Tuesday, March 31, 2009

Sníkja, sníkja, sníkja

Ég ætla mér að vera sníkjudýr á morgun og sníkja mat hjá tengdó eða foreldrum mínum fer eftir hvor býður betur(eða kannski hvor býður) en í kvöld verða pulsur. Þið eruð ef til vill að velta því fyrir ykkur hvers vegna ég læt svona illa í eldhúsinu en ástæðan er að við erum að fara til lands matarástríðunnar, eða Ítalíu á fimmtudaginn og þar förum við í ekta suður-Ítalskt, mjög kaþólskt brúðkaup innilegrar vinkonu minnar en það vill svo til að hún er snilldar Michelin matreiðslumaður. Hún hefur unnið á einum frægasta veitingastað Ítalíu en hann státar hvorki meira né minna en 3 stjörnum(ekki hægt að fá meira) og hefur haldið þeim lengi, hann er staðsettur í hlíðunum fyrir ofan Napólí, hún sýndi mér hann einhvern tímann á netinu en ég bara man því miður ekki hvað hann heitir. Ég mun spyrja hana og setja inn slóðina hér síðar. Ég hlakka alveg rosalega til að fara til hennar og gæða mér á matnum hennar og það sem verður boðið upp á í brúðkaupinu. Ég er búin að geyma eins og 3-4 kíló til góða fyrir þessa ferð og mun því ekki hafa neitt samviskubit yfir þeim þegar ég kem heim, því ég veit að þau verða komin. Síðast þegar við vorum hjá henni þá var svoleiðis troðið ofan í okkur góðgætinu að við máttum hafa okkur öll við og greyið hann Sverrir minn fékk alltaf auka skamt án þess að biðja um hann og tja fyrir þá sem ekki þekkja manninn minn þá er hann mjög matgrannur og borðum við oftast jafnmikið þannig að hann þurfti að pína ofan í sig gúmmulaðið með tárin í augunum horfandi á mig með ,,þarf ég að borða meira?" spurninguna í augunum og ég með böðulsaugnaráði horfði til baka, vildi ekki móðga þessa góðu konu, skipandi honum að troða þessu ofan í sig.
Buxurnar okkar virtust hafa hlaupið eitthvað í þvottinum þarna hjá henni, skildi ekkert í því sérstaklega þar sem ég setti þær alls ekkert í þvott, en hvað um það.
Ég ætla að reyna að taka eitthvað upp á vídeó eins og ég gerði þegar ég fór upp að Gardavatni og tók upp þegar gamla konan var að elda Spiedini og setja hér inn á síðuna, vonandi næ ég einhverju skemmtilegu og áhugaverðu fyrir mataráhugafólk. Ég ætla líka að reyna að ná einhverjum uppskriftum upp úr vinkonu minni. Það getur verið flókið mál að fá góðar og gamlar uppskriftir upp úr þeim en mér hefur tekist að ná nokkrum en þarf og vil fleiri.
Þannig að ég mun hvíla þessa síðu þar til á föstudaginn í næstu viku og vonandi kíkið þið inn hjá mér þá.
Góðar stundi á meðan og Gleðilega páska!

Monday, March 30, 2009

Ennþá ,,skyndibita"vika

Þetta hefur gengið vonum framar að finna eitthvað í skápunum hjá mér, nema á laugardaginn eldaði maðurinn minn fyrir mig og þá var spreðað 3000 kall í kvöldmatinn. Það voru lambafille með ekta Bernaise sósu, bökuðum kartöflum, léttsteiktum sykurbaunum og smjörsteiktum gulrótum. Hann stóð sig alveg rosalega vel. Ég held reyndar að við munum grilla lambafille-ið næst, íbúðin lyktar enn eins og lambafita. Í gærkvöldi var okkur svo boðið í mat, mjög hentugt, og í kvöld verða samlokur og ég býst við að það verði eitthvað mjög beisik en aldrei að vita hvort maður finni eitthvað innst í ísskápnum sem gæti verið lostæti á ósköp venjulega samloku.

