 tsk vanilludropa)
6 eggjarauður

Aðferð:
1. Hitið rjómann í potti og takið hann svo af hitanum. Bætið hakkaða súkkulaðinu saman við ásamt vanillunni( skafið innan úr vanillustönginni).
2. Kælið blönduna örlítið og hrærið svo eggjunum varlega saman við. Passið að píska ekki of mikið því þá geta komið of mikið af loftbólum sem erfitt er að losna við.
3. Látið blönduna standa augnablik og skúmmið froðuna af yfirborðinu(ef þörf er á því)
4. Setjið í form eða skotglösin og bakið í ofni við 100°C í 20-25 mín. Gott er að setja rennblauta tusku í botninn á ofnskúffunni til að halda raka í ofninum.
5. Þegar þetta er tilbúið er gott að taka eitt skotglas og hrista það örlítið og ef vökvinn gárast mikið er þetta ekki tilbúið en ef hann rétt hristist eins og Royal búðingur er brullé-ið tilbúið og þá er það sett í ísskáp í 2-3 klst til að kæla alveg niður.
6. Rétt áður en það er borið fram er sykrinum stráð jafnt yfir yfirborðið á búðingnum og svo er hann brenndur með gasbrennaranum og borið fram.

Matardagskrá farin út um þúfur í bili,

Það var nú kannski við því að búast svona yfir jólin að það færi öll rútína úr skorðum en það á eftir að fara enn meira úr skorðum næstu mánuði því að ég er komin í vaktavinnu á ný. Það þýðir að það koma líklegast inn uppskriftir á nokkurra daga fresti. Ég mun þó ekki gefast upp á þessu skipulagi að búa til matseðil fyrir vikuna, heldur mun Sverrir verða að bretta upp ermarnar og elda almennilegan mat fyrir sig og Heklu, það þýðir ekki að vera alltaf í mat hjá mömmu þó að eiginkonan sé í vinnu. Þannig hef ég fengið nýtt verkefni, að búa til matseðil með réttum sem hann getur klórað sig fram úr.
Við eins og aðrir eyddum jólunum í kjötáti og hefur maginn fengið ærlega að kenna á því en ég hef lofað sjálfri mér því að hafa meiri fisk á næstu mánuðum, ekkert múður meir með það! Mig langar t.d. alveg svakalega í fisk í kvöld, ætli maður skelli sér ekki á einn slíkan, það ætti að vera ferskur fiskur í öllum fiskibúðum í dag, mmm hlakka til.
Mig langaði reyndar að setja hér inn að á aðfangadag var ég með súkkulaðibrulleé í eftirrétt(þeir voru þrír eftirréttirnir) og hafði ég það í skotglasi, sem er mjög sniðugt því að heil skál af því er eiginlega of mikið af því góða en ég læt hana hér inn, hún er ansi góð í eftirrétt á gamlárs fyrir þá sem enn eiga eftir að ákveða hvað á að hafa þá.

Tuesday, December 23, 2008

Lakkrís parfait

Hér kemur ein flókin fyrir hina huguðu. Ég er með þetta í eftirrétt á morgun ásamt súkkulaði brullé og Tobleróne ís fyrir krakkana, sem ég reyndar veit að fullorðnir eiga eftir að gæða sér á einnig þannig að ég gerði tvöfalda uppskrift af því.
Ég lærði hins vegar parfait-ið á Krogs fiskerestaurant og ég féll algerlega fyrir því en hingað til hef ég ekki fengið lakkrísduft til að búa það til en fann svo smá í vinnunni hjá mér, en fyrir þá sem hafa ekki tök á að fá lakkrísduft(gæti verið til í Danmörku:/) þá er þetta alveg rosalega gott án þess og svo er einnig hægt að skipta út hvíta súkkulaðinu og setja dökkt súkkulaði í staðinn.
Það er að nokkru að huga í þessari uppskrift og er erfiðleikastigið aðeins hærra en venjulega á þessari síðu og svo er þetta einnig dýrara þar sem hvítt súkkulaði er svívirðilega dýrt en eins og ég segi er hægt að nota 70% súkkulaði í staðinn, sem gerir þetta ódýrara.

Lakkrís parfait
f/ 6 manns

2 dl rjómi
1/2 dl rjómi
(8 gr lakkrísduft)
250 gr hvítt súkkulaði(eða 70% dökkt), hakkað fínt
2 eggjarauður

3 eggjarauður
1 egg
75 gr sykur
50 gr vatn

Aðferð:
1. Stífþeytið 2 dl rjóma og setjið inn í ísskáp
2. Sjóðið 1/2 dl af rjóma og þegar hann er heitur er lakkrísduftið bráðið saman við, þegar það hefur blandast vel saman við er súkkulaðinu bætt út í og bráðið, það lítur út fyrir að hafa skilið þegar það hefur bráðnað saman við en þá er eggjarauðunum bætt saman við og þetta er pískað saman þar til það glansar fallega. Passið að þessi blanda má ekki kólna alveg og er því gott að halda því volgu með því að hafa þetta í stálskál og hafa ofan á potti með næstum sjóðandi vatni. passa samt að það hitni ekki of mikið þannig að maður þarf að hræra af og til í og setja ofan á pottinn og taka af eftir hentugleika.
3. Setjið sykurinn og vatnið í pott og sjóðið þar til hitamælir segir 125°C. Á meðan eru eggjarauðurnar og heila eggið pískað vel saman. Þegar sykursýrópið hefur náð réttu hitastigi er það pískað saman við eggjamassan og passið að gera það mjög hægt eða hella sykrinum í hægri mjórri bunu á meðan pískurinn gengur á hæsta.
Pískið þar til blandan er köld og þykk.
4. Þegar hann er kaldur og þykkur er hann blandaður saman við súkkulaðiblönduna, fyrst einn þriðji og svo er restinni blandað saman við.
5. Síðast er svo þeytta rjómanum blandað saman við.
6. Allt er svo sett í form og inn í frysti í a.m.k. 5 klst.

Sunday, December 21, 2008

Steiktur kjúklingur með stökkri sinnepshúð, grænmeti og hrísgrjónum

Nú sem aldrei fyrr er ærin ástæða til að halda sig hófsömum og ekki fara út fyrir innkaupalistann og elda sem oftast heima í staðinn fyrir skyndibitamat, sem er orðinn skuggalega dýr.
Eins og sést hefur hér á síðunni þá er mikið að gera hjá okkur eins og hjá ykkur býst ég við og ekki alltaf tími fyrir þessa blessuðu heimaeldamennsku og þráum við að maturinn gæti bara hoppað sjálfur í pottana og kryddað sig sjálfur, bara ef lífið væri svo ljúft.
Ég byrjaði þessa viku fremur brösulega, komst ekki í búðina fyrr en á fimmtudegi og hafði þá úr litlu að moða dagana þar á undan en rembdist þó við að gera eitthvað ljúffengt úr því sem til var í skápunum, og viti menn það kom þessi snilldarréttur, ég mæli með því að prófa hann.
Húðin verður frábærlega stökk og bragðgóð við þessa aðferð, ég reyndar hafði grjón með því að ég átti ekki kartöflur en það getur vel verið að kartöflurnar séu jafnvel betri þó svo að grjónin hafi verið ljómandi góð með.

Steiktur kjúklingur með stökkri sinnepshúð, grænmeti og hrísgrjón

1 kjúklingur, ég átti bara heilan og skar hann í bita, annars er mjög fínt að vera með kjúklingabita
1/2 paprika, skorin í sneiðar
1 laukur, skorinn í sneiðar
1 msk engifer, saxað mjög smátt
1/2-1 chillialdin(fer eftir hversu sterkt þið viljið hafa þetta), saxað smátt
3 hvítlauksrif, kramin eða söxuð smátt
smá smjörklípa og olíudreytill
1 msk balsamico edik
hveiti
salt og pipar
djion sinnep
ég sletti síðustu dropunum úr hvítvínsbeljunni minni(sem ég keypti til matargerðar í september) en því má alveg sleppa

Aðferð:
1. Skerið grænmetið og steikið á pönnu með smá olíu(má sleppa ef notuð er teflonpanna), við meðalháan hita, þar til það hefur mýkst vel, þá er edikinu hellt yfir og látið sjóða alveg niður.
2. Á meðan grænmetið er á pönnunni er kjúklingurinn skorinn í læri, bringu, vængi og hveiti er sett í skál eða plastpoka og kjúklingnum er velt upp úr því. Panna er hituð með smjörklípu og olíu og mesta hveitið er dustað af hverjum kjúklingabita og hann settur í heita pönnuna. Leyfið að liggja á hvorri hlið í nokkrar mínútur eða þar til hann er orðinn fallega gullinbrúnn á hvorri hlið.
3. Þá ætti grænmetið að vera orðið fallega meyrt og fínt. Þá er ofninn hitaður í 200°C. Setjið grænmetið í botninn á ofnföstu fati og kjúklingabitana þar ofan á. Saltið og piprið yfir allt saman og smyrjið því næst þunnu lagi af sinnepi á hvern kjúklingabita og setjið inn í ofn í u.þ.b. 20-30 mín., ef þið notið hvítvín er því hellt yfir rétt áður en allt er sett inn í ofn og hellið því þá í kringum kjúklingabitana ekki yfir. (það er mjög gott að hella pönnurestunum yfir kjúklinginn)
4. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum eru grjónin sett yfir og salatið gert klárt(ef það er haft með, ég er vön því að hafa ferskt salat með öllum mat).

Þetta tók mig ca. 50 mín. að gera og það er með öllu uppvaski þar sem ég bý ekki svo vel að hafa uppþvottavél, ég hef beðið jólasveininn margsinnis um eina slíka en svo virðist sem hann bara heyri ekki í mér, merkilegt nok!

Daginn eftir fór maðurinn minn í búðina, tók ekki með sér innkaupalista og eyddi að sjálfsögðu allt of miklu, en látum það nú liggja á milli hluta. Hann var þó mjög sniðugur í þeirri ferð því hann keypti salsasósu, sýrðan rjóma og tortillur(frá Bónus, mjög ódýrar) og þar var kvöldmaturinn kominn. Afgangarnir af kjúklingnum, grænmetinu og grjónunum var hent á pönnu með smá salsa, tortillurnar hitaðar og allt sett inní, rúllað upp e vuola! kvöldmaturinn tilbúinn. Þetta tók manninn minn ca. 10 mínútur að laga lesendur góðir og tja ég verð nú bara að segja að fyrir mig var þetta bókstaflega eins og maturinn hefði bara hoppað ofan í pottana og kryddað sig sjálfur!

Tuesday, December 16, 2008

jólajóla...stress...

Það er byrjað...jólastressið.
Mér finnst ég þurfa að gera hundrað þúsund hluti og það fyndna við þetta allt saman er að ég er ekki að gera neitt af því!
Ég þarf nú reyndar að finna eftirrétt fyrir aðfangadag, það eru komnar nokkrar hugmyndir og það er svona að greiðast úr þeim hægt og bítandi.
Það er nú lítið um heilstæðan matseðil þessa dagana þar sem maður er á þönum hingað og þangað og ekki einu sinni heima hjá sér í kvöldmat. En í kvöld var þó hent í kartöflusalatið góða og með því var síld og rúgbrauð og köld lifrarpylsa fyrir snúlluna. Henni fannst það alveg æðislegur matur, kartöflusalat og lifrarpylsa, ekki slæmt það.
Maður kannski hendir í sítrónukjúkling vol. III á morgun þó það sé erfitt að ákveða svona fyrirfram þessa dagana en það er planið og plan er góð byrjun.
Ég þyrfti að finna eitthvað gott til að búa til úr rófum, það varð nefnilega smá misskilningur á milli mín og mannins míns sem gerði það að verkum að ég á núna 3 risastórar rófur inni í ísskáp. Ég hef nú aldrei verið neitt sérstaklega fyrir þær en það er aldrei að vita nema maður detti niður á eitthvað sniðugt úr því.