Friday, March 27, 2009

Kótelettur Milanese

Ég stóðs það! Búin heil vika og ég hef einungis eldað úr því sem til var í skápunum og heldur það áfram í kvöld.
Í gærkvöldi hafði Sverrir tekið út úr frystinum svínahnakka en við áttum ekki kartöflur þannig að ekki kom til greina að búa til BBQ eins og vanalega þannig að þá var bara að taka það sem til var í skápnum og endaði ég með Svínahnakka Milanese og risotto Milanese.
Kótelettur Milanese þýðir í rauninni bara að það er sett í brauðrasp, ekki Paxo, það er einkennilegasti raspur sem ég hef séð, ég nota Panko sem er kannski meira fyrir djúpsteiktar rækjur en það var það sem var til. Það er líka hægt að rista brauð og hakka í múlínex, þá er kominn hinn fínasti raspur.
Svínahnökkunum eða kótilettunum er svo velt upp úr eggi sem hefur verið pískað með smá vatni og svo í raspinn og steikt upp úr örlítilli smjörklípu og olíu(eða sleppa smjörinu, kannski hollara). Ég kryddaði aðeins raspinn með fersku timíani(best að nota það áður en það eyðileggst), salti, nýmöluðum pipar og poultry seasoning. Svín og kjúklingur eiga það sameiginlegt að passa mjög vel við Salvíu og tja flest krydd sem passa með kjúkling passa með svíni(ljóst kjöt).
Risotto Milanese er risotto kryddað með saffrani. Þá er gert venjulegt risotto og svo er klípu af saffrani bætt saman við í endann.
Ég setti 1 kubb af kjúklingakrafti og 1/2 af grænmetiskrafti í 1 ltr af vatni og fannst mér það koma miklu betur út en bara kjúklingakrafturinn, gæðin í þessu eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en þetta er það ódýrasta og því er það keypt, ótækt að vera alltaf að henda í kjúklingasoð!
Ég bragðbætti einnig með afganginum af Stroganoff sósunni og það gerði sko gæfumuninn!
Lostæti!
Í kvöld verður það svo steikt eggjahrísgrjón með svínakjöti. Þá tek ég afganginn af risottoinu hendi því á pönnu, sker kjötið í bita og hendi saman við og svo eins og einu, tveimur eggjum og steiki, ekki slæmir afgangar það!

Wednesday, March 25, 2009

Skyndibitavika

Þessi vika verður mjög sérstök, því peningurinn er að verða uppurinn svo að við gátum aðeins keypt nauðsynjar í búðinni og þá var lítið eftir fyrir kvöldmat. Í gær vorum við því með spaghetti pomodoro sem ég hef sett uppskriftina að hér á síðuna. Ég reyndar bragðbætti með soðsósunni af Stroganoffinu og varð sósan algjört æði!!!
Ég held ég verði að taka þessa viku dag fyrir dag og sjá hvað er til í skápunum hjá mér, en ég fer ekki út í búð sama hvað á gengur, það er á hreinu!
Hausinn er núna búinn að liggja í bleyti alllengi og ég á sem sagt kartöflur,brauð, fullt af eggjum og eitthvað fleira. Ég stakk upp á kartöflusalati með túnfisk en eiginmanninum langaði ekki í það, þá kom hann með eggjaköku en okkur stelpunum langaði ekki í það, en við gátum öll sæst á samlokur með skinku, osti, gráðosti, sinnepi(dijon) jafnvel steiktar upp úr smjöri og steiktar kartöflur með saffran og steinselju.
Samlokurnar útskýra sig sjálfar en kartöflurnar eru svona:

Steiktar kartöflur með saffran og steinselju
f/4
400 gr kartöflur, soðnar
saffran á hnífsoddi
1 msk steinselja, söxuð
Smjörklípa

Aðferð:
1. Kartöflurnar eru soðnar
2. Saffran er sett með smjörinu á pönnu ásamt steinseljunni og síðan kartöflurnar og þetta steikt þar til kartöflurnar verða fallega fullinbrúnar.