Wednesday, December 10, 2008

Matseðill fyrir vikuna 10.des-

Desember er nú meiri mánuðurinn, það er ekki stundarfriður. Ekki það að það sé eitthvað slæmt, þetta minnkar matarinnkaupin verulega en kannski hækkar á hinn bóginn gjafakaupsreikninginn. Það er bara svo gaman að gefa. Desember er fullur af afmælum í báðum fjölskyldum okkar hjónanna, þetta þýðir að matseðillinn fer úr skorðum og allt fer í bölvað rugl, en hver slær þó hendinni gegn gómsætum afmælismat? Ég er nú svo lykkelig að koma úr fjölskyldu sem er mjög fær í eldhúsinu og það sama má segja um fjölskyldu eiginmannsins þannig að við höfum legið í vellystingum síðustu vikurnar og ekki verður neitt lát á næstu vikurnar. Við vorum því í gær í afmæli tengdamóður minnar og förum svo í afmæli systur minnar á föstudaginn og svo er vinna á laugardaginn og á sunnudaginn er okkur boðið í jólahlaðborð, já lífið er svo sannarlega ljúft.
En maður þarf víst að borða í dag og á morgun. En það verður ekki stuðst við flóknar uppskriftir í þessari viku því í kvöld vorum við með snarl eins og móðir mín kallar það. Þá er það síld og rúgbrauð og svo kartöflusalat með. Uppskriftin af því er hér á síðunni. Á morgun verður svo slátur með rófustöppu, ég ætla að fara gegn því sem maðurinn minn vill og hafa kartöflustöppu með líka, mér finnst það nauðsynlegt, honum hins vegar finnst nóg að hafa rófustöppuna. Maður kannski prófar að gera eins og Skotarnir og hella viskíi inn í lifrarpilsupokann rétt eftir að hann er opnaður, vera soldið villtur....

Wednesday, December 3, 2008

Sítrónukjúklingur vol.II

Jæja sjáum nú hvernig þessi gekk. Sverrir gleymdi að taka kjúklinginn úr ísskápnum eftir að hafa verið í frosti þannig að það var pastasalat í gær en í kvöld verður sítrónukjúklingurinn og uppskriftin er svona:

Sítrónukjúklingur vol.II

1 kjúklingur
2 sítrónur, safi og börkur rifinn
4 hvítlauksrif
1 msk salt
50 ml ólífuolía, extra virgin
1 msk rósmarín(ég átti bara þurrkað í þetta skiptið)
100 ml vatn

Aðferð:
1. Allt nema kjúklingurinn er hrært vel saman í skál og hellt yfir kjúklinginn.
2. Eldað í 200°C heitum ofni í klukkustund.

Borið fram með hrísgrjónum og salati

Aths. Ég ætlaði að setja kjúklingakraf með líka en gleymdi því þannig að þið megið búast við sítrónukjúkling vol.III. En spennandi....

Monday, December 1, 2008

Matseðill fyrir vikuna 02.- 04.nóv.2008

Ég hef nú sett inn þónokkrar myndir með réttum hér á síðunni og ég vona að einhvern daginn fái ég myndavél sem er betri en sú sem ég hef nú því að þessar myndir eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, en þær eru þó myndir. Ég mun setja inn uppskriftir af réttum úr afmælinu svona af og til á næstu dögum, eftir því sem tími vinnst til þessa.
Matseðillinn þessa vikuna verður einfaldir réttir og ekki tímafrekir, þar sem ég er komin í mikla vinnu um helgar ásamt því að vinna á daginn þannig að þreytan mun segja aðeins til sín. Engin afsökun þó þar sem ég veit að venjulegir foreldrar gera það sama, aldrei tími fyrir eldamennsku. Ég verð hins vegar að vinna á kvöldin frá föstudegi til sunnudags þannig að þá verður eiginmaðurinn og dóttirin í mat hjá tengdó, ef ekki þá læt ég hann segja mér hvað hann bjó til og ég set það inná síðuna.

Matseðill vikunnar 02-04. nóv

Þriðjudagur

Sítrónukjúklingur vol.II
Best að reyna aftur og athuga hvort ég detti niður á góða uppskrift

Miðvikudagur

Slátur
Fyrst maður var nú að taka slátur er þá ekki best að borða það líka?

Fimmudagur

Pastasalat
Önnur tilraun við pastasalatið en það er uppskrift af því hér á síðunni, nema maður breyti eitthvað til... aldrei að vita nema maður verði ævintýragjarn á fimmtudaginn.

Sunday, November 30, 2008

Barnaafmæli - Barbiekaka


Þá kom svo að barnaafmælinu. Bekkjarafmælið var haldið á föstudeginum og ekki var neitt verið að flækja það því var boðið upp á pulsur og barbieköku. Ég verð nú að segja stolt frá því að ég var búin í vinnunni klukkan 15:00 og átti að mæta aftur í vinnuna klukkan 18:00, þannig að það var ekki mikill tími til stefnu til að búa til kökuna en ég ákvað að reyna við þetta. Ég verð þó að viðurkenna hér og nú að það var notuð Betty Crocker, ég geri mér grein fyrir því að það er ekkert kreppulegt né húsmóðurlegt við það en þegar maður hefur svona lítinn tíma kemur bara ekkert annað til greina. En jæja ég henti í kökuna og bakaði nokkur form og svo byrjaði púsluspilið, ein ofan á aðra, skera út og svo glassúrinn, velja litina og nammið sem átti að fara á kökuna(úps var að muna eftir silfurkúlunum sem ég keypti, þær gleymdust en hvað um það, lítið við því að gera núna) það voru gúmmíbangsar og lakkrís og svo þessi líka fína barbiedúkka. Allt gekk rosalega vel þar til kom að lokapunktinum, að setja konuna í kökuna, þá vandaðist málið, því að konan var með mjög svo óeðlilega langa leggi, aldrei tekið eftir því, þá voru góð ráð dýr. Ég hugsaði með mér að það hlyti nú að vera hægt að taka þessar lengjur af blessaðri konunni án þess að eyðileggja og jú mig minnti að það hefði verið hægt þegar ég var lítil, var ég ekki alltaf að taka þetta af og setja aftur á? hmm jú ég held það nú bara þannig að af með leggina. Æ og úps þetta var víst ekki alveg hægt svona eins og í gamla daga, aumingja konan orðin leggjalaus og barnið grátandi inni í herbergi og bekkjarfélagarnir að banka á dyrnar. Það er víst ekki alveg aðstaðan sem maður vill vera í svona á þessum tíma. En málunum var reddað þegar leggjalausa konan var komin ofan í kökuna eins og besti strippari og stinn brjóstin gnæfðu yfir fallega bleiku kökuna þá sá dóttir mín ekkert annað en alveg frábæra barbie í alveg rosalega flottum kjól sem var svo bara alveg æðislega góð kaka. En hvað ég er heppin að hún er bara 6 ára.

Barbiekaka
2 pakkar Betty crocker devils food cake
1 1/2 dolla Betty crocker chocolate fudge frosting
200 gr flórsykur
vatn
matarlitur
lakkrís
gúmmíbangsar
decorating gel

Aðferð:
1. Bakið 4 kökur helst í mismunandi stærðum í litlum hringlaga smelluformum.
2. Kælið kökurnar og setjið stærstu á botninn á kökudisk og smyrjið með frosting skerið svo út minni hring(eða notið minna hringform) og leggjið ofan á og svo koll af kolli.
3. Smyrjið kökuna svo með frosting að utan og blandið svo vatni og flórsykri saman og athugið að setja smá vatn í einu og hræra því það þarf afskaplega lítið vatn. skiptið í tvennt eða þrennt eftir því hvað þið viljið hafa pilsið í mörgum litum og setjið mismikið af matarlit í hverja skál. Skreytið svo kökuna að vild
4. Gott er að notast við decorating gel til að skerpa línu eða gera skemmtilegt skraut í pilsið.
5. Skreytið svo enn frekar með gúmmíböngsum og lakkrís.

Aths. Ef ég gat þetta á einum og hálfum tíma þá getur hvaða hálfviti sem er gert það líka!!!

Baguette samlokur með skinku, osti og rauðlaukssultu

Það hefur nú ansi mikið gengið á þessa vikuna. Ég ákvað að kaupa loksins fisk þar sem ég var með þetta gómsæta eplamauk og fékk æðislega rauðsprettu á spottprís aðeins 899 kg í Nóatúni en þegar heim var komið var eiginmaðurinn kominn með gubbupestina eins og allir aðrir fjölskyldumeðlimir, þannig að þá var bara hringt í foreldrana og fisknum og eplamaukinu hent í þá. Þau elduðu þetta og slefuðu yfir. Ég verð bara að gera þetta aftur seinna en í staðinn þá gerði ég samlokur handa mér og Heklu sem voru bara ansi góðar. Það var nú svo sem engin snilld sem var í gangi þarna bara redding fyrir kvöldið.
Í þetta fór
2 baguette brauð, (þessi frosnu úr Bónus)
majónes
dijon sinnep
rauðlaukssulta
ostur
skinka

Brauðin hituð og svo smurð með majónesi og sinnepi, þá er skinka og ostur sett á og sett undir grillið í nokkrar mínútur þar til osturinn bráðnar.

Alveg hreint bráðgóðar samlokur

Tuesday, November 25, 2008

Matseðill fyrir vikuna 26.nóv.-30. nóv.

Ég verð að segja að þessi vika verður vægast sagt einkennileg fyrir þessa síðu. Það er nefnilega barnaafmæli í uppsiglingu og svo er jólahlaðborðið byrjað hjá okkur á Vox(sem er að sjálfsögðu besta jólahlaðborðið) og það þýðir vinna allar helgar og ég býst við að pabbinn verði þá í mat hjá tengdó ef ég þekki hann rétt. Ég er nú samt að spá í að reyna að koma inn uppskriftum af réttunum sem ég mun hafa í afmælinu næsta sunnudag. Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir að hafa þema í veislunum mínum en kannski er ég að eldast því ég fékk allt í einu þá flugu í höfuðið að hafa eitthvað þema. Ég komst þá að því að það að hafa þema gerir alla undirbúningsvinnu miklu auðveldari og niðurnjörvaðari en ella ,sem að sjálfsögðu þýðir þá einnig líklegast ódýrari eða kannski útsjónarsamari. Þema-ið þetta árið verður ,,sjöundi og áttundi áratugurinn". Farið í gegnum rétti sem þið munið eftir að amma ykkar gerði hér í den og þá hafið þið hugmynd um hvað verður í boði. Spennandi ekki satt???
Nú hef ég farið í gegnum eldgamlar uppskriftabækur frá ömmu en á eftir að komast yfir uppskriftabók frá hinni ömmunni, henni Gógó sem var einmitt hinn mesti snillingur þegar kom að bakstri og þá sérstaklega pönnsurnar, án efa þær bestu í bænum og mitt uppáhald voru alltaf mömmukökurnar, held reyndar að ég hafi verið ein af fáum en hvað um það þær voru bestar.

Þannig að matseðillinn verður stuttur í þetta skiptið en þó eitthvað.

Matseðill vikunnar 26.nóv - 30. nóv

Miðvikudagur

Rauðspretta með (trufflu) kartöflumús og eplamauki. Maðurinn minn á örugglega eftir að borða rauðlaukssultuna með þessum rétti sem gengur líka en hann er ekki mikill eplamaður

Fimmtudagur

Pastasalat

Ég hef áður sett inn þetta salat. Ég verð líka eins og aðrir að hafa sama réttinn tvisvar, ekki satt..
Ég býst líka við að ég verði sveitt yfir einhverjum af réttunum fyrir afmælið, best að byrja snemma þar sem föstudagurinn og laugardagurinn fara í vinnu.

Föstudagur og laugardagur

vinna

Sunnudagur

Afmæli!!

Rauðlaukssulta

Það er nú meira sem maður hefur vanrækt þessa síðu síðustu daga. Ég skellti mér nefnilega upp í sumarbústað um helgina en það þýddi þó ekki að maður væri laus úr eldhúsinu, öðru nær, en þó algerlega mér að kenna. Við eyddum meirihluta seinni partsins á laugardeginum í eldamennsku og svo eyddum við kvöldinu í át og spil og spjall fram á nótt, hvílíkt dekur á manni.

Ég verð nú samt að reyna að setja saman uppskrift af alveg frábærri rauðlaukssultu sem ég hafði með grilluðu lambalæri og lamba ,,jus" en það er soð sem hefur verið soðið niður þar til það þykknar. Þar svindlaði ég aðeins svona með tilliti til heimilisfólksins og notaðist við alvöru soð og þess vegna er ég ekkert að setja inn þá uppskrift en lambið var mjög klassískt og ekkert flókið við það. hvítlauk stungið í litlar holur í það og saltað mjög mikið og piprað og svo fullt af rósmaríni dreift yfir. Þá var því pakkað í álpappír og hent á grillið...
Daginn eftir var maður dálítið ryðgaður en þá var tilvalið að henda í lambakjötssamlokur í kvöldmatinn. Þá smurði ég baguette(sem ég kaupi frosið) með smá majónesi og steikti skinkusneiðar með osti ofan á setti það á brauðið létt steikti niðurskorna afgangana af kjötinu og setti á brauðið ásamt rauðlaukssultunni og afganginum af sósunni. Þetta var líklegast geggjaðasta samloka sem ég hef smakkað!