Saturday, March 21, 2009

Nokkurs konar Stroganoff

Ég var búin að setja hér inn heillanga lýsingu á Stroganoffi sem svo datt öll út þar sem tölvan varð batteríslaus, en þá er ekkert annað að gera en að setja þetta aftur inn.
Ég var búin að ákveða að fara eftir uppsrift að þessum fræga rétti en svo kom í ljós að ég átti ansi lítið til af hráefninu í skápnum, þannig að úr varð nokkurs konar stroganoff.
Strangt tiltekið er stroganoff búið til úr kjötstrimlum/teningum, sveppum, sýrðum rjóma, tómötum og niðursoðnu kjötsoði, en ég átti ansi lítið til af þessu og þurfti ég að nota það sem var til þannig að mín útgáfa varð eftirfarandi:

Nokkurs konar Stroganoff
f/4
2 bakkar svínagúllas eða nautagúllas
3 gulrætur, skornar í bita
3 sellerístönglar, skornir í jafnstóra bita
1 laukur, sneiddur
3 skallottulaukar, sneiddir
10 timíangreinar
steinseljustilkar ef þeir eru til
3 tómatar skornir í báta
2 tsk tómatpúrra
2 kjötkraftsteningar
2 msk balsamic edik
150 ml hvítvín, rauðvín væri betra en ég átti það ekki til
vatn
2 tsk dijon sinnep
Smjörklípur
Hveiti til að velta uppúr
salt og pipar

Aðferð:
1. Skerið græmetið fyrir utan tómatana og steikið þar til brúnast.
2. Hellið hveiti í poka ásamt salti og pipar(paprikudufti ef vill) og hristið allt til og frá og hyljið kjötið alveg, takið það svo upp úr og hristið aukahveiti af. Steikið þar til brúnast.
3. Setjið svo allt í djúpan pott saman og hellið ediki og víni yfir og sjóðið aðeins niður. Hellið þá vatni yfir þannig að hylji kjötið og bætið restinni af hráefninu saman við og sjóðið í ca klukkutíma. Þegar þið hafið soðið þetta í klukkutíma þarf að taka einn bita og athuga hvort hann sé meyr, ef hann er það má sigta soðið frá og sjóða niður á meðan kartöflur eru soðnar og búin er til kartöflumús. Ef kjötið er ekki tilbúið þarf að sjóða enn lengur.
4. Þegar músin er tilbúin ætti sósan að vera búin að þykkjast örlítið og vera orðin bragðmikil og góð, þá er kjötinu bætt útí sósuna(eða öfugt) og kjötið hitað upp aftur í nokkrar mínútur.

Ath. það er mjög mikilvægt þegar keypt er svína-eða nautagúllas tilbúið í bökkum þarf að hafa í huga að þetta er skorið af seigum vöðva dýrsins og þarf að elda það hægt og í langan tíma, annars verður það alltaf seigt.

Wednesday, March 18, 2009

Salade Nicoise

Eiginmaðurinn var eitthvað pirraður yfir að þurfa að fara í búðina og vita ekkert hvað Salade Nicoise er, en hér kemur uppskriftin og hann var hæstánægður með útkomuna í kvöld.
Þetta er klassískt salat sem hefur farið sigurför um heiminn, það er þó nokkuð misjafnt hvernig það er gert og hvað er nákvæmlega í því en samkvæmt hefðinni á það að vera aðeins öðruvísi en ég hafði það í kvöld, en aðaluppistaðan eru tómatar, ansjósur eða túnfiskur, grænar baunir(strengja,sykur eða þvíumlíkar), laukur, harðsoðin egg, svartar ólífur og ólífuolía. Samkvæmt reglunum má ekki setja eldað grænmeti eða kartöflur í þetta salat en eru reglur ekki til að brjóta þær?
Þetta er franskt salat nánar tiltekið frá Nice. Við stoppuðum einmitt í Nice síðasta sumar og mikið óskaplega er þetta falleg borg! Við kolféllum fyrir henni og hlakka ég mikið til að komast þangað aftur.
Salatið er létt og ferskt eins og Miðjarðarhafsbúum er einum lagið.

Salade Niciose
f/4
8 kartöflur, soðnar og skornar í fernt
6 harðsoðin egg, skorin í fernt
4 tómatar, vel þroskaðir og skornir í 6 báta
200 ml svartar steinlausar ólífur, ef þið eigið Kalamata væri það náttúrulega best
50 ml söxuð steinselja
300 ml túnfiskur í dós, í olíu, olíunni hellt af
4 ansjósur, má sleppa(sem ég gerði)
1/2 skallottulaukur eða 1/4 rauðlaukur, sneiddur mjög fínt
ef þið viljið er mjög gott að hafa léttsoðnar strengja-eða sykurbaunir en ég var búin með budgetið þessa vikuna þannig að það fékk ekki að rata í innkaupakörfuna

Dressing
1 1/2 tsk dijonsinnep
2 msk rauðvínsedik
4 msk olífuolía
1/2 tsk sykur
smá salt
vel af nýmöluðum pipar

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar og eggin
2. Á meðan blandið þið saman í skál tómötunum, ólífum,lauk og steinselju
3. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær kældar þar til þær eru volgar, þá eru þær skrældar og skornar og settar á fat, tómata og ólífublöndunni er hellt jafnt yfir þær og eggjunum raðað í kringum salatið. Næstsíðast er túnfisknum dreift yfir og hann hafður í grófum bitum, síðast er dressingunni hellt jafnt yfir allt saman, e vuola'!

Dressing
Aðferð:
1. Sinnepi, ediki, salti og sykri er blandað saman og svo er olíunni hellt varlega saman við þar til hún þykknar örlítið.

Gott er að bera salatið fram með bökuðu baguette brauði. Einnig er mjög gott að hafa þetta ofan á baguette brauði og láta það liggja aðeins á brauðinu þannig að það sameinist í eitt(eða þannig)

Monday, March 16, 2009

Matseðill fyrir vikuna 16.03-20.03.

Þá er mars hálfnaður og það styttist óðum í utanlandsferð til matarlandsins mikla og ég get ekki beðið eftir því að sitja í leti með fullan munninn af unaðslegum osti!
Ég er þó enn hér á fróni með hugan í bleyti yfir matseðli vikunnar. Kvöldið verður lítilfjörlegt þar sem Hekla fékk grjónagraut og lifrarpylsu hjá ömmu sinni og situr nú sæl og södd og leikur sér og eiginmaðurinn er í fótbolta, þá er það bara samloka handa mér, engar gloríur þar. Vikan er þó framundan og ekki er hægt að bjóða heimilisfólkinu upp á samlokur endalaust, við þurfum næringu. Ég var að blaða í gegnum uppáhaldsuppskriftabókina mína þessa dagana og er núna með svo yfirfullan heilan af hugmyndum að það er frekar erfitt að beisla þetta og komast að niðurstöðu með einn rétt í einu, mig langar í allt! Græðgin er alveg að taka yfirhöndina en ég mun berjast og sigra á endanum að vanda. Ég er eiginlega alveg viss um að gúllaskjöt sé mjög ódýrt og tel það ágætan kost að búa til stroganoff úr því, en athugið að sjóða vel kjötið og ekki bjóða upp á hann án þess að hafa smakkað einn bitann og ef hann er ekki seigur er rétturinn tilbúinn. Það hefur viðgengst hér á Íslandi allt of lengi að fólk er að flýta sér of mikið og lætur kjötið ekki sjóða nægilega lengi og þá er allt saman svo ólseigt að varla er hægt að borða það, ekki er það mjög spennandi fyrir litlar, nýjar tennur. Matarmikil salöt koma sterk inn þessa vikuna og ætla ég að prófa eitthvað nýtt á þeim vettvangi, svo er spurning um fiskrétt.
Best að ljúka þessu með matseðlinum sjálfum.