Rauðlaukssulta
meðlæti fyrir 4-6

3-4 rauðlaukar(fer eftir stærð), sneiddir
2 msk sinnepsfræ, annað hvort brún eða gul
2 msk rósmarín
50 ml balsamikedik
50 ml púðursykur
salt og pipar
1 chillialdin, saxað
olía til steikingar

Aðferð:
1. Sneiðið laukana og setjið olíu í djúpa pönnu yfir meðallágum hita.
2. Steikið chillialdinið í nokkrar mínútur og bætið svo lauknum saman við.
3. Léttsteikið laukinn þar til hann hefur mýkst og bætið þá afganginum af hráefninu saman við og látið malla í 40-45 mín, eða þar til laukurinn er orðinn að nokkurs konar sultu, vökvinn orðinn þykkur. Ef vökvinn verður hins vegar of þykkur er gott að bæta vatni saman við og ef ykkur þykir vanta bragð er gott að bragðbæta með ediki og salti.

Friday, November 21, 2008

Sítrónukjúklingur, aðeins öðruvísi þó

Eins og ég hef áður sagt og líklegast allir vinir mínir vita þá er gömul uppskrift í gangi í fjölskyldunni og nú líklegast í fleiri fjölskyldum sem ég kalla ,,gamla kjúklinginn" en er í rauninni sítrónukjúklingur og ég er næstum viss um að ég hafi sett inn uppskriftina að honum hér á síðuna. Sú uppskrift er með þeim betri sem ég hef smakkað en það er smá bruðl í henni, öll þessi ólífuolía sem í dag er orðin rándýr. Ég reyndi því í gærkvöldi að breyta aðeins og blanda saman uppskriftum og útkoman var mjög góð en ég býst þó við að þróa hana aðeins betur, það er nefnilega oft sem maður er að þróa uppskriftir í heillangan tíma, sérstaklega þær sem virka aftur og aftur og aftur eins og ,,gamli kjúllinn". Mamma er ennþá að þróa hann.
Hér kemur fyrsta uppskriftin að þessum sítrónukjúkling en eins og ég segi þá má alveg búast við samskonar kjúkling á næstu vikum, þó ekki alveg eins.

Sítrónukjúklingur volume 1.
f/4-6

1 kjúklingur(mega vera tveir með sömu uppskrift)
1/2 hvítlaukshaus, kraminn+
1 msk salt
1 msk rósmarín
2 sítrónur, börkurinn rifinn með rifjárni(passa að ekki mikið af því hvíta fari með) og safinn
jafn mikið af kjúklingasoði(vatn og kjúklingakraftur)
steinselja

Aðferð:
1. Sítrónusafi og börkur, salt, rósmarín, hvítlaukur og soð öllu hrært saman í skál.
2. Kjúklingurinn settur í ofnfastan pott og hellið vökvanum yfir og klippið steinseljuna yfir og setjið í ofn við 200°C í klukkutíma. Berið fram með jasmin/basmati hrísgrjónum og salati.

Wednesday, November 19, 2008

Kínverskar núðlur með steiktum kjúklingaleggjum


Ég var alltaf að gera eitthvað í líkingu við þennan hérna í den og var svona aðeins að rifja upp. Hann heppnaðist bara helvíti vel. Það er nú ekki hægt að segja að ég sé mikið að flækja málin í þessu og reyni að nota bara það sem til er hérna heima. Að sjálfsögðu er hægt að gera miklu meira úr svona núðlum en ég vildi hafa þetta einfalt og fljótlegt.


Kínverskar núðlur með steiktum kjúklingaleggjum
f/5-6
Einn bakki kjúklingaleggir
einn stór pakki núðlur
3 gulrætur, litlar, skornar í ræmur
1 msk söxuð engifer rót
1 chillipipar, saxaður
1/2 laukur, sneiddur
1/2 paprika, skorin í ræmur
1 hvítlauksrif, saxað
1 msk olía
1/2 dós af einhverju ausstulensku eins og bambus eða babymaís eða blöndu
2 msk sojaósa
1 msk teryakisósa
4 msk appelsínusafi
2 kjúklingateningskraftar
150 ml vatn

Aðferð:
1. Skerið og saxið það sem þarf og hafið tilbúnar tvær pönnur með olíu. Steikið kjúklingaleggina í annarri og grænmetið í hinni. Hitið ofninn í 200°C.
2. Þegar kjúklingurinn er orðinn vel brúnn á öllum hliðum og setjið í eldfast mót, hellið vatninu og öðrum kjúklingakraftinum í botninn, bakið í ca. 30 mín.
3. Þegar allt grænmetið er orðið meyrt er vökvanum hellt saman við og suðan látin koma upp.
4. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn eru núðlurnar soðnar í vatni með kjúklingakrafti.
5. Þegar þær eru tilbúnar eru þær sigtaðar frá vatninu og settar út í grænmetissojablönduna.
6. Berið fram með kjúklingaleggjunum.

Tuesday, November 18, 2008

Matseðill vikunnar 18. nóv.- 21.nóv.

Maðurinn minn tók af mér völdin þessa vikuna og valdi matseðilinn, sem sýnir það að hann var greinilega ekki sáttur við að hafa ekki fengið að vera með í síðustu viku. Ég verð nú samt að segja að þetta er ótrúlega vel valið hjá drengnum.

Þriðjudagur

Kínverskar núðlur með kjúkling
Það er orðið allt of langt síðan síðast, ég held það hafi verið fyrir 5 árum síðan sem ég gerði eitthvað kínverskt í eldhúsinu. En þetta er bara reglulega gott

Miðvikudagur

Bekkjarkvöld hjá Heklu litlu og við ætlum að nýta okkur það og borða okkur södd þar.

Fimmtudagur

Sítrónukjúklingur
jæja ég ætla að reyna aftur við sítrónukjúklinginn og sjá hvort ég kemst í hann í þetta skiptið

Föstudagur

BBQ svínahnakkar, bakaðar kartöflur og meðí
Ég gæti reyndar verið að vinna en ef ekki verður slegið upp heljarinnar grillveislu!

Laugardag og sunnudag verð ég að setja spurningamerki við því það er ýmislegt í bígerð.....

Monday, November 17, 2008

Enn betri pizza


Ég mundi eftir því í gær þegar ítölsk vinkona mín(sem er einmitt frá Napólí) sagði mér frá því að þegar unnusti hennar ákveður að búa til pizzur er röð af vinum og vandamönnum út fyrir dyr og allir að gæða sér á unaðslegum pizzum hans. Það var því ekki um annað að ræða en að fá uppskriftina hjá stúlkunni. Ég bjóst reyndar við því að þetta væri leynileg uppskrift en viti menn hún sendi mér hana um hæl. Ég er reyndar ekki með eldofn en það kom ekki að sök því þær voru hreint ótrúlegar. Ég setti víst á matseðilinn að ég ætlaði að vera með kjúkling en þar sem ég var að vinna allan laugardaginn og steingleymdi að taka úr frystinum þá var bara að nýta það sem var til og úr varð pizza handa liðinu. Ég geri alltaf alveg fullt af pizzum til að eiga í nesti daginn eftir.
Ég verð hins vegar að hryggja lesendur því að hún bað mig um að halda uppskriftinni eins leynilegri og ég gæti, en þetta verður kannski eins og Jojo's secret cheese cake recipe sem hefur lumast inn á nokkur heimili. Ég gæti hins vegar tekið við ýmsum mútum......hugmyndafrjóir gætu eignast þessa frábæru uppskrift...

Friday, November 14, 2008

Steiktar grísalundir með gráðostasósu og frönskum kartöflum

Ég get ekki að því gert en ég hlakka alltaf svo til þegar þetta er í matinn, það er bara svo gott. Þessi réttur er líka svo ótrúlega einfaldur og mjög þægilegt að láta eiginmanninn spreyta sig á matseldinni. Ég ákvað að sleppa linsubaununum þessa vikuna þar sem það voru einhver mótmæli hér á heimilinu, ekki alveg til í tvo grænmetisrétti í einni viku, þannig að það var hent í grillaðar samlokur með kartöflusalatinu sem er einmitt komin uppskrift af hér á síðunni.

Steiktar grísalundir með gráðostasósu og frönskum kartöflum
f/4
1 grísalund, skorin í ca 10 cm bita/steikur
1 gráðostur
1 peli rjómi
1 msk balsamico edik
1 skallottulaukur, saxaður
smá smjör
franskar kartöflur

Aðferð:
1. Laukurinn saxaður og léttsteiktur í smá smjöri, ediki bætt útí og látið sjóða aðeins niður. Þá er rjómanum bætt saman við og gráðosturinn mulinn útí. Látið sjóða í ca 4 mínútur.
2. Á meðan er frönsku kartöflunum stungið í ofninn eða í djúpsteikingarpottinn
3. Lundin er skorin og steikt á pönnu við háan hita, þegar hún er orðin gullinbrún er lækkað í lágan hita og lok sett á pönnuna, og látið steikjast í ca 10 mínútur eða þar til hún er tilbúin. Hægt er að tékka á því með hitamæli og á hitinn að vera um 70°C í miðju stykkinu en annars er bara að skera aðeins í þykkasta bitann og sjá hvort að liturinn á vökvanum sem kemur úr því er glær ef hann er það er það tilbúið ef hann hefur lit er hann ekki tilbúinn.
4. Berið fram.

Thursday, November 13, 2008

Tvíbakaðar kartöflur með sveppum og beikoni


Maðurinn minn var nú ekki á því að þetta væri aðalréttur, hann tönnlaðist á því að þetta væri bara meðlæti en þegar hann hafði smakkað fyrsta bitann skipti hann snarlega um skoðun. Maður verður pakksaddur og sæll eftir þennan frábæra kreppurétt.

Tvíbakaðar kartöflur með sveppum og beikoni
f/3
1- 1,5 kartafla á mann
7 beikonsneiðar, skorið í bita og stökksteikt
200 gr sveppir, sneiddir
20-30 gr smjör
rifinn ostur
örlítið salt eftir smekk(beikonið er salt þannig að aðgát skal höfð)
smá skvetta af mjólk, ég notaði léttmjólk og það var í góðu lagi ef þið viljið er hægt að nota rjóma eða nýmjólk
ef þið viljið er líka mjög gott að setja smá gráðost í eina til að gefa sem helmin til einhverra sem vilja auka skammt. Það getur verið of mikið af því góða ef maður setur í heila kartöflu.

Aðferð:
1. Saltið kartöflurnar að utan og bakið í 220°C heitum ofni í klukkutíma jafnvel 1,5 tíma fer eftir stærð kartaflanna.
2. Á meðan er beikonið og sveppirnir steiktir í smá smjöri þar til þeir eru fallega brúnir og beikonið stökkt.
3. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er saltið slegið af og lok skorið af efst á kartöflunni og kjötið tekið innan úr og sett í skál, þar er smjöri og sveppabeikonblöndunni blandað saman við og saltað og piprað eftir smekk.
4. Þegar blandan smakkast vel er hún sett aftur í kartöfluskeljarnar og rifinn ostur settur ofan á og sett undir grillið í nokkrar mínútur þar til hann rétt brúnast að ofan.

Berið fram

Brasseraður kjúklingur með sveppum og beikoni


Ég brenndi mig enn og aftur á þessu blogspoti og er að fara að færa þetta yfir á heimasíðu, ég var búin að skrifa heillanga grein og alla uppskriftina en viti menn hú datt út og ég finn hana ekki.
En það er ekki um neitt annað að ræða en að gera þetta aftur og hér kemur alveg hreint frábær uppskrift að brasseruðum kjúkling.

Brasseraður kjúklingur me sveppum og beikoni
f/4-6
1 kjúklingur(mæli með 2 ef það eru sex matmikið fólk í mat)
9 beikonsneiðar
1/4 af sellerírót eða 1 steinseljurót, skorin í 1,5 cm bita
3 gulrætur, skornar í jafnstóra bita
200 gr sveppir
3-4 kartöflur á mann, meðalstórar, skornar í tvennt
1,5 laukur, sneiddur
1 hvítlaukshaus skorinn í tvennt
1 búnt timían, jafnstórt og flöskuhaus
1,5 msk tómatpaste
1 kjúklingakraftsteningur
1 tsk piparkorn
250 ml hvítvín(úr beljunni sem ég keypti fyrir 4 vikum síðan)
50 gr smjör
næstum jafnmikið af hveiti

Aðferð:
1. Steikið helminginn af beikoninu, takið af pönnunni og í ofnfastan pott
2. Steikið grænmetið þar til það er fallega brúnt og setjið einnig í pottinn
3. Steikið kjúklinginn í sömu pönnu, ef vantar feiti er mjög gott að setja smjör, þar til hann er fallega gullinbrúnn, og setjið hann í pottinn
4. Hellið hvítvíninu í pönnuna og látið sjóða niður á hæsta hita í nokkrar mínútur.
5. Hellið því næst í pottinn ásamt öllu kryddinu(hvítlauk,timían, tómatpaste, pipar, kraftur)
6. Látið þetta í 200°C heitan ofn í klukkutíma
7. á meðan er smjörbolla búin til með því að bræða smjörið og blanda hveitinu saman við þar til myndar bollu. Restin af beikoninu er stökksteikt.
8. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann tekinn upp úr pottinum ásamt grænmetinu og kartöflunum. Soðið er sigtað í pott og kryddinu er hent.
9. Látið soðið sjóða harkalega niður í nokkrar mínútur, á meðan er álpappír settur yfir kjúklinginn og grænmetið og það jafnvel sett inn í ofninn aftur til að halda hita.
10. Soðið er þykkt, annað hvort með smjörbollunni eða maisena(fyrir þá sem eru hræddir við smjörbolluna), tja eða þá bara látið sjóða meira niður og látið þykkna þannig, en það verður líka bragðmeira á þann veginn. Berið fram...

Monday, November 10, 2008

Matseðill fyrir vikuna 11.nóv- 18.nóv.

Ég sat í bílnum áðan að setja saman matseðil vikunnar þannig að í þetta skiptið voru allir réttirnir ákveðnir af mér og því fær eiginmaðurinn engu að ráða þessa vikuna. Venjulega þá tek ég við óskum frá fjölskyldunni, því að allir eiga sinn uppáhaldsrétt og vilja fá hann svona annað slagið.
Þessa vikuna ætla ég að brassera svolítið og þar sem ég ætla að ráða þá fá að læðast hér inn grænmetisréttir líka, eitthvað létt til að vinna á móti brasseringunni. Í þetta skiptið ætla ég að brassera kjúkling, þetta er mjög oft gert á dönskum heimilum og er þetta partur af klassísku réttunum sem eru mikið í uppáhaldi hjá mér, sérstaklega þegar kalt er í veðri og ég þarf á ,,comfort food" að halda. Ég þarf að finna gott íslenskt orð yfir þetta.

Matseðill fyrir vikuna 11.-18. nóvember

Þriðjudagur

Brasseraður kjúklingur með beikoni og sveppum
Ég keypti svo mikið beikon um daginn á tilboði og setti helminginn í frysti, þannig að gott er að losa aðeins um geymsluplássið þar og nýta.

Miðvikudagur

Bakaðar kartöflur með beikoni, sveppum og salati.
Ég býst við að það verði afgangur af sveppunum frá gærdeginum og svo þar að auki er ég að fara á mótmælafund og þarf að hafa eitthvað fljótlegt og gott.

Fimmtudagur

Linsubaunaréttur með tómatsósu og steiktu eggaldin.
Ég get ekki beðið eftir grænmetisréttinum það er bara allt of langt síðan ég eldaði linsubaunarétt.

Föstudagur

Svínalundir með gráðostasósu og frönskum kartöflum.
Ég bara fæ ekki leið á þessari klassík og langar alltaf í þetta svona annað slagið, kannski maður breyti aðalhráefninu ef það er eitthvað spennandi á tilboði.

Laugardagur

Grill: BBQ svínahnakki, bakaðar kartöflur og salat.
Ég er í nostalgíu og sakna grillsins hans pabba, en það var á hverjum einasta föstudegi og ekki sleppt úr fyrir forsetann!
Reyndar ætla ég að láta vita strax að föstudagurinn og laugardagurinn gætu breyst lítillega, annað hvort skipti ég á dögum eða aðalhráefni. Sjáum hvað vikan færir mér.

Sunnudagur

Sítrónukjúklingur, salat og hrísgrjón
Ég ætla að vera mjög djörf í þetta skiptið og breyta gamla góða réttinum, sem öll fjölskyldan mín hefur gert í áraraðir, örlítið af ýmsum ástæðum og meðal annars þeirri að gamli er frekar dýr þar sem olían er svo hátt verðsett. Ég vona að það gangi upp hjá mér og að ég fái ekki fjölskylduna upp á móti mér.

Sunday, November 9, 2008

Saffranrisotto

Ég fékk að gjöf frá móður minni forláta saffran beint frá Indlandi fyrir tveimur árum síðan og það hef ég notað í þennan rétt síðan. Þetta er náttúrulega ekki beint kreppumatur þar sem saffran er jú dýrara en gull en það er svo bragðmikið að það þarf aðeins eina klípu af saffran í stóran skammt af risotto. Það er líka hægt að nota uppskriftina af risottoinu og sleppa saffraninu og setja ýmislegt annað í staðinn eins og t.d. aspas(má vera úr dós), blandaða þurkaða sveppi, bianco(án bragðefna).
Mér þykir best að bera þetta fram með bökuðu brauði.

Saffranrisotto
f/4
10 gr smjör
700 ml kjúklingasoð(700 ml vatn+11/2 kjúklingakraftsteningur)
300 gr risotto hrísgrjón
1 skallottulaukur, saxaður
2 msk ólífuolía
200 ml hvítvín
30 gr parmesan, og jafnvel meira eftir smekk
salt og pipar eftir smekk
Smá klípa af saffran

Aðferð:
1. Látið suðu koma upp í soðinu og haldið léttri suðu með því að hafa á lágum hita.
2. Í öðrum potti tiltölulega stórum (ca 22 cm í ummál), hitið létt ólífuolíuna og léttsteikið laukinn, þegar hann hefur mýkst aðeins er hrísgrjónunum bætt útí og hrært vel, þar til hrísgrjóin eru farin að glansa, þá er hvítvíninu hellt útí og látið sjóða rétt aðeins niður.
3. Því næst er einni ausu af léttsjóðandi soðinu bætt útí og hrært vel saman við. Þegar hrísgrjónin hafa sogið í sig allan vökvann er meira af soðinu bætt útí, og svo koll af kolli þar til grjónin eru al dente(mikilvægt að smakka til áður en öllu soðinu er bætt útí því það er misjafnt eftir tegund grjóna hvað þau þurfa mikið vatn. Setjið klípu af saffrani saman við. Þegar grjónin eru tilbúin er parmesanosturinn rifinn útí og smá smjörklípa sett saman við, saltað og piprað eftir smekk og borið fram með brauði.

Friday, November 7, 2008

Grillaður kjúklingur með frönskum og teila

Það bara hreinlega gleymdist að kaupa lambabóginn, já svona getur gerst hjá öllum fjölskyldum ekki satt? Og hvað er þá til ráðs að taka, sérstaklega þegar allir eru dauðþreyttir eftir erfiða vinnu og í mínu tilfelli ótrúlega mikla líkamsrækt jú grillaður kjúklingur. Því fylgir engin uppskrift. Ég krydda ferskan kjúkling með grillkryddi og salti og pipar og set í ofninn í opnum ofnpotti við 200°C í ca klukkustund. Auðvitað er hægt að gera eitthvað voða fínan grillaðan kjúking en ég bara verð að vera hreinskilin og segja að ég bara nennti því ekki.
Ég er reyndar mjög spennt fyrir sósunni og á eftir að prófa hana, líklegast geri ég það þegar maðurinn minn er kominn aftur með bragðskynið eftir kvefpest.

Thursday, November 6, 2008

Sellerírótarsúpa með beikoni og bökuðu brauði

Ég hef gert þessa súpu í þónokkur ár núna og hún er alltaf jafn góð. Ég reyndar geri þessa súpu annað hvort úr sellerírót eða steinseljurót, í rauninni er einnig hægt að setja blómkál í staðinn. Hún er einföld og góð og hlýjar manni um hjartarætur.

Sellerírótarsúpa

F/3
1/2 sellerírót, skræld og skorin í bita
3-4 litlir skallottulaukar(hægt að skipta út fyrir venjulegan lauk, enda er hann ódýrari
1/4 laukur
1 ltr soð(vatn+1 1/2 teningur)
3-4 hvítlauksrif, söxuð
150 ml hvítvín(má sleppa)
4 beikonsneiðar
2 hvítlauksbrauð
smá smjörklípa
1 tímíangrein(má sleppa)

Aðferð:
1. Skerið laukinn í sneiðar og rótina í bita.
2. Setjið smjörið í djúpan pott og léttsteikið laukinn(má ekki taka lit), bætið hvítlauknum og rótinni og léttsteikið allt saman. Bætið víninu saman við og látið sjóða niður um helming.
3. Hellið þá soðinu saman við ásamt timíanog látið sjóða í ca 15 mín eða þar til rótin er mjúk í gegn eða meyr.
4. Takið u.þ.b. 300 ml af vökvanum og geymið. Hakkið þá allt saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Sigtið í skál og hellið svo aftur í potttinn og hitið alveg í gegn og lagið þykktina eftir smekk með vökvanum sem tekinn var frá.
5. Á meðan rótin er að sjóða(áður en hún er hökkuð) er gott að steikja beikonið þar til það er alveg stökkt og setja brauðið inn í ofninn, ég nota frosin baguette og smyr það með heimagerðu hvítlaukssmjöri. Þá ætti allt að vera tilbúið þegar súpan er tilbúin.
6. Berið fram annað hvort hægt að setja súpuna í skálarnar og setja eina beikonsneið í hverja skál eða láta hvern og einn hafa beikon og leyfa þeim að gera það sem þeir vilja við það.

Aths. ef ykkur þykir súpan of þykk og þið hafið notað allan vökvann er mjög gott að bragðbæta með kókosmjólk, mjólk eða jafnvel örlitlum rjóma.

Wednesday, November 5, 2008

Plokkfiskur



Ég gerði loksins plokkfiskinn í kvöld og hann heppnaðist bara þokkalega vel. Það er alveg bráðnauðsynlegt að hafa rúgbrauð og ferskt grænmeti með, annars verður þetta allt of þungt fyrir okkur sem erum ekki vön svona þungum mat. Matarvenjur okkar hafa jú tekið stakkaskiptum síðustu ár og flestir réttir orðnir miklu léttari og ferskari þar sem allt hráefni var auðfáanlegt og tók ekki alveg eins mikið í budduna eins og það gerir í dag. Það var meira að segja orðið þannig að þegar ég bjó á Ítalíu öfundaði ég Íslendingana af hráefnaúrvalinu sem var/er hér á veturna. Ítalirnir fara nefnilega eftir árstíðum í matargerð, eitthvað sem við ættum að gera líka en hefur alltaf verið svo erfitt fyrir okkur þar sem það sem er til á veturna er tja lítið sem ekkert ef við hefðum ekki gróðurhúsin. En við höfum gróðurhúsin og við höfum mikið úrval og þar af leiðandi ætti maður að nýta sér það upp að vissu marki. Við ættum að fá að vita hvaðan grænmetið og ávextirnir koma og hvað hver tegund heitir. Epli er ekki bara epli það eru til þónokkuð margar tegundir og geta þær verið jafn mismunandi og epli og banani. Ég kannski fer ein í Bónus einhvern daginn svona þegar kreppan hefur hjaðnað og maður er kominn í mótmælagírinn og mótmæli skorts á upplýsingaflæði til viðskiptavinarins.
En jæja við vorum að tala um plokkfisk ekki satt?!
Hér kemur uppskriftin sem ég sauð saman í kvöld.

Plokkfiskur
f/4-6
500 gr soðin ýsa
200 gr soðinn saltfiskur
400 gr kartöflur
1 laukur, saxaður
50 gr smjör
40 gr hveiti
1 ltr nýmjólk
50 gr ostur
salt og pipar

Rúgbrauð- smjör - gulrætur skornar í franskar og agúrka skorin í franskar

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar
2. Sjóðið fiskinn
3. Takið stóran pott(f /a.m.k 2 ltr) og bræðið smjörið yfir meðalháum hita bætið lauknum saman við og sjóðið í 5-10 mín(má ekki taka lit) þegar hann hefur mýkst er hveiti bætt saman við smátt og smátt og hættið að bæta saman við þegar hægt er að móta bollu úr öllu saman.
4. Bætið þá mjólkinn smátt og smátt saman við og pískið vel á meðan. Látið suðuna koma upp á mjólkinni og þá ætti hún að vera orðin nokkuð þykk. Passið að hræra stanslaust því mjólkin á það til að brenna hratt í botninn. Saltið og piprið.
5. Þegar sósan er tilbúin eru kartöflurnar skrældar og skornar í bita og fiskurinn tekinn úr vatninu og þessu er blandað saman við sósuna, þetta er svo allt saman sett í eldfast mót og osturinn rifinn yfir og sett örstutt undir grillið til að gratínera eða bræða ostinn.
6. Berið þetta allt saman fram með rúgbrauði með smjöri og fersku grænmeti.