Þriðjudagur
Ballettsýning hjá Heklu, þannig að það verður lítið um eldamennsku

Miðvikudagur
Salade Nicoise

Fimmtudagur
Svínahnakkar með frönsku kartöflusalati með beikoni

Föstudagur
Nautakjöts eða svínakjötsstroganoff(fer eftir hvort ég finn í búðinni og hvort er ódýrara)

Friday, March 13, 2009

Pulsur og svínalundir með gráðostasósu

Það var svo mikið stress á mér í vinnunni síðustu daga að ég gat bara ekki hreyft mig þegar heim var komið svo að í gær voru pulsur og svo í kvöld verðum við með svínalundir með gráðostasósu og franskar kartöflur, klassi. Sverrir hefur séð um eldamennskuna síðustu tvo daga og stendur sig með prýði að vanda. Hann reyndar sauð kartöflurnar fyrst og steikti svo upp úr mikilli olíu og smá smjöri, við týmdum ekki að kaupa franskar kartöflur, þær voru eitthvað svo dýrar allt í einu, svo erum við í massívum sparnaðaraðgerðum og þá er bara að nýta það sem er til í skápunum.
En nú ætla ég að fara og gæða mér á góðgætinu....

Thursday, March 12, 2009

Linsubaunaborgarar með tzaziki sósu

Ég verð nú að segja að uppskriftina að þessu er frekar erfitt að finna út, þar sem ég notaði afgangana frá hinu nokkurs konar ratatuille sem ég gerði um daginn, þannig að kryddið í borgarana kom þaðan. En þeir voru bara helvíti góðir, það hefði kannski mátt krydda þá aðeins betur eða meira, en tzaziki sósan smellpassaði með, mæli sérstaklega með henni. Þetta tók líka enga stund að búa til, ætli ég hafi ekki verið um það bil 30 mínútur að búa allt saman til, en það þarf að taka til greina að linsubaunirnar voru þegar soðnar, venjulega tekur um 30 mínútur að sjóða þær.
Þar sem þetta var mjög svo óljós uppskrift þá ætla ég að slumpa á magnið í borgurunum í þetta skiptið þannig að ekki skammast ef borgararnir eru ekki alveg eins og þið hefðuð ímyndað ykkur, ja eða smakkað áður. Ég hef nefnilega aldrei smakkað linsubaunabuff eða neitt í líkingu við þetta áður og hafði því ekki hugmynd um hvernig þetta átti allt saman að líta út en maður bara klórar sig fram úr hlutunum eins og venjulega.

Linsubaunaborgarar
f/4
ca 200 gr soðnar grænarlinsur(ath þær eru léttari fyrir suðu)
2 kartöflur, soðnar
salt og pipar
krydd eftir smekk
1 egg
3 msk raspur, ég notaði japanska raspið sem maður notar í djúpsteiktar rækjur
meiri raspur til að velta upp úr og eitt egg til að velta upp úr
hveiti til að velta upp úr
Franskar kartöflur
4 hamborgarabrauð
2 tómatar, sneiddir
Icebergsalatblöð
gúrkusneiðar ef vill
Ostsneiðar ef vill
tzaziki sósa-sjá uppskrift neðar