Tuesday, November 4, 2008

Matseðill vikunnar 4.nóv.-8.nóv.

Þessi vika var stór í innkaupum, heilar 6000 krónur en það var vegna þess að allur kreppuforðinn úr frystinum var búinn og var þörf á áfyllingu. Þá var farið yfir tilboðin og þau virtust best hjá Bónus þessa vikuna. Ég ætla að reyna aftur við plokkarann á morgun og búin að taka fiskinn úr frystinum og kaupa pínulítinn bita af saltfisk, merkilegt samt hversu dýr hann er. En það verður af nógu að taka þessa vikuna, ég lofaði súpu í grein Morgunblaðsins og mun ég standa við það, ég ætlaði að hafa það blómkálssúpu en svo þegar á hólminn var komið kom í ljós að sellerírótin var helmingi ódýrari og hún er algjört sælgæti. Við keyptum um daginn sósu í pakka, ég veit ég veit að matreiðslumaður skuli dirfast að setja svoleiðis á síðuna sína er næstum helgispjöll en maður verður að leyfa eiginmanninum að spreyta sig í eldhúsinu svona endrum og eins, en þessi sósa er bara prýðilega bragðgóð og verður það kvöldverðurinn í kvöld.

Matseðill vikunnar 4.nóv - 8. nóv.

Þriðjudagur

Butter chicken frá Asian Home Gourmet(fæst í Krónunni)
Þar er farið eftir uppskrift sem er aftan á pakkanum, sérstaklega flókið

Miðvikudagur

Plokkfiskur með heimabökuðu rúgbrauði og ferskum gulrótum og agúrkum

Fimmtudagur

Sellerírótarsúpa með stökku beikoni og ofnbökuðu brauði

Föstudagur

Ofnsteiktur lambabógur með steiktum sveppum, sósu með karamelliseruðum lauk og bakaðri kartöflu

Laugardagur

Saffran risotto með ofnbökuðu hvítlauksbrauði

Sunnudagur

hmmmm...... sjáum hvað verður eftir að aurum eftir vikuna...

Sunday, November 2, 2008

Grillaðar samlokur með kartöflusalati


úps.... Ég bara steingleymdi að taka ýsuna úr frystinum, þar sem sparnaður er í gangi er ekki keyptur ferskur fiskur. Ég á reyndar eftir að smakka hann svona frosinn en ég læt vita ef þetta er óætt þegar ég kemst í plokkarann.
En í kvöld verða því grillaðar samlokur og kartöflusalat. Ég er mjög mikill aðdáandi kartöflusalats og það er nú alveg merkilegt hvað þessi salöt geta verið vond þegar þau eru keypt tilbúin. Það besta sem ég fæ er kartöflusalatið hennar mömmu og set ég það hér inn. Á samlokurnar ákváðum við að notast við það sem til er í ísskápnum og úr varð dýrindiskvöldverður.

Grillaðar samlokur

samlokubrauð(2 brauðsneiðar á mann)
3 beikonsneiðar á mann, stökk steikt
1 skinkusneið á mann
ostur
gráðostur
dijon sinnep
majónes
smjörklípa

Aðferð:
1. Brauðið er smurt með dijon og majónesi og ofan á er sett ein skinkusneið, ostur, dreifið örlitlu af gráðosti yfir og lokið með brauði
2. Steikið á pönnu uppúr smjöri. þá er pannan höfð á háum hita fyrst og síðan lækkað í meðal hita, snúið brauðinu við og lokið pönnunni þannig að osturinn bráðni. Athugið að með þessu þarf að hafa gát þar sem brauðið á það til að brenna hratt.

Kartöflusalatið hennar múttu (sem er að sjálfsögðu það besta í heimi)

kartöflur
jafnt majónes og sýrður rjómi
asíur, skornar í litla bita
dijon sinnep
egg, harðsoðin
paprika, skornar í litla bita
epli, skorin í aðeins stærri bita

Aðferð
1. kartöflur soðnar og látið kalt vatn renna á þær, þær kældar vel
2. Majónesi, sýrðum og dijon hrært vel saman og restinni blandað saman við og síðan er þessu blandað út í skrældar og kældar kartöflurnar.
Ef þetta er það eina sem er í matinn er mjög gott að blanda túnfisk saman við og þá er komin heil máltíð. Ég man ég gat ekki beðið eftir kvöldmatnum þegar þetta var í matinn þegar ég var lítil.

Friday, October 31, 2008

Spaghetti Carbonara

Spaghetti Carbonara tja hvað er hægt að segja annað en hreinn og klár unaður og svo einfalt að maður bara spyr sig hvernig þetta sé hægt! Rétturinn á að vera alveg jafn safaríkur og ef að rjóma væri bætt saman við nema ekki eins mikil rjómasósa heldur meira sérstakur réttur frekar en enn einn rjómasaghettí rétturinn.
Ég vil endilega bæta hér inn að ég hef nú verið að lesa aðeins um réttinn Carbonara á netinu og í bókum og það er greinilega ýmislegt sem fólki þykir í lagi að bæta saman við réttinn og í mörgum tilfellum myndi ég segja að rétturinn væri orðinn að rjómasósu með beikoni. Það sem ég lærði af Ítölsku vinkonu minni (hafið þó í huga að Ítalirnir geta verið sérstaklega íhaldssamir í sambandi við klassísku réttina sína) var að um leið og þú ferð að bæta fleiru saman við réttinn eins og t.d. rjóma þá vildu þeir kalla réttinn eitthvað annað. Annars eru þeir nú farnir að bæta rjóma saman við réttinn norðar á Ítalíu en rétturinn kemur frá suður-Ítalíu þannig að það er erfitt að segja hvað er rétt og hvað er rangt í þessu sambandi. En eitt er víst að ef þið viljið hafa þetta alveg authentic þá er þetta uppskrift sem kemst mjög nærri því.

Spaghetti Carbonara
f/4

400 gr spaghetti
4 eggjarauður
4 eggjavítur
2 msk rifinn parmesanostur
7 beikonsneiðar, skornar smátt og steiktar á pönnu
(salvía og smjörklípa)
Nýmalaður pipar

Aðferð:
1. Setjið spaghettíið í sjóðandi vatn og sjóðið eftir tímanum sem stendur á pakkanum
2. Stökksteikið beikonið(ásamt salvíu ef þið viljið nota hana, takið hana svo úr og hendið)í örlitlu smjöri
3. Skiljið eggin að í tvær skálar og hrærið eggjarauðurnar með parmesanostinum
4. Stífþeytið eggjahvíturnar
5. Þegar spaghettíið er tilbúið þarf að hafa hraðar hendur, þá er vatninu hellt af því og það sett í skálina sem á að bera fram í, þá eru rauðunum bætt saman við þegar það er sjóðandi heitt til þess að þær eldist, þegar þær eru vel blandaðar saman við er hvítunum blandað saman við og síðast er beikoninu bætt saman við og þá er rétturinn tilbúinn. Piprið með nýmöluðum pipar.

Berið fram með brauði og fersku salati og ég set yfirleitt á borðið piparkvörnina og parmesanost ef fólk vill fá meira af því.

Aths. Mjög gott er að steikja beikonið uppúr smjörklípu og smá ferskri salvíu.

Hönsesalat

Ég reyndar sauð allt of mikið af grjónum í þetta skiptið og þess vegna ákvað ég að sleppa hönsesalatinu og tók bara kjúklinginn í litla bita og henti öllu á pönnu og hitaði upp og borðaði með bestu list, en það er mikilvægt í þessu að sósan eða vökvinn af kjúklingnum er geymdur og settur með á pönnuna og öllu hrært saman. Ég ætla nú samt að setja hér inn uppskrift af klassísku hönsesalati.

Hönsesalat

Majónes er bragðbætt með vínediki, salti og pipar og síðast er bætt smá létt pískuðum rjóma saman við
kjúklingur/hænsni
stökksteikt beikon
sveppaskífur sem er búið að setja örsnöggt(ca.3 mín) í sjóðandi saltvatn og kældir strax á eftir í ísköldu vatni
aspas sem er einnig búið að sjóða eins og sveppina

Aðferð:
1 Blandið öllu saman og berið fram með fersku salati, tómatsneiðum

Sojakjúklingur


Ég hef verið að gera þennan kjúkling í ansi mörg ár og breytist uppskriftin í hvert einasta skipti þar sem ég á aldrei allt sem stendur í upprunalegu uppskriftinni, en hann er alltaf jafn góður.

Upprunalega sojakjúklingauppskriftin

1-2 kjúklingar
1 stórt hvítlauksrif, sneitt þunnt
jafnmikið af engifer einnig sneitt þunnt
50 ml (1/2 dl) ostrusósa
150 ml(1 1/2 dl)sojasósa
50 ml (1/2 dl) olía
2 msk sítrónusafi
4 msk sæt sojasósa
1 tsk red curry paste

Hægt er að setja einnig í þetta alls konar krydd eins og t.d.
kóríanderfræ
fennelfræ
kardimommur
sinnepsfræ
allt sett í mortel og mulið

Aðferð:
1. Öllu blandað saman í skál og svo hellt yfir kjúklinginn
2. Kjúklingurinn settur í eldfastan pott, leirpott eða þvíumlíkt og inn í ofn við 200°C í klukkutíma.
Borið fram með jasmín/basmati hrísgrjónum og stökku salati(iceberg) með því sem er til í ísskápnum, td. furuhnetur og fetaostur eða avócadó og feta eða parmesan og tómatar.

Uppskriftin að sojakjúklingnum sem ég gerði í fyrradag

1-2 kjúklingar
75 ml teriaki sósa
75 ml sojasósa
3 msk sweet chilli sósa
1/2 hvítlaukshaus, kreistur eða saxaður
1 chillialdin, saxað
45 ml olía( ég kaupi mjög sjaldan matarolíu og nota því bara ólífuolíu og skammast mín ekkert fyrir það)
1 msk brún sinnepsfræ
smá mulið kóríanderfræ
smá mulið anísstjörnur
smá mulið kardímommur

Aðferð:
1. Öllu blandað saman og hellt yfir kjúklinginn og hann settur inn í ofn eins og í hinni uppskriftinni við 200°C í klukkutíma.
Borið fram með jasmín/basmati hrísgrjónum og salati

Tuesday, October 28, 2008

Matseðill vikunnar 28.okt - 4. nóv.

Mikið ofboðslega var mikið að gera þennan daginn sem gerði það að verkum að allir voru farnir að öskra af hungri þegar heim var komið og þá var ekki annað í stöðunni en að henda í pulsur, þið vitið gömlu góðu pulsur í brauði með tómat, sinnep, steiktum lauk og remolaði og að sjálfsögðu var drukkin mjólk með, ég mæli með því að eiga fylgihlutina ávallt inni í ískáp, það er nefnilega aldrei að vita hvenær allir eru öskrandi svangir og þurfa að fá mat í einum grænum!

En hér kemur næsti matseðill og er hann ekki af verri endanum, við vorum að borga 4000 kall fyrir matarreikning vikunnar og þar var nú mun meira inní en bara það sem er borðað í kvöldmat. það þarf jú nesti og fleira til heimilisins, en þetta er víst hægt, eða það er ég allavegana að komast að þessa dagana.

Matseðill vikunnar 28.okt.- 4. nóv.

Þriðjudagur

Puslur í brauði

Miðvikudagur

Sojakjúklingur með hrísgrjónum

Einfaldur, ódýr og frábær.

Fimmtudagur

Kjúklingasalat

Er ekki best að nýta afganga af kjúklingnum í ekta danskt kjúklingasalat? Þeir notuðu reyndar hænsni og heitir klassíkin Hönsesalat og kom mér skemmtilega á óvart þegar ég bjó þar, maður bara fær ekki nóg af því.

Föstudagur

Spaghetti Carbonara

Í enda vikunnar er nauðsynlegt að gera eitthvað einfalt og fljótlegt og verður Carbonara fyrir valinu þessa vikuna. Í uppskriftinni sem ég fékk hjá ítalskri vinkonu móður minnar er ekki notaður rjómi eins og í svo mörgum uppskriftum af þessari klassík og er það svo miklu, miklu betra.

Laugardagur

Vinna, vinna, vinna þannig að lítið verður um heima-matreiðslu þennan daginn...

Sunnudagur

Plokkfiskur með rúgbrauði

Mér fannst tilvalið að hafa eitthvað þjóðlegt á sunnudaginn, það er eitthvað svo heimilislegt.

Monday, October 27, 2008

Chocolate-peanut butter fudge brownies

Hljómar vel ekki satt? Þessi kaka er fyrir alla þá sem elska súkkulaði eða ætti ég að orða það frekar "death by chocolate!". Með þessari köku er nauðsynlegt að hafa vanilluís, vanillusósu, fullt af þeyttum rjóma eða bara risastórt ískalt mjólkurglas, og einhvers konar ber.

Chocolate-peanut butter fudge brownies

3/4 bolli(150 ml) ósaltað smjör
270 gr 57% súkkulaði, hakkað
90 gr 70% súkkulaði, hakkað
1 1/2 bolli (300 ml) sykur
1 1/2 tsk vanillu extract eða vanilludropar
1/4 tsk salt
4 egg
1 bolli(200ml) hveiti
(1 bolli(200 ml) ristaðar salthnetur, ég sleppi þeim og skiptir ekki máli)

Aðferð:
1. Setjið álpappír í 33x23x5 cm bökunarform og látið hanga yfir brúnir.
2. Hitið ofninn í 160°C
3. Setjið 3/4 bolla(150 ml) smjör í stálskál eða skál sem þolir vel hita, bætið öllu súkkulaði saman við og setjið yfir pott með léttsjóðandi vatni, og látið bráðna varlega saman.
4. Bætið sykri, vanillu og salti saman við og síðast eggjum, eitt og eitt í einu.
5. Bætið hveiti og síðast hnetum(ef þær eru notaðar), varlega saman við.
6. Setjið í formið og inn í ofn í ca 30 mín, eða þar til prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út með blautum ,, crumbs" (nú á mamma eftir að skamma mig fyrir enskuslettuna en ég fann ekkert nægilega gott orð, uppástungur vel þegnar á commentakerfi).

Fylling og ganache(súkkulaðikrem):


1 bolli(200 ml)crunchy hnetusmjör
1/4 bolli( 50 ml) ósaltað smjör, við stofuhita
3/4 bolli ( 150 ml) flórsykur
1/8 tsk salt
1 msk nýmjólk
1 tsk vanilluextract/vanilludropar

200 gr(70%) dökkt súkkulaði, hakkað
1/4 bolli(50 ml) ósaltað smjör

Aðferð:
1. Þeytið hnetusmjör og 1/4 bolla(50 ml) smjör saman þar til blandast.
2, Bætið flórsykri, salti og síðast mjólk og vanillu saman við og smyrjið á brownies-ið þegar það hefur kólnað örlítið.
3. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði(eins og áður var lýst í aðferð við bökun brownies) og 1/4 bolla(50 ml) smjör saman. Leyfið að kólna örlítið og hellið í löngum línum yfir kökuna og dreifið með löngum spaða eða beittum löngum hníf. Ef erfitt reynist að dreifa úr súkkulaðinu er hægt að hita hnífinn undir sóðandi heitu rennandi vatni þurrka í snatri og dreifa þannig úr súkkulaðinu. Ekki er þörf á að setja á hliðarnar á kökunni

Þetta var ég með í matarboði bæði á laugardaginn og einnig um daginn og þá bar ég hana fram með vanillu parfait og fullt af alls konar berjum í súkkulaðiskeljum. Á laugardaginn lét ég duga að hafa keyptan vanilluís og jarðaber og það var líka algjört æði. Í aðalrétt var ég með súpukjötið sem ég hef nú þegar sett inn uppskrift af og þetta sló algerlega í gegn. Ekta vetrarmatarboð!

Thursday, October 23, 2008

Breytt plan

Já ég gerði mér grein fyrir því að það voru allt of mikið af afgöngum í ísskápnum þannig að það verður afgangakvöld í kvöld.

Klúbbsamloka

beikon
ostur
avócadó
tómatar
icebergsalat
kjúklingur
Dijon sinnep
majónes
Samlokubrauð

Aðferð:
1. Beikonið er steikt þar til það er stökkt
2. Brauðið er ristað
3. avócadó og tómatar skornir
4. kjúklingurinn brytjaður niður í bita
5. brauðið smurt með Dijon og majónesi, ég vil hafa mína sterka þannig að ég set dijon á allar sneiðarnar en restin af fjölskyldunni vill ekki svo sterka og þá setur maður einungis á tvær hliðar og smurt með majónesi á restina, passið að hafa það ekki of mikið
6. Þessi klúbbari er á þremur hæðum þannig að fyrir hverja samloku eru 3 brauðsneiðar
7. Restinni er raðað á sneiðarnar og svo sett saman, skorið í þríhyrninga og notið með bestu lyst!

Wednesday, October 22, 2008

Grillaður kryddkjúklingur

Þessi er jafnvel betri daginn eftir þannig að ef maður hefur tíma til að marinera hann í nokkra tíma allt upp í sólarhring.

Grillaður kryddkjúklingur
f/4-6

1-2 heilir kjúklingar(einn ef það eru 4, 2 ef það eru 6 manns)
safi úr tveimur sítrónum ásamt rifnum berkinum
jafn mikið af ólífuolíu
10 greinar timían
3 greinar rósmarín
4 tsk pestó
4 hvítlauksrif, sneidd
fullt af salti helst flögusalt en hitt er í lagi
pipar
400 gr kartöflur

Aðferð:
1. Vökva blandað saman, laufin af kryddjurtunum tekin af og blandað saman við ásamt pestó.
2. Kjúklingurinn settur í svokallað roasting pan, það er einnig hægt að nota eldfast mót.
3. Hann er saltaður vel og pipraður og kartöflurnar skornar í litla báta og dreift í kringum kjúklinginn og blöndunni hellt yfir kjúklinginn þannig að hún þekji hann ágætlega þá er hvítlauknum dreift yfir og sett í ofn við 180°C í ca klukkutíma. Gott er að athuga með kjúklinginn á hálftíma fresti eða jafnvel korters fresti, ef hann fer að brúnast of mikið að ofan er gott að setja álpappír yfir.

Aths. Þetta eru ennþá kryddjurtirnar sem ég keypti fyrir um 3 vikum síðan, þær eru ennþá eins og nýjar í ísskápnum hjá mér og þá er eins gott að nota þær þar til ekkert er eftir!

Tuesday, October 21, 2008

Matseðill vikunnar 21.-27. okt.

Hér kemur matseðill vikunnar en í gær var bara tekið grænmetislasagna úr frystinum og borðað með bestu lyst, jafnvel bara betra.

Vikan 21-27. okt.

Þriðjudagur

Grillaður kryddkjúklingur með kartöflum og sósunni sem lekur af kjúklingnum

Miðvikudagur

Slátur með kartöflustöppu og rófustöppu, rúgbrauði og det hele...

Fimmtudagur

Steikt ýsa með grænmeti og paprikusósu
Hér ætla ég að nota grænmeti sem ég hef keypt í síðustu viku og þessari til að það skemmist ekki og peningarnir endi í ruslinu.

Föstudagur

Ætla að reyna að troða okkur í mat einhvers staðar, ég nenni ekki að elda þennan dag.

Laugardagur

Vetrar matarboð
Í tilefni þess að þetta er fyrsti vetrardagur þá mun ég bjóða gestum mínum uppá ekta vetrarmat.

Brasserað súpukjöt með rustic grænmeti og kartöflumús

Monday, October 20, 2008

Uppaborgarar


Það var farið út á lífið á laugardagskvöldið þannig að sunnudagurinn var frekar þunnur en þá var bara gripið til poppmaísins og poppað, ég var hreinlega búin að gleyma hvað það er gott. Svo um kvöldið var hent í risa uppaborgara, ekki slæmur þynnkumatur það!

Uppaborgarar
f/4

500 gr nautahakk
2 tsk dijon sinnep
1 msk brauðrasp
1 egg
salt og pipar
olía til steikingar
4 hamborgarabrauð

Álegg:
2 tómatar, skornir í sneiðar
nokkur salatblöð af icebersalati
ekta pestó
gráðaostur / brie / geitaostur
kokteilsósa

Aðferð:
1. Blandið öllu vel saman og mótið hamborgara með höndunum
2. Skerið grænmeti og búið til pestó og setjið á disk og hendið frönnunum í ofninn eða steikingarpottinn
3. Síðast steikið hamborgarana og hitið brauðin.
4. Leggið allt á borðið og leyfið öllum að raða á sinn hamborgara eftir smekk en ég mæli með svona röðun:

1. Hamborgarabrauð smurt þunnt með kokteilsósu smyrjið þá með pestó leggjið hamborgarann ofan á þá tómata, iceberg og ost. Smyrjið hamborgarabrauðslokið með kokteilsósu og hamborgarinn er tilbúinn.

Heimatilbúið pestó fyrir 4 hamborgara

1 bakki basilíka
1 msk ristaðar furuhnetur
1 msk parmesanostur
1/2 hvítlauksrif, kramið
salt og pipar
ólífuolía slatti
2 msk fersk steinselja(hún er ódýrari en basilíkan og hægt að drýgja með henni)

Aðferð:
1. Takið laufin af basilíkunni og setjið í litla matvinnsluvél, eða í skál og notið töfrasprota.
2. Setjið restina af hráefnunum saman við og nokkrum matskeiðum af ólífuolíu og byrjið að hakka, bætið olíu saman við þar til hægt er að hakka vel og pestó áferðinni hefur verið náð.

Friday, October 17, 2008

Súpukjet með sérstakri kartöflumús



Loksins loksins kom að mínu uppáhaldi. Ég var einmitt að hlusta á ,,kósíkvöldí kvöld" lagið með Baggalút á leiðinni heim og þetta er alveg ekta forleikur fyrir þess háttar unað. Það verður borðað frábært íslenskt lambakjöt með ekta brúnni sósu og kartöflu mús og svo á eftir horft á vídeó, barnið svæft snemma og jafnvel poppað.
ohh ég get ekki beðið.

Brasserað súpukjöt
f/4-5

1,5-6 kg súpukjöt
400 gr laukur(1 1/2 laukur)
120 gr fennel( 1 stk)
400 gr gulrætur(5 stórar)
63 gr hvítlaukur(heill haus)
230 gr sellerírót( hér má skipta út fyrir sellerí eða steinseljurót)
200 ml hvítvín/rauðvín
1 ltr vatn
2 tsk kúfaðar tómatpaste/púrra
endar skornir af steinselju(má sleppa)
ca 20 greinar af timían
1 grein rósmarín
1 teningur af kjötkrafti eða lambakrafti

Aðferð:
1. Skerið helminginn af grænmetinu, og steikið í stórum eldföstum potti eins og t.d. le cruiset eða svarta gamla sem allar ömmur áttu fyrir lambalærið, ég býst við að allir viti hvern ég meina.
2. Þegar grænmetið hefur fengð á sig fallegan brúnan lit er það tekið upp úr og smá fita er sett í pottinn, ég nota bæði smjör og ólífuolíu en það fer eftir smekk. Þegar hú er orðin heit er lambakjötið steikt þar til það brúnast vel. Þá er víninu hellt saman við og látið sjóða niður til helminga þá er vatninu bætt saman við ásamt öllu grænmetinu.
3. Setjið krydd, tómatpúrru og kraft. Lokið pottinum og setjið í ofn við 180°C í 1 1/2- 2 klst.
4. Eftir klukkutíma er kjötinu snúið þannig að það þorni ekki það sem stendur upp úr
5. Eftir 11/2 klst er tekinn einn biti og athugað hvort hann er seigur eða ekki. Ef hann er seigur er kjötið soðið lengur ef ekki þá er það tilbúið.

6. Þegar kjötið er tilbúið er búin til brúna sósan.

Brún sósa
70 gr smjör
100 gr hveiti

Aðferð:
1. Smjörið er brætt og þegar það bubblar er hveitinu bætt saman við og hrært vel. Þetta er svo hrært þar til smjörið og hveitið er orðið eins og bolla.
2. Þegar kjötið er tilbúið er það tekið úr pottinum og sett í skál eða pottlokið og álpappír settur yfir.
3 Vökvinn úr pottinum er sigtaður í annan pott og suðan látin koma upp. Grænmetinu úr pottinum er hent(hefur þjónað sínum tilgangi og allt bragð farið úr).
4. Þegar sýður er smá af hveiti bollunni bætt saman við og látið sjóða þar til þykknar og svo alltaf bætt meira og meira í þar til sósan er nægilega þykk, fer eftir smekk. Þá er hún bragðbætt með salti og pipar.

Með þessu er gott að hafa rustic grænmeti, þá er restin af grænmetinu sett í eldfast mót, olíu hellt yfir, saltað og piprað og sett í ofninn í 45 mín, með kjötinu.