Aðferð:
1. Sjóðið kartöflurnar og linsubaunirnar. Þegar þær eru tilbúnar er þetta stappað saman ásamt kryddi, eggi og raspi.
2. Mótið borgara með höndunum og leggjið á disk og búið til sósuna, setjið frönsku kartöflurnar í ofninn og skerið tómata og salat til að setja á borgarana.
3. Þegar allt er tilbúið og kartöflurnar malla í ofninum er eggið léttþeytt í eina grunna skál, hveiti sett í aðra og raspur í þá þriðju. Hitið stóra pönnu með olíu.
4. Þá er einum borgara í einu velt fyrst upp úr hveiti þá upp úr egginu og síðast raspinu og borgarinn settur á pönnuna, þetta er gert við alla og steiktir við meðal hita á hvorri hlið og osturinn settur á seinni hliðina. Þegar fallega gullinbrún húð hefur myndast á hvorri hlið eru borgararnir settir inn í ofn á meðan hamborgarabrauðin eru hituð og kartöflurnar klárast.
Þegar brauðin eru orðin heit ætti allt að vera tilbúið fyrir alla að setja á sinn hamborgara.

Tzaziki sósa
gerir u.þ.b. 300 ml af sósu

150 ml sýrður rjómi
150 ml majónes
salt og pipar
ca 10 sm biti af gúrku, rifinn með rifjárni
1/4 hvítlauksrif, kramið eða rifið með rifjárni

Aðferð:
1. Hrærið vel saman sýrðum rjóma, majónesi, salti og pipar þar til allir kekkir hafa horfið.
2. Bætið hinu saman við og smakkið til.

Einnig er gott að nota sósuna sem ídýfu með hvers kyns snakki og þá sérstaklega mæli ég með Bugles.

Tuesday, March 10, 2009

Bjórbrasseraður kjúklingur

Mamma hefur notað bjór ansi mikið síðustu misseri í að grilla kjúkling, hún á til þess gerðar græjur en ég á það hins vegar ekki og ákvað ég því að gera mína útgáfu af þessu. Ég nota leirpottinn minn en ef ég ætti svokallaða(á ensku)roasting pan þá myndi ég frekar vilja nota hana, en maður bara notar það sem maður á.

Bjórbrasseraður kjúklingur með maple-sinnepsgljáa
f/4
1 kjúklingur
3 litlar gulrætur, skornar í bita
2 sellerístönglar, skrældir og skornir í bita
1/2 laukur, sneiddur
1 lítill skallottulaukur, sneiddur
1 tómatur, skorinn í bita
4 -5 kartöflur, skornar í stóra bita
200 ml bjór, tegundin skiptir ekki miklu máli en því meiri bitter bjór því meira bitter verður sósan, ég notaði í þetta skipti Tuborg þar sem það var til í ísskápnum
1 grein rósmarín, bara nálarnar
smá klípa Poultry seasoning
salt og pipar
1 teningur kjúklingakraftur+

Gljái
1 msk Dijon sinnep
1 msk maple sýróp

Aðferð:
1. Skerið grænmetið ásamt kartöflunum og steikið í pottinum sem þið ætlið að nota fyrir kjúklinginn í ofninn. Látið það fá smá lit.
2. Troðið smjöri innundir húð kjúklingsins
3. Færið grænmetið til hliðanna í pottinum og steikið kjúklinginn létt á hvorri hlið og látið svo liggja með bringuna upp. Hellið þá bjórnum yfir og látið sjóða niður í 4 mínútur. Hellið þá 100 ml af vatni yfir ásamt kryddi. Berið helming gljáans yfir kjúklinginn og setjið inn í ofn við 200°C í ca klukkutíma. Takið kjúklinginginn út úr ofninum ca 10 mínútum fyrir áætlaðan eldunartíma og berið afganginn af gljáanum á kjúklinginn og takið lokið af og hafið loklaust afganginn af tímanum.

Monday, March 9, 2009

Matseðill fyrir vikuna 09.03-13.03

Þessa vikuna verður sparað allverulega, því í næsta mánuði er stefnan tekin á Salerno í brúðkaup og svo þar á eftir til Rómar, þannig að það þarf að eiga smá gjaldeyri.
Ég verð því með risotto í kvöld og svo hafragraut það sem eftir er vikunnar, ójá hafragraut í fullt af nýjum útgáfum, með rúsínum, með kanilsykri, með kakó og já bara alls konar. Nei það er ekki alveg hægt. En réttirnir verða einfaldir og góðir að vanda. Ég verð að draga allt úr frystinum sem ég get og nýta, nýta, nýta út í hið óendanlega.
Ég er að spá í linsubaunabuffi úr afgöngunum frá síðustu viku, þó ég viti að eiginmaðurinn verði ekki ánægður með það hann er ekki mikill aðdáandi linsubauna, því miður.
Ég tók út kjúkling áðan þannig að það verður kjúklingur á morgun en ætli sé ekki best að ég setji hér inn matseðilinn.

Mánudagur
Risotto bianco með ofnbökuðu baguette brauði

Þriðjudagur
Brasseraður kjúklingur
Ég á svo mikið af grænmetisafgöngum og þetta er besta leiðin til að nýta þá

Miðvikudagur
Linsubauna hamborgarar með tzaziki, beikoni og grænmeti

Fimmtudagur
Fiskur dagsins, er að spá í einhvers konar ofnrétt

Föstudagur
Svínalundir

Sunday, March 8, 2009

Amerískar pönnukökur með unaðslegri eggjahræru og beikoni

Ég vaknaði í morgun með óstjórnlega mikla löngun í amerískar pönnukökur og einfaldlega varð að láta verða af því. Ég gerði líka eggjahræru með sem heppnaðist svo vel að ég ætla að skrifa hér niður uppskriftina, líka svo ég muni hana næst þegar ég geri þetta. Ég fjárfesti í gær í maple sýrópi sem er gjörsamlega ómótstæðilegt, það heitir Spring Tree pure maple syrup, það kostar sitt og passar kannski ekki alveg við tilgang þessarar síðu, þ.e. að vera með ódýra og góða rétti en ég bara varð að fá þetta, það er unaðslegt!
Pönnukökuuppskrift frá Vox mun fylgja aukablaði Fréttablaðsins næsta laugardag og mæli ég með henni en hér er uppskriftin af eggjahrærunni.

Unaðsleg eggjahræra
f/2
4 egg
50 ml mjólk(ég notaði léttmjólk)
1 tsk sojasósa
1 tsk óregano
1/2 tsk poultry seasoning
5 ostsneiðar
salt og pipar
smá smjörklípa til að steikja upp úr

Aðferð:
1. Hrærið öllu vel saman og steikið við meðalhita í smá smjöri og enn minni olíu, hrærið vel í en varlega þar til eggin eru örlítið þurr á að líta og ekki slepjuleg.

Berið fram með stökksteiktu beikoni(sem ég grilla alltaf í ofninum) og amerískum pönnukökum smurðum með smjöri og hellið nóg af sýrópi yfir. Mmmm.... mig langar í svona aftur í kvöld!

Saturday, March 7, 2009

Spaghetti með kjötbollum

Ég var frekar súr í gærkvöldi þannig að eiginmaðurinn var svo indæll að taka að sér eldamennskuna. Við vorum búin að taka út kjöthakkið fyrir réttinn svo að það var ekki hægt að snúa frá settum plönum, þó hann hefði feginn viljað panta eldsmiðjupizzu sérstaklega þar sem við vorum ekki komin heim fyrr en um klukkan 19:00 um kvöldið. En hann tók sig saman og eldaði beint upp úr Silfurskeiðinni dýrindis spaghetti með kjötbollum(reyndar í bókinni er það Rigatoni með kjötbollum). Ég var svo stolt af honum og bókinni að sjálfsögðu!
En þar sem uppskriftin er úr bók, væri ekki gott af mér að setja hana hér inn, þannig að endilega kaupið bókina og eldið upp úr henni, ég mæli eindregið með henni!

Steikt ýsa með nokkurs konar Ratatuille og linsubaunum

Við áttum afganga af zucchini og eggaldini og urðum að nýta það þar sem það er hluti af dýra grænmetinu og kemst ekki oft inná innkaupalistann af þeim sökum, en er svo rosalega gott steikt, grillað eða marinerað. Þannig að mér datt í hug að nota þetta í einhvers konar ratatuille og þetta passaði alveg rosalega vel við fiskinn. Ég steikti hann á einfaldan hátt eins og ég gerði um daginn og var þetta dýrindis máltíð.