Sérstök kartöflumús
1 kg kartöflur
500 gr sellerírót
140-200 gr smjör
fullt af salti
pipar

Aðferð:
1. Kartöflurnar afhýddar og rótin einnig. Það er síðan soðið í söltu vatni(1 msk af salti á móti 1 ltr af vatni), þar til meyrt.
2. Þá er það sigtað frá vatninu og maukað í pottinn aftur. Smjörinu bætt saman við og salti og hrært þar til réttu bragði er náð(fer eftir smekk hvers og eins)

Aths 1. Ég get alveg viðurkennt að þetta tekur um 2 klst að undirbúa en það er svo innilega þess virði og finnst ykkur ekki að stundum þá þarf maður að setja ást og umhyggju í matinn handa þeim sem maður elskar mest?
Við drukkum rioja rauðvín með og það passaði alveg fullkomlega, eitthvað þungt og bragðmikið(afsakið ég kann ekki vínorðin)
Aths 2. Ástæðan fyrir notkun á tímían og rósmaríni... ég veit að það er rándýrt að kaupa ferskar kryddjurtir en ég kaupi þessartvær tegundir og set þær í lofttæmdar umbúðir með blautri eldhúsþurrku undir og yfir og inn í ísskáp og þannig haldast þær vel og lengi, ég er ekki alveg með tímann á því þar sem það eru tvær vikur síðan ég keypti þær og þær eru ennþá eins og nýjar.

Thursday, October 16, 2008

Matarboð

Í kvöld er okkur boðið í mat til systu þannig að á morgun verður súpukjötið sett inn og svo verða uppaborgararnir á sunnudaginn þar sem ég er að vinna á laugardaginn.

Svona er lífið yndislegt, alltaf breytast plön vikunnar og alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

Wednesday, October 15, 2008

Pastasalat


Óvænt uppákoma.
já í dag var dóttirin veik og þá voru góð ráð dýr, allt komið í frost og eiginmaðurinn ekki búinn að taka neitt út þegar ég kom heim úr vinnunni. Þá var bara farið í skápana og fundið eitthvað sniðugt að henda saman í einum grænum. Ekki nóg með það heldur komu Þorgerður systir og Arnaldur og þeirra kríli í óvænta heimsókn og allir borðuðu sig sadda af þessum frábæra mat, sem ég bar fram með bökuðu brauði.

Pastasalat
f/4
350 gr pasta, farfalle eða skrúfur
4 egg, harðsoðin og skorin í bita
100 gr brauðostur, en hér er hægt að nota hvaða ost sem er og eru bestir, mozzarella eða papriku/piparostur en þá værum við að spreða soldið
20 gr rauð paprika, skorin í litla bita
2 dósir túnfiskur í olíu, í vatni er líka í lagi sérstaklega ef maður er að hugsa um línurnar, olíunni/vatninu hellt af og hann settur í skálina í stórum klumpum
100 gr ólífur
100 gr fetaostur, hreinn ekki í kryddolíu eða neinu kryddi
1-2 tómatar, vel þroskaðir, skornir í jafnstóra bita og fetaosturinn
1 msk furuhnetur

Aðferð:
1. Pastaið er soðið.
2. Grænmeti skorið og eggin soðin
3. Pastaið kælt og öllu svo blandað saman og saltað og piprað og góðri ólífuolíu hellt yfir til að bleyta upp í því.

Aths. hér má í rauninni skipta flestu út fyrir það sem er til í skápunum hverju sinni, en mér þykir
mikilvægast að vera með eggin og túnfiskinn, einhvern ost og ólífur.
Borið fram með bökuðu baguette sem ég kaupi frosið.

Tuesday, October 14, 2008

Grænmetislasagna


Ég dreif mig út í búð í dag og keypti allt í matseðilinn góða og viti menn það var ekki nema 6500 kall!! það þykir mér vel sloppið fyrir kvöldverð 6 kvöld fyrir þrjá. Ég reyndar á við eitt vandamál að stríða tja ef vandamál má kalla, ég kann ekki að elda bara fyrir þrjá, það er í flestum tilfellum fyrir 4-6 manns, sem er gott þá fær Sverrir maðurinn minn nesti næsta dag.
Í grænmetislasagna er svo sem hægt að nota hvaða grænmeti sem er en ég hef verið að gera þetta í þó nokkur ár núna og hef komist að þeirri niðurstöðu að það er lang best með þessu tiltekna grænmeti sem er í þessari uppskrift. Það er kannski dýrt í kílóaverði en það þarf svo lítið af því að það kemur nokkurn veginn út á það sama.

Grænmetislasagna
f/6 manns

1/2 eggaldin skorið í þríhyrninga
1/2 zucchini, kúrbítur, skorið eins
2 laukar, sneiddur
1 fennel, kjarninn fjarlægður og skorið í sneiðar
1 rauð paprika, skorin í þunnar ræmur og svo í tvennt
4 litlar gulrætur, sneiddar
2 dósir heilir tómatar
1 msk tómatpaste
4 greinar timian(má sleppa)
1/2 grein rósmarín(má sleppa)
1 tsk balsamico edik
100 ml/1 dl hvítvín(má sleppa og má vera rauðvín)
1 kjúklingakraftsteningur(má einnig nota grænmetistening)
salt og pipar
ostsneiðar og parmesan(ef vill)
100 ml/1 dl extra virgin ólífuolía
4 hvítlauksrif, sneidd
500 gr kotasæla
lasagnaplötur

Aðferð:
1. Skerið allt grænmeti
2. Takið stærsta pottinn ykkar og hellið olíunni í og setjið á hæsta hita, þegar olían er heit er öllu grænmetinu og hvítlauk hellt út í og steikt í ca. 10-15 mínútur eða þar til allt er vel meyrt
3. Þegar allt er vel meyrt er edikinu hellt saman við og látið sjóða niður þá er hvítvíninu hellt saman við og látið sjóða örlítið niður.
4. Þegar það hefur soðið niður er tómötunum bætt saman við ásamt tómatpaste og öllu kryddi ,salti og pipar og tening, brytjið tómatana með sleifinni og hrærið vel saman og látið sjóða í 10 mínútur.
5. Setjið smá af grænmetissósunni í botninn á eldföstu móti og leggjið lasagnaplötur ofan á og þá aftur sósu og dreifið kotasælu yfir og svo aftur lasagnablöð og svo koll af kolli þar til sósan hefur klárast. Athugið að efsta lagið á að vera lasagnaplötur kotasæla og ostur. Dreifið rifnum parmesan yfir ef hann er notaður.
Bakið í ofni í 30 mín við 180°C.
Aths. Ég mun nota afganginn af grænmetinu í fiskiréttinn seinna í vikunni og einnig í brasseraða súpukjötið
Gott er að búa til salat úr icebergsalati með ristuðum furuhnetum eða einvherju gómsætu úr skápunum ykkar. og jafnvel brauð líka. Ég kaupi alltaf frosið brauð en það er ódýrast,svo er líka gott að hafa venjulegt ristað brauð og jafnvel strjúka það létt með hvítlauk og smyrja með smjöri.

Monday, October 13, 2008

Matseðill vikunnar 13.- 20.okt.

Þriðjudagur

Grænmetislasagna

Kannski svolítið tímafrekt en maður getur tekið það í bita og fryst þannig á maður í fleiri máltíðir.

Miðvikudagur

Afmæli jú kannski bara afgangar af lasagna

Fimmtudagur

Brasserað súpukjöt
mmm.. uppáhaldið mitt get ekki beðið

Föstudagur

Vonandi tilboðsfiskur
Kíki á tilboð á fiski og finn svo eitthvað heima til að gera úr honum og set það hér inn á fimmtudaginn

Laugardagur

Uppaborgarar
loksins fékk ég afsökun til að gera þá snilld. Það eru hamborgarar með geitaosti eða gráðosti eða brieosti og pestó, já það er eins gott að vera sparsamur þessa vikuna til að geta gert alvöru pestó.

Sunnudagur

Eigum við ekki að láta það ráðast af fjárráðum eftir vikuna.....

Mánudagur til m....

onei það er nú varla svo slæmt. Mánudagar eru yndislegir sérstaklega þegar maður hefur átt svona frábæran sunnudag. Það er bara svo gaman að lifa.
Hvað á nú að hafa í matinn í kvöld?
Ætli sé ekki best að hafa einfaldan kjúkling sem kostar ekki neitt og ég þarf lítið af hráefnum þar sem allt er að tæmast hjá mér í skápunum það er jú síðasti dagurinn áður en ég fer í búðina.
Sítrónukjúklingurinn verður fyrir valinu, hann hef ég örugglega gert fyrir alla vini mína og öll fjölskyldan er með hann á hreinu, þetta er nefnilega snilldarkjúklingur.

Sítrónukjúklingur(eða ,,gamli kjúklingurinn")

2 kjúklingar
safi úr tveimur sítrónum og börkurinn rifinn
tvisvar sinnum meira af extra virgin ólífuolíu
hálfur hvítlaukshaus
1 msk salt
2 msk rósmarín(má vera þurrkað)
klippt steinselja(hef sleppt og það er í lagi)

Aðferð:
1. Kjúklingurinn er settur í elfastan pott, leirpottur er bestur en svarti virkar fínt, ég hef líka sett þetta í eldfasta skál og það virkaði líka.
2. Hitið ofninn í 200 gráður
3. Blandið öllu hráefni saman í skál og hellið svo yfir kjúklinginn, klippið steinseljuna yfir.
4. Bakið í ofni í klukkutíma.

aths. Ef þið eruð bara með einn kjúkling þarf ekki að minnka hlutföllin á restinni af hráefninu.

Berið fram með Jasmín eða Basmati hrísgrjónum og fersku salati.

Sunday, October 12, 2008

KRAKKAPIZZA

Þetta var nú alveg hreint frábær dagur. Fyrst var farið með allan krakkaskarann í fjöruferð svo þegar heim var komið um fjögur leytið var byrjað á pizzugerð. Við gerðum þetta alveg eins og þeir gera á Ítalíu, en það var þannig að hveitið er sett í haug á borð og svo gerð smá hola í hauginn og þar setur maður salt,þurrger, olíu og volgt vatn og svo fengu allar hendur að kremja og hnoða og pota í hauginn með yfirsjón minni að sjálfsögðu. Krökkunum fannst þetta alveg frábært. Á meðan deigið hefaðist fóru krakkarnir út að leika svo þegar átti að fletja út og setja á þá komu þau inn og fengu öll að gera sínar pizzur, svo voru þær settar inn í 250 gráðu heitann ofn í 20 mínútur og þá réðust þau á pizzurnar og hámuðu þær í sig. Alveg hreint ótrúlega skemmtilegt!

Ekta napólskar pizzur
f/2 pizzur ég mæli með 4 pizzum(þunnum) fyrir 5-6 manns
400 gr hveiti
7-10 gr þurrger
1 glas volgt vatn
4-5 msk ólífuolía
salt(fínt borðsalt, ekki flögu)
Aðferð:
1. Allt fyrir utan vatnið er sett í haug á borð og vatninu blandað saman við lítið í einu og hnoðað þar til deigið er orðið glansandi fínt.
2. Látið hefast í klukkustund á volgum stað, t.d. ofan á ofni.
3. Deigið er flatt út og tómatsósan sett á og álegg sem hverjum og einum þykir gott, toppað með rifnum osti og bakað við 250+ gráður í 20 mín.

Ítölsk pizzasósa
2 dósir heilir niðursoðnir tómatar
4 msk extra virgin ólífuolía
smá óreganó
1-2 hvítlauksrif, kramin eða skorin smátt

Aðferð:
1. Tómatarnir skornir smátt og allt sett í pott og soðið niður þar til orðið nokkuð þykkt.

Ég mæli með því að hella smávegis af ólífuolíu yfir pizzurnar um leið og þær eru teknar út úr ofninum, það gerir þær aðeins safaríkari og að gera eina uppskrift í einu, þannig er hægt að vera með eina í ofninum, að vinna í einni og jafnvel krakkarnir byrjaðir að borða eina.

Saturday, October 11, 2008

Laugardagur

Það er mjög gott að skemmta vinum og vandamönnum svona einu sinni í viku og fá mat í staðinn, ég mæli með því. Sérstaklega þegar peningarnir eru alveg að verða búnir.

Mamma má ég borða hjá þér?

Föstudagur

Ég: að vinna
Sverrir: egg og beikon, enfalt, gott og alveg hræðilega óhollt.
Hekla: hjá ömmu

Thursday, October 9, 2008

Lax með sýrópsengifermarineringu


Katrín 16 ára: ,, mmm þetta er eins og nammi!"

Einfaldur og unaðslegur eru einkunnarorð þessa réttar. Ég fann lax á tilboði, stökk á það og hér er einn réttur fjölskyldunnar sem slær alltaf í gegn.