Steikt ýsa með ratatuille og linsubaunum
F/4
1 kg ýsa
smá hveiti
2 msk ólífur, saxaðar gróft
1 msk capers
150 ml hvítvín

Ratatuille
1/2 eggaldin, skorið í teninga
1/2 zucchini, skorið í teninga
2 gulrætur, skorið í teninga og forsoðið
1/2 laukur, saxaður gróft
1 dós af niðursoðnum tómötum, saxaðir eða heilir og svo saxaðir
1 tsk tómatpúrra
1 hvítlauksrif, kramið
salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
1. Skerið grænmetið og hitið olíu á pönnu(helst extra virgin). Fosjóðið gulræturnar þar til þær eru næstum meyrar.
2. Steikið allt grænmetið saman á pönnunni þar til það er meyrt og hellið þá tómötunum ásamt vökvanum yfir og bætið tómatpúrrunni saman við. Saltið og piprið.
3. Roðflettið ýsuna og veltið upp úr hveiti og dustið allt aukahveiti af. Hitið olíu og smjörklípu(má sleppa) á pönnu og steikið við meðalháan hita þegar gullinbrún húð hefur myndast er fisknum snúið við og ólífunum og capers bætt saman við. Þegar gullinbrún húð hefur einnig myndast á seinni hliðina á fisknum er hvítvíninu hellt yfir og látið sjóða vel niður.
4. Ég hafði linsubaunir einnig með þessu og blandaði þeim saman við ratatuille eftir að hafa sett klassískt vinaigrette á það og það passaði svakalega vel og þannig gat ég drýgt matinn út í hið óendanlega. Þannig hefði ég getað sett kannski smá kjötbita, kjúkling eða bara mótað bollur og steikt fyrir afganga daginn eftir.

Berið fram með ratatuille og heitu brauði.

Tuesday, March 3, 2009

Matseðill fyrir vikuna 02.-6.mars

Maður verður víst að borða. Ég hef svona að mestu leyti losnað við flökurleikann en þarf þó að borða annað hvort léttan eða hollan mat þannig að matseðlarnir munu bera smá keim af því. Ég er þó búin að hanga á uppskriftasíðum síðustu daga og er mikið að fletta í gegnum uppskriftabækur, þannig að ég finn að ég þarf að fara að gera eitthvað skemmtilegt í sköpuninni, mig langar að gera eitthvað nýtt, eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Það virðist þó þurfa að bíða þar til í næstu viku þar sem peningarnir eru næstum uppurir fyrir þessa vikuna. Þessi vika verður frekar beisik í matargerð, mér svona sýnist að flestar uppskriftirnar hafi ég þegar sett inn á síðuna nema kannski fiskirétturinn. Eiginmaðurinn minn var að gera grænmetislasagna á fimmtudaginn var og keypti í það zucchini og eggaldin þannig að til að það eyðileggist ekki í ísskápnum er um að gera og nýta það í fiskiréttinn, hvernig á eftir að koma í ljós hins vegar. Við vorum ansi heppin þessa vikuna því okkur er boðið í mat í kvöld, alltaf skemmtilegt.

Mánudagur
Afgangar af grænmetislasagna voru teknir úr frystinum og borðaðir með bestu lyst borið fram með salati og brauði

Þriðjudagur
Matarboð

Miðvikudagur
Fiskréttur með zucchini og eggaldin

Fimmtudagur
Ítalskar kjötbollur með spaghetti

Föstudagur
Býst við að það verði afgangar af spaghetti-inu

Laugardagur og sunnudagur
tja maður kannski lummar sér til mömmu og pabba já eða tengdó og sníkir kvöldmat hjá þeim, það er aldrei að vita með helgarnar, svo skemmtilegar alltaf.