Lax í hlynsýróps og engifermarineringu
f/6

2 laxaflök
6 msk hlynsýróp
1/2 bolli vatn
1-2 msk rifið engifer
2 hvítlauksrif, kramin
1 tsk rauðar piparflögur(red pepper flakes)

Aðferð:
1. Sýróp, vatn, engifer, hvítlaukur, piparflögur settar saman í litlum pott og hitað þar til blandast vel saman.
2. Laxaflökin sett í ofnfat og marineringunni hellt yfir. Bakað í ofni við 200°C í 12-14 mín.

Ég bar þetta fram með kartöflumús með fetaosti

Kartöflumús með fetaosti

f/6 manns

600 gr kartöflur
200 gr smjör
salt
mjólk
100 gr fetaostur
gott að setja paprikur með, annað hvort grillaðar eða hráar en ég bara átti þær ekki í skápnum þetta skiptið

Aðferð:
1. Kartöflurnar skrældar og soðnar í söltu vatni í ca. 20 mín eða þar til þær eru soðnar alveg í gegn.
2. Kartöflurnar stappaðar og smjöri, salti blandað saman við. Smakkað til þar til ykkur finnast þær nægilega góðar.
3. Fetosti blandað saman við

Ég bar þetta fram með krakkasalati en það er iceberg salat með furuhnetum og dressingu með mangóediki og ólífuolíu. Ég reyndar verð að viðurkenna að mangóedikið var að sjálfsögðu rándýrt en ég stalst til að kaupa það um daginn, en já þá var ég heldur ekki byrjuð að spara svona rosalega. En ég sagði það líka í greininni í fyrradag að ég verð að fá að stelast svona annað slagið.

Wednesday, October 8, 2008

Marbella kjúklingur


Snilld og ekkert annað en snilld
Marbella kjúklingurinn í hversdagslegum búning


2 kjúklingar eða 2 bakkar af kjúklingabitum(blönduðum)
200 ml olía
100 ml balsamico edik
200 ml hvítvín, hér má nota mysu
1/2 hvítlaukshaus
100 ml óreganó, hér má minnka bruðlið og setja 50 ml
púðursykur
ólífur
capers
sveskjur
(lárviðarlauf) á það mjög sjaldan og sleppi því mjög oft, það er í góðu lagi
salt og pipar

Aðferð:
1. Blandið saman olíu, ediki, hvítvíni, óreganó og hvítlauk í skál og hrærið vel saman.
2. Skerið kjúklinginn í bita þ.e. legg&læri, bringur og vængi
3. Leggið bitana í ofnskúffu, saltið og piprið og hellið svo vökvanum yfir
4. Hér er hægt að annað hvort marinera kjúklinginn í allt að einn sólarhring eða sleppa því alveg.
5. Rétt áður en honum er stungið í ofninn er púðursykri smurt á hvern bita og ólífum, kapers og sveskjum dreift jafnt í allar smugur á milli bitanna, fyrir utan kapers passið að setja ekki svo mikið af því kannski eina msk.
6. Bakað í ofni við 200°C í 30 - 40mín eða þar til kjúklingurinn er dökkbrúnn af ofan og vökvinn úr honum er glær þegar stungið er í hann.
7. Gott er að dreypa vökvanum í skúffunni yfir kjúklinginn svona einu til tvisvar sinnum á meðan á eldun stendur.

Þetta er borið fram með Jasmin/Basmati hrísgrjónum og fersku salati með tómötum og parmesan/feta/avócadó/furuhnetum eða bara því sem hugurinn girnist og það sem til er í skápnum.

P.s. þennan rétt fæ ég úr bók sem heitir Silver Palate og er hin mesta snilld. Þennan rétt er hægt að bera fram daginn eftir eða jafnvel tveimur dögum eftir og hann er alltaf jafn unaðslegur, það er hægt að hafa hann við stofuhita í veislu(bara leggi t.d.) og hafa hann í matarboði, sem ég og öll mín fjölskylda hefur gert í mörg ár eða eins og ég geri iðulega að elda hann á ósköp venjulegum miðvikudegi. Á þessum fær enginn leið!

Tuesday, October 7, 2008

KREPPUTAL

Jæja þá hef ég nú séð þessa síðu almennilega fyrir mér og hef ákveðið að setja þetta upp fyrir þá sem hafa ekki hugmynd um hvað á að elda eftir hvern vinnudag og hvernig á að haga sér í þessari blessuðu kreppu. Þannig er nú mál með vexti að ég fór í fjármálaráðgjöf hjá Spara.is og þar má segja að ég hafi rankað við mér, nú er að duga eða drepast og láta ímyndunaraflið fara á flug, elda ódýrt en gott. Það verður haldið í hefðir en ekki farið eftir öllum reglum ömmu gömlu, það má aðeins breyta til ekki satt?!
Ég hef nú byrjað að setja saman matseðil fyrir vikuna og eftir að hann hefur verið festur niður á blað þá fer ég í búðina(södd!) og kaupi ekkert annað en það sem stendur á miðanum og versla aðeins einu sinni í viku. Þetta gerðu foreldrar mínir öll mín uppvaxtarár og voru ekki flestar ömmur og afar með hið svokallaða búr, sem einmitt er einnig stolt Nigellu sjónvarpsmatgæðings. Þetta væri mikið þarfaþing á hverju heimili í dag. Ég er þó ekki svo heppin að hafa pláss fyrir þess háttar lúxus en ég nota það sem ég hef til fulls.
Matseðillinn hangir á ískápnum en hann er þó ekki algerlega heilagur, t.d. ef miklir afgangar verða þá nýti ég þá að sjálfsögðu daginn eftir, í flestum tilfellum ekki í sömu mynd, ég er allt of nýungagjörn til þess.
Hér inn á þessa síðu ætla ég því að setja inn matseðil vikunnar og ef ykkur finnst þetta kannski of hversdagslegt eða gammeldags, tja þá kalla þessir tímar sem við lifum á á þess háttar matargerð. Ég efast þó um að ég standist mátið að gera mér glaðan dag svona af og til og gera eitthvað magnað og fáránlega dýrt. Það verður alltaf til staðar hjá mér, kannski bara ekki á hverjum degi.
Ég set saman matseðilinn á mánudagskvöldum þar sem þriðjudagar eru frábærir til að versla, þá á ég búðina algerlega fyrir mig og allt/flest er nýtt í hillunum.

Matseðill fyrir vikuna 6.-13.okt.

Þriðjudagur.

Spaghetti Bolognese
Kallinn minn þarf að elda og er þetta frábær pabbaréttur, hann var alltaf bestur hjá pabba og Sverrir er að verða alger snillingur í honum og krakkarnir elska hann.

Miðvikudagur

Marbellakjúklingur með hrísgrjónum og salati
Það er til kjúklingur í frystinum, ólífur og capers er alltaf til í ískápnum og púðusykur í tupperware, tilvalið að nýta það sem maður á í skápunum.

Fimtudagur


Steiktur fiskur með tartarsósu og kartöflum

Allt of langt síðan ég var með fisk. Þessi liður gæti breyst, ef það verður mikill afgangur af kjúklingnum verður kannski naglakjúlli, aldrei að vita.

Föstudagur

Verð með veislu þennan dag, þannig að ætli ég borði nokkuð

Laugardagur


Krakkapizza

Ójá á laugardaginn ætla ég loksins að taka mig til og elda ekta napólskar pizzur og vonandi verð ég með fullt hús af krökkum til að hjálpa til, nú er eins gott að ofninn standi sig, eða kannski maður hendi þeim bara á grillið. (þ.e. pizzunum ekki krökkunum).

Sunnudagur


Þar sem við erum með vissa upphæð sem við megum eyða í vikunni ræðst sunnudagurinn af peningaafgangi vikunnar, það gæti verið steik og það gæti verið slátur með hafragraut. Kemur í ljós á sunnudaginn.

Vonandi líst ykkur vel á nýtt skipulag og ég lofa að vera með skemmtilegar uppskriftir í hverri viku.

Spaghetti Bolognese

Spaghetti Bolognese

500 gr nautahakk
5 msk extra virgin ólífuolía
1 laukur, saxaður
2 gulrætur, skornar smátt
4 hvítlauksrif
hægt að lauma inn smá fersku timían og rósmarín, ég átti það í ísskápnum en því má alveg sleppa.
100 gr beikon(ca 2-4 sneiðar), saxað
1 dl hvítvín
400 gr(1 dós) tómatsósa(hægt að nota heila tómata eða sósu eða saxaða)
2 msk tómatpasta
smá óreganó, þurrkað
salt pipar
1 teningur af kjötkrafti

Aðferð:
1. Saxið grænmetið og beikonið.
2. Hellið olíunni í djúpa pönnu og látið hvítlauksrifin í og hitið saman þar til hann fer að brúnast, takið hann þá úr og steikið grænmetið.
3. Þegar grænmetið er farið að mýkjast vel eftir 10-15 mín við meðal hita, er hitinn hækkaður og hakkinu bætt saman við, það er steikt þar til brúnast.
4. Hellið hvítvíninu saman við og látið gufa upp.
5. Bætið tómatsósunni saman við ásamt tómatpaste, kryddi og kjötkraftstening.
6. Látið malla við vægan hita í eins langan tíma og þið mögulega getið, allt upp í 1 klst.

Gerið ráð fyrir 80 gr af þurru spaghetti fyrir fullorðna konu, 100 gr fyrir karlmann og 70 gr fyrir börn. Svo eftir því sem árunum líður og spaghetti er borðað oftar ætti maður að vera kominn með grömmin sem maður borðar, tja eða það gera Ítalirnir, ætli við séum svo úthugsuð???
Í þetta skiptið áttum við sykurbaunir inni í ískáp sem lágu undir skemdum og hentum þeim því með og ekki skemmdi það nú fyrir.

Sunday, June 8, 2008

Rúgbrauð

Það hefur lítið verið um nýjar uppskriftir á þennan vef vegna mikilla anna, ekki það að ég sé ekki að elda fyrir fjölskylduna á hverju kvöldi, eða sona næstum því heldur er það frekar að ekki hafi gefist tími til að setja þær allar inn.
Þar sem ég bý ekki á Íslandi þessa stundina þá er ég ekki svo heppin að geta gengið út í búð og keypt mér rúgbrauð. Ég fékk síðan tilboð frá veitingastað hér í Mílanó um að sjá um íslenskan kvöldverð á kynningu sem er á vegum ferðaskrifstofu hér í borg. Ég þáði það en svo kom babb í bátinn, allt sem er íslenskt fæst bara á Íslandi, eða hvað? Ég fór því á stúfana á netinu og fann rúgbrauðsuppskrift sem ég svo prófaði að gera. Þessi uppskrift tók mig bókstaflega engan tíma að undirbúa en hins vegar á það að vera inni í ofni í 12-13 tíma, en ég tók hins vegar lítið eftir því því að ég setti brauðið inn rétt eftir kvöldmatinn og það var svo inni yfir nóttina og kom rjúkandi heitt og unaðslegt úr ofninum tilbúið í morgunverðinn.
Ég vil taka það fram að þessi uppskrift kemur ekki frá mér beint en ég hins vegar skoðaði þær svo margar á netinu að ég man ekki hvaðan þessi kemur, ég bara varð að setja þetta hérna inn fyrir ykkur vinkonur mínar sem eru búsettar erlendis eins og ég. Við toppuðum svo alveg reynsluna með því að fara í IKEA og kaupa síld...
Uppskriftin er svohljóðandi:

Rúgbrauð
6 bollar rúgmjöl(enska: rye, ítalska: farina di segale, fæst í náttúruverslunum)
6 bollar heilhveiti/hveiti/gróft spelt
7 bollar sojamjólk/AB-mjólk/súrmjólk
5 tsk natron(baking powder, fæst í ethnic búðunum)
3 tsk salt
500 g algave sýróp/maple sýróp

AÐFERÐ:
Fyrst er þurrefnunum blandað saman og þá er blautu efnunum bætt saman við, hrært vel. Sett í mjólkurfernur, eða kalkúnapott(fylltar aðeins til hálfs eða 3/4) og sett í ofn við 100°C-120°C í 12-12 tíma.
ATHS: Þar sem það fæst ekki hér á Ítalíu hvorki súrmjólk né AB-mjólk notaði ég sojamjólkina og ég fann engan mun, ég notaði einnig heilhveiti sem var mjög gott og ég notaði maple sýróp þar sem annað sýróp er ekki til hér í Mílanó. Ég helmingaði uppskriftina og fékk 2 brauð úr því. Annars er alltaf hægt að frysta..
Ofninn minn er ekki alveg það besta á markaðnum og hafði ég hann á 100°C en brauðin voru ekki tilbúin eftir 13 tíma þannig að ég mæli með að fyrsta skipti sem þetta er prófað að hafa ofninn í 120°C, nema um sé að ræða flotta, nýja ofna.
Njótið vel